Brexit og apartheid íslenskrar þjóðfélagsumræðu

eftir Oddur Þórðarson

Eftir kosningarnar 23. júní 2016 um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu stóðu margir á gati. Undrun fólks yfir niðurstöðum Brexit-kosninganna og ótta við þá óvissu sem skapaðist var skiljanleg. Enginn gat hafa séð þetta fyrir.

Sökum þess hve ömurlegt það er að leita að fréttum aftur í tímann á vefsíðum íslenskra fjölmiðla, fann ég bara útgáfu Morgunblaðsins þann 25. júní 2016. Þar var skiljanlega fátt annað en íslensku forsetakosningarnar til umræðu, enda kjördagur og ritstjóri blaðsins í framboði. Þrátt fyrir það eru heilu opnurnar undirlagðar Brexit. Sagt er að það ríki óvissa um framhaldið og að Íslendingar verði að vera snarir í snúningum að semja við útgengna Bretana.

Klofin þjóð

Ef til vill ríkti enn meiri óvissa í sjálfu Bretlandi. The Guardian birti fréttir morguninn eftir kvöldið sem “klauf þjóðina í tvennt”. David Cameron, forsætisráðherra Breta og formaður Íhaldsflokksins, sagði síðar af sér vegna úrslitanna. Íhaldsflokkurinn mátti muna fífil sinn fegurri þar til Boris Johnson tók við og Verkamannaflokkurinn náði sér aldrei á strik með Jeremy Corbyn í brúnni. Það sýndi sig svo endanlega í síðustu þingkosningunum, árið 2019, þegar Verkamannaflokkurinn beið afhroð. Við höfum síðan séð Brexit-atburðarrásina birtast okkur í slow-motion þar til dagsins í dag, en nú eru Bretar formlega gengnir úr Evrópusambandinu.

Hvernig gat þessi atburðarrás átt sér stað? Margir stukku eflaust til með svör og gera enn í dag (sbr. þessi pistill). Mér þykir útskýring Lisu Mckenzie sú besta sem ég hef heyrt af hingað til. Hún gerði etnógrafíska úttekt á fátækari svæðum Lundúna á árunum fyrir og eftir Brexit-kosninguna örlagaríku. Hún tók viðtöl við fólk, lýsti aðstæðum þeirra og reyndi að komast til botns í því hvað orsakaði pólitíska hegðun þeirra.

Breytt viðhorf

Fólkið sem Lisa gerir úttekt á, sem flest er ómenntað, fátækt, á bótum og svo að segja útskúfað úr allri þjóðfélagsumræðu, hafði allt áþekka afstöðu til Brexit. Því leið eins og það skipti ekki máli, að kjörnum fulltrúum væri alveg sama um það. Meira að segja fannst því það ekki skipta máli í augum fólks úr flokkum eins og Verkamannaflokknum, flokki sem gefur sig út fyrir að tala máli verkafólks. Anne, sextug kona sem búið hefur alla ævi í austurhluta Lundúna lýsti því að hún hafi alla tíð kosið Verkamannaflokkinn, en nú sæi hún sér ekki fært að gera það lengur. Hún kysi UKIP í næstu þingkosningum. Síðar lýsti hún því yfir að ætla að kjósa að Bretar gangi úr Evrópusambandinu.

Lisa lýsir því í grein sinni hvernig Sally hafi aldrei kosið áður, en ætli nú að kjósa. Sally er þriggja barna móðir, ómenntuð, býr ekki við mikið atvinnuöryggi og berst nú fyrir því að halda félagslega húnsæðinu sem henni var úthlutað. Hún segir að aldrei hafi neinir kjörnir fulltrúar borið hennar hag fyrir brjósti og því hafi hún aldrei kosið. Nú þegar henni gefst tækifæri til þess að láta sig varða einhverjar kosningar til að knýja fram róttækar breytingar (þótt loforð um sumar hverjar séu algjörlega á sandi byggð) þá muni hún ekki láta sig vanta á kjörstað. Hún kaus Brexit.

