Bruðlið á Bæjarhálsi

eftir Ritstjórn

Til að fara í öllum atriðum yfir ófarir Orkuveitunnar frá því nýjar höfuðstöðvar hennar risu árið 2003, þyrfti öflugri hýsingu fyrir þessa vefsíðu. Hér verður því fjallað um nýjasta kaflann í hrakfarasögu Orkuveitunnar, mygludrauginn sem hefur angrað starfsmenn og auðvitað almenning á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2015. Myglan kom upp í svonefndu Vesturhúsi höfuðstöðvarnar, en þar hafði raki komist inn í steypu og þaðan inn í innvols veggjarins.

Það var haustið 2015 sem að starfsmenn Orkuveitunnar urðu varir við myglu og rakaskemmdir í svokallaðri vesturbyggingu Orkuveituhússins í Bæjarhálsi. Í kjölfarið var sá hluti byggingarinnar, sem eru nærri sex þúsund fermetrar, rýmdir. Síðan þá hafa ýmsar ráðstafanir verið gerðar vegna ástandsins og er áfallinn kostnaður vegna skemmdanna þegar 460 milljónir króna. Stærstur hluti áfallins kostnaðar er vegna svonefndra „tilraunaaðgerða” sem Orkuveitan réðst í á tímabilinu en skiluðu ekki árangri.

Á blaðamannafundi á föstudag kynnti Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, þrjár tillögur um viðgerðir sem voru afrakstur sérfræðivinnu færustu verkfræðinga í mygluskemmdum. Af orðum hans mátti skilja að honum litist ekki á neina þeirra og er það vel skiljanlegt. Sú ódýrasta kostar enda um 1,7 milljarð króna og sú dýrasta 2,9 milljarða króna. Þar að auki er líftími viðgerðanna mjög breytilegur og áhætta af nýjum leka talsverð í nokkrum tilvikum. Verktími viðgerðanna er einnig mjög mismunandi.

Til samanburðar skal bent á að húsið var selt fasteignafélaginu Fossi árið 2013, sem er í eigu margra lífeyrissjóða, fyrir 5,1 milljarð króna. Upphaflegur byggingakostnaður, uppreiknaður til þess árs var 9,4 milljarðar króna. Það er því ljóst að sama hver viðgerðarkostnaðurinn verður á endanum, þá á hann eftir að verða verulegur.

Einnig skal bent á að í máli Sveins Hreinssonar, framkvæmdastjóra fasteignafélagsins og forstjóra Orkuveitunnar, hefur komið fram að viðhalds- og endurbótaskylda Orkuveitunnar vegna hússins sé skýr í leigusamningi sem gerður var samhliða kaupsamningum árið 2013. Þannig ber Orkuveitan myglubaggann, þrátt fyrir að fasteignafélagið eigi húsið. Samningurinn er óhefðbundinn, en leiga Orkuveitunnar er sögð taka mið af skyldum Orkuveitunnar samkvæmt samningnum.

Orkuveitan hefur óskað þess að dómstóll kveðið til matsmann til að leggja mat á skemmdirnar og er ekki er útilokað að úr verði bótamál fyrir dómstólum.

Mögulega rifið

Eftir að hafa fengið í hendur tillögur sérfræðinganna og kostnaðartölur velta forsvarsmenn Orkuveitunnar því nú fyrir sér hvort það sé jafnvel skynsamlegra að rífa bygginguna. Þá yrði annað hvort byggð ný bygging á grunni þeirrar gömlu fyrir um 3 milljarða eða starfsemi Orkuveitunnar komið fyrir í öðrum húsum á lóðinni við Bæjarháls.

Ef notuð yrði góð íslenska til að lýsa stöðu Orkuveitunnar, mætti segja að hún sé í djúpum skít. Það ætti þó ekki að koma á óvart ef litið er á sögu byggingarinnar og hrakföll fyrirtækisins frá því hún reis. Þannig risu kostnaðartölur hærra og hærra fyrstu árin eftir að hún reis, langt umfram upphaflegar áætlanir, og raunar má segja að fáir viti í raun hvað byggingin kostaði. Mötuneyti starfsmanna var einnig gagnrýnt mjög vegna mikils bruðls og flottheita.

Mikið lá á að opna hinar nýju starfsstöðvar á sínum tíma og var fljótfærni við byggingu því mikil. Til dæmis um vitleysuna var parket lagt á blauta steypu til að hægt væri að halda opnunarhátíð á réttum tíma. Síðar þurfti að skipta um parketið.

Í máli forstjórans á föstudag kom fram að í kostnaðartölum vegna mögulegra viðgerða væri gert ráð fyrir 25% álagi miðað við kostnaðaráætlanir sérfræðinga. Einnig lét hann í ljós að ekki stæði til að taka ákvörðun í fljótheitum.

Þessi afstaða Bjarna lofar góðu, en í ljósi sögunnar og þótt við stjórnvölinn séu aðrir en þegar húsið var upphaflega byggt, þá er óskandi að Orkuveitan hafi vaðið fyrir neðan sig og breyti skynsamlega. Bölvun opinberra stofnanna og opinberra framkvæmda er nefnilega sú að aðgerðir fari fram úr áætlunum og að almenningur líði fyrir með skattfé sínu.