Brostnar vonir

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

,,Ég var komin með góða vinnu, maka og íbúð – og þá áttaði ég mig á því að eitthvað vantaði.

Barneignir eru eitt af meginmarkmiðum lífsins hjá mörgum. Þó eru ekki allir svo lánsamir að geta með auðveldum hætti getið og eignast börn því eitt af hverjum sex pörum á heimsvísu gengur í gegnum einhvers konar erfiðleika tengda ófrjósemi að minnsta kosti einu sinni á frjósemistímabilinu. Það sem í daglegu tali er kallað ófrjósemi er þegar kona getur ekki orðið þunguð þrátt fyrir að hafa stundað reglulega óvarið kynlíf í að minnsta kosti eitt ár.

Sífellt algengara vandamál

Margir halda að tæknifrjóvgun sé einföld lausn við ófrjósemi en reyndin er allt önnur. Í Evrópu verður aðeins þungun í um þriðjungi tilfella eftir glasa- eða smásjárfrjóvgun, uppsetningu frystra fósturvísa eða egggjöf. Ófrjósemi er sjúkdómur sem fer vaxandi og á sama tíma fjölgar tæknifrjóvgunum. Þetta er ekki bundið við Ísland og er þróunin hér á landi í takt við þá þróun sem á sér stað annars staðar í heiminum.

Algengasta útskýringin á ófrjósemi kvenna í dag er hækkandi aldur við fyrstu barneign en flestar tæknifrjóvganir eru gerðar á konum á aldrinum 30-39 ára. Þá er hlutfall barna sem fædd eru með aðstoð tæknifrjóvgana á bilinu 3,1% til 4,6% á Norðurlöndunum, þar með talið á Íslandi. Ófrjósemi fylgja líka sálræn vandamál en lífsgæði þeirra sem við sjúkdóminn glíma hafa mælst 40% lakari en annarra. Flest vandamálin orsakast af misheppnuðum meðferðum og óuppfylltri þrá til að eignast barn sem hefur mikil áhrif á líðan, daglegt líf, atvinnuþátttöku, félagsleg samskipti og kynlíf einstaklingsins. Einnig finna konur oft fyrir mikilli líkamlegri vanlíðan af völdum hormónalyfja og áhrifum meðferðarinnar.

Ekki bara andleg útgjöld

Ófrjósemismeðferðir kosta pening. Eins og gefur að skilja er fjárhagsleg byrði einstaklinga af meðferðum þó misjöfn eftir löndum. Í sumum tilfellum bera einstaklingarnir mestan kostnaðinn sjálfir en í öðrum sér ríkið um hann. Til dæmis eru í Þýskalandi allar meðferðir niðurgreiddar hafi parið náð 25 ára aldri. Í Danmörku, Noregi og Finnlandi eru fyrsta til þriðja meðferð niðurgreiddar og í Englandi og Svíþjóð fer það eftir sveitarfélaginu hversu margar meðferðir eru greiddar niður. Hér á Íslandi niðurgreiða sjúkratryggingar hluta kostnaðar við meðferð. Samkvæmt gjaldskrá IVF klíníkurinnar Reykjavík kostar glasafrjóvgun eða smásjárfrjóvgun 455 þúsund krónur án niðurgreiðslu en 230 þúsund krónur með henni.

2016_06_07 Inga Maria Gjaldskra

Þörf fyrir aukinn stuðning

Núverandi greiðsluþátttaka ríkisins nær til 50% kostnaðar við aðra til fjórðu meðferð hjá pari eða einhleypri konu sem ekki á barn. Engin niðurgreiðsla er fyrir pör eða einhleypa konu sem á barn fyrir. Hlutfall niðurgreiðslunnar hefur þó lækkað en ríkið niðurgreiddi 65% af kostnaðinum árið 2011 og verðskráin hefur hækkað töluvert síðan, eða um 80%.

Á Alþingi er til umræðu þingsályktunartillaga um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana. Fjallar hún um mikilvægi þess að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu meðferðar svo komið sé í veg fyrir mismunun fólks á grundvelli efnahags. Jafnframt kemur fram í tillögunni að greiðsluþátttakan skuli vera óháð því hvort par eða einstæð kona eigi barn fyrir. Umsagnir bárust frá Barnaverndarstofu, hjúkrunarráði Sjúkrahússins á Akureyri, Embætti landlæknis og Læknafélagi Íslands. Allir umsagnaraðilar voru jákvæðir í garð tillögunnar og engin mótmæli bárust.

Breytt samfélag

Við búum í samfélagi sem hvetur okkur til náms og starfsframa. Hvati er fyrir ungt fólk að koma sér vel fyrir og ná ákveðnum stöðugleika í lífi sínu áður en það stefnir á barneignir. Þetta tel ég jákvæða þróun en staðreyndin er engu að síður sú að hækkandi aldur kvenna er algengasta ástæða ófrjósemi kvenna í dag. Frjósemi Íslendinga hefur minnkað um helming á tæplega sextíu árum og fólksfjölgun fer minnkandi. Miklar breytingar hafa orðið á lífsstíl ungs fólks og því þarf að búa betur um þennan hóp, og jafnframt styðja betur við þá sem eiga í erfiðleikum með að eignast barn. Mikilvægt er að hvetja til opinskáar umræðu í samfélaginu um ófrjósemi og þörf er á aukinni vitundarvakningu um þetta málefni.

Þessi grein er unnin upp úr lokaritgerð minni og Berglindar Önnu Karlsdóttur til BS prófs í hjúkrunarfræði sem fjallar um þau víðtæku áhrif sem ófrjósemi hefur á lífsgæði fólks. Ritgerðina í heild má lesa hér.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.