Gerður upp rasismi

Lisa lýsir því svo hvernig fyrrum námuverkamanni á áttræðisaldri sárni að vera kallaður “racialist”. Hann sé sko enginn “racialist”. Hans skoðanir hafa ekkert með hörundslit fólks að gera. Samkvæmt Lisu snerist þjóðfélagsumræða Breta eftir Brexit-kosningarnar að miklu leyti um það hversu heimskir og rasískir þeir væru sem kusu Brexit yfir þjóðina. Anne, sem við kynntumst áðan, lýsir því einnig hvernig henni þyki leiðinlegt að henni séu gerðar upp rasískar skoðanir. Hún hafi búið í austurhluta Lundúna alla ævi, hér byggi hún ekki væri hún rasisti. Lisa Mckenzie lýsir því hvernig Bretar virðast ekki skilja að þessi umræða um fátækt og ómenntað fólk í Bretlandi festir stéttaskiptingu landsins í sessi og heldur þessum hópum fólks fjarlægum í þjóðfélagsumræðunni og bolar þeim jafnvel burt úr samfélagi siðaðs fólks.

Þeim fáu sem síðan átta sig á því að umræddir hópar séu ekkert nema fórnarlömb aðstæðna sinna, mistekst hrapallega að tala við og um þá af einlægni. Talað er um “the left behinds” eða þá sem “skildir hafa verið eftir”. Þetta er ekkert nema yfirlætislegur velvilji. Það er ekki nóg að klappa fátæku og ómenntuðu fólki á kollinn og segjast skilja hvað það meinar. Þeir sem notast við slíkar föðurlegar umvandanir eru litlu skárri en þeir sem umsvifalaust gera fátækum og ómenntuðum upp rasískar skoðanir. Það þarf að hlusta á fólk af einlægni og færa það inn af jaðrinum. Þeir sem ekki eru jaðarsettir kjósa ekki stjórnmálamenn út á jaðri hins pólitíska áttavita.

Þeir sem ekki eru til

Þegar Sally og Anne ræddu sameiginlega við Lisu daginn fyrir Brexit-kjördag, þann 22. júní 2016, sagði Sally nokkuð sem kjarnar það sem ég er að reyna að útskýra (og það sem Lisa Mckenzie þarmeð útskýrir í grein sinni). Lauslega þýtt á Anne að hafa sagt um einhverja pólitíska spekúlanta The Guardian, Evrópusinnaðs miðju-blaðs í Bretlandi, að “fyrir þeim erum við hreinlega ekki til, er það nokkuð?” Sally svaraði þá um hæl: “Já, það er þá helvíti skítt fyrir þá, vegna þess að við allir vesalingarnir sem ekki erum til ætlum að kjósa Brexit á morgun”

Apartheid á Íslandi

Hér á Íslandi á að miklu leyti til svipuð umræða sér stað. Hér eru þeir sem eru ómenntaðir og fátækir gerðir útlægir úr þjóðfélagsumræðu hinna siðuðu og menntuðu á einu augabragði. Ef einhver les þennan fjölmiðilinn en ekki hinn þá hlýtur hann að vera svona heimskur eða svona mikill rasisti. Að sama skapi eru allir þeir sem láta gamminn geisa í kommentakerfum fjölmiðlanna brennimerktir sem personae non gratae, líkt og hinir ósnertanlegu í Indlandi. Að vera virkur í athugasemdum er skammaryrði. Þeir sem hlotið hafa forsendur til þess að skilja þetta, hlæja að þeim sem ekki hafa hlotið sömu forsendur. “Hahaha” hlæja þeir, “sjáið þá sem ekki eru menntaðir eins og ég, sjáið hvað þeir eru heimskir”.

Grein Lisu staðfestir að svona getum við ekki talað um þá sem eru á jaðri hins pólitíska áttavita. Svona getum við ekki talað um þá sem eru á jaðri íslensks samfélags. Eins og við sjáum í Bretlandi hefur slíkt apartheid í þarlendri þjóðfélagsumræðu bara slæmar afleiðingar í för með sér. Ekki viljum við pólitískt sjokk á Íslandi eins og Brexit var í Bretlandi.

Grein Lisu Mckenzie má finna hér: https://journals.sagepub.com/doi/pdf/10.1177/1024529417704134

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.