Brexit og þjóðernishyggjan

eftir Ritstjórn

Líkt og alþjóð veit, ákvað breska þjóðin að yfirgefa áralangt ástarsamband sitt við þjóðir á meginlandi Evrópu aðfararnótt föstudags. Fyrstu viðbrögð við niðurstöðunum bentu til þess að hvorugur málsaðili hafi búist við skilnaðinum og hann í raun komið þeim í opna skjöldu. Þannig stóð gengi breska pundsins í hæstu hæðum það sem af er ári, þegar kjörstaðir lokuðu og allar skoðanakannanir bentu til þess að Bretland yrði áfram í Evrópusambandinu.

Þrátt fyrir að mikill meirihluti hinna pólitísku elíta, viðskiptalífsins og fjölmiðla hafi verið fyrir áframhaldandi veru kom það ekki í veg fyrir að þjóðin kysi að ganga út úr sambandinu. Fyrir flesta þá sem aðhyllast ekki stjórnmál öfganna hlýtur niðurstaðan að hringja viðvörunarbjöllum.

Uppgangur þjóðernishyggjunnar

Ein og sér væri þessi ákvörðun ef til vill ekki mikið áhyggjuefni en skoðuð í samhengi þróunar stjórnmálanna víðsvegar í heiminum er hún það. Þjóðernishyggja er án nokkurs vafa í mikilli sókn og skiptir þá litlu hvar litið er á hnöttinn. Í Kína var í fyrra fagnað uppgjöf Japana í seinni heimstyrjöldinni í stað uppgangi Marxískrar hugmyndafræði en það þykir til marks um að þjóðernishyggjan trompi kommúnismann um stundarsakir. Í Bandaríkjunum hafa menn stillt upp forsetakosningunum sem orrustu á milli hnattvæðingarinnar og þjóðernishyggjunar. Þá hafa hægri öfgaflokkar verið að auka töluvert við fylgi sitt í Evrópu en að auki er hægt að týna til ýmis dæmi víðsvegar úr heiminum.

Það þarf þó ekki að koma á óvart að þjóðernishreyfingar safni vopnum sínum í kjölfar efnahagslægðar en þróunin er oft á þann veg. Heimurinn er hins vegar á hraðri hreyfingu í átt til aukinnar hnattvæðingar sem kemur vissulega ekki öllum vel, einkum og sér í lagi lítt sérhæfðu vinnuafli. Í ofanálag hefur umræða um flóttamenn og þeim áskorunum sem fylgja þeim mikla straumi þeirra um þessar mundir sett mark sitt á stjórnmálaumræðu í Vesturlöndum.

Það kemur því kannski ekki á óvart að atkvæðadreifingin í Brexit kosningunum er  greinileg fylgni milli menntunar og launa og að vilja áframhaldandi aðild að Evrópusambandi. Með öðrum orðum voru þeir sem hafa minni menntun og lág laun líklegri til þess að kjósa með úrsögn úr ESB.

Hófstilltari hreyfingar þurfa að finna lausn

Þó uppgangur þjóðernishyggjunar sé vissulega áhyggjuefni dugar lítið að kenna forsprökkum popúlískra hreyfinga um velgengnina. Öllu heldur er það áfellisdómur yfir hófstilltari öflum að geta ekki höfðað til nógu breiðs kjósendahóps og boðið fram lausnir sem eru í samræmi við vestræn gildi um mannréttindi, menntun, frjáls viðskipti og umburðarlyndi. Eina lausnin í boði getur ekki verið að byggja veggi þvert yfir landamæri líkt og Donald Trump hefur lagt til. Í tilfelli Brexit hefur leiðtogum Evrópusambandsins og Bretlands mistekist að ná fram nauðsynlegum umbótum á sambandinu t.a.m. þegar kemur að lýðræði og gegnsæji. Þar liggur hundurinn grafinn.

Íslendingar hafa blessunarlega verið að mestu lausir við einangrunarhyggju og öfga þjóðernishreyfingar þó dæmi séu um að stjórnmálaflokkar daðri við slíka stefnu. Aukinheldur tóku Íslendingar jafnframt afgerandi ákvörðun um að kjósa ekki þann frambjóðanda í forsetakosningum sem vildi ‘horfa heim’. Rómur óskar Guðna Th. til hamingju með kjörið en miðað við það sem kom fram í aðdraganda kosninganna aðhyllist hann miklu fremur þátttöku Íslands á alþjóðavettvangi heldur en einangrun þess.

Þegar lýðræðið „bregst”

Það sem hefur heltekið umræðuna um Brexit frá því á föstudag er skipting atkvæða eftir lýðfræðilegum viðmiðum. Til dæmis má benda á fyrrnefndan hóp ómenntaðra og láglaunaðra. Einnig hafa verið skoðuð atkvæði eftir landsbyggð í Bretlandi og þéttbýliskjörnum og að sjálfsögðu afstöðunni í Englandi, Skotlandi, Norður-Írlandi og Wales, hverju fyrir sig.

Í netheimum hefur borið mjög á umræðu um unga og gamla og því haldið fram að þeir gömlu hafi gert yngri löndum sínum óleik með því að kjósa Bretland á brott úr Evrópusambandinu. Mikilvægt er að átta sig á því stjórnkerfi sem ríkir bæði í Bretlandi og á Íslandi, en bæði löndin búa við lýðræði.

Lýðræði er mörgum hjartans mál þó margir vankantar séu á því. Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hafði sennilega rétt fyrir sér þegar hann sagði lýðræðið versta stjórnarfyrirkomulag í heimi, fyrir utan öll önnur.

Í því samhengi sem hér er um rætt er það hvort tveggja kostur og galli við lýðræðið að allir hafi kosningarétt og að enginn verði þvingaður til að mæta á kjörstað. Það er því ekki hægt að gagnrýna lýðræðislega niðurstöðu af því tiltekinn hópur kjósenda hafði ekki áhuga á því að kjósa.

Það má hins vegar gagnrýna þá sem höfðu ekki vit á að koma til móts við gagnrýnisraddir áður en einu kostirnir í stöðunni urðu afarkostir.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.