Börnin eða framinn?

eftir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

“Í alvörunni? Móðir? Svona ung?”

Þetta voru viðbrögðin sem ég mætti þegar ég ræddi við vini mína hér í Þýskalandi um barnshafandi vinkonur mínar og nýbakaðar mæður heima á Íslandi. Það kom þeim verulega á óvart að fólk á Íslandi væri þegar byrjað að eignast börn um 25 ára aldurinn. Þannig komst ég að því að konur hér í landi íhuga barneignir í fyrsta lagi um 5 árum eftir að menntun á hærra stigi er lokið. Mér þótti þetta undarlegt. Hvað gæti valdið þessum viðhorfsmun?

Í Þýskalandi sem og í allflestum Evrópuríkjum stendur fæðingatíðni ekki undir sér til að viðhalda mannfjölda, og því stendur Evrópa frammi fyrir fólksfækkun. Meðalfæðingatíðni í heiminum var 2,5 barn á konu árið 2015 en einungis 1,6 í Evrópusambandinu. Þá var fæðingatíðni á Íslandi 1,9, og svipaðar tölur má finna í Frakklandi og Svíþjóð en tíðnin er aðeins 1,5 í Þýskalandi samkvæmt gögnum Alþjóðabankans (e. World Bank). Þegar gögnin eru rýnd nánar má sjá marktækan mun milli sumra þjóða Evrópu. Þær þjóðir sem annars vegar eru þekktar fyrir baráttu sína í jafnréttismálum og sem hins vegar leggja áherslur á að allir njóti réttinda í því sem við kemur barneignum, virðast allar hafa fæðingatíðni sem því til næst stendur undir sér. Því vaknar næsta spurning: Hvers vegna er fæðingatíðni Þýskalands, sem er eitt tæknivæddasta og ríkasta land í heimi, einungis 1,5?

Upplifun mín á bak við þessa lágu tölu er margþætt. Konur í Þýskalandi sem mennta sig vilja koma sér vel fyrir á atvinnumarkaðnum áður en þær huga að barneignum, sem er ekki ósvipað þróuninni á Íslandi síðustu ár, og getur slík aðlögun tekið nokkuð mörg ár. Til dæmis mætti hugsa sér manneskju sem klárar nám sitt um 27 ára gömul og fær vinnu strax í kjölfarið, sem er ekki sjálfgefið. Það gæti reynst erfitt fyrir hana að hverfa frá vinnumarkaðnum aftur fyrr en hún er komin nokkur ár inn á fertugsaldurinn. Eftir því sem konur eldast minnkar frjósemi þeirra og líkurnar á því að þær eignist mörg börn minnka. Það er mikilvægt að konur geti menntað sig og náð starfsframa jafnt sem karlar, og tel ég því vandann sem Þjóðverjar standa frammi fyrir snúa að því hversu lengi beðið er með barneignir. Og þá sérstaklega, af hverju það virðist taka svona langan tíma fyrir konur að stíga út af markaðinum til að eignast börn.

Þær konur sem bíða með barneignir fá jafnframt mun hærri laun en ella. Á sama tíma er viðhorf gagnvart mæðrum á atvinnumarkaðnum í Þýskalandi því miður ekki mjög jákvætt og telja margir að þær eigi einfaldlega að vera heima og sinna börnunum. Þá er sú hugmynd að karlmenn og kvenmenn geti hjálpast að með uppeldi barna sinna ekki alkunnug og kemur því eflaust fáum á óvart að ekki séu margir feður hér sem nýti sér rétt sinn til fæðingarorlofs að fullu. Með því að breyta þessum hugsunarhætti væri hægt að koma almennilega til móts við þær mæður og þá feður sem vilja sinna bæði börnum og vera útivinnandi.

En betur má ef duga skal, það þarf líka að breyta viðhorfi fólks. Ríki hvers lands fyrir sig þarf að taka þátt í þessum breytingum með jafnrétti kynjanna og hærri fæðingartíðni í huga. Sem dæmi um slíkt má nefna breytingar á ríkisstefnu Singapúr árið 2001 á þessu sviði. Til þess að hvetja til barneigna jók ríkið m.a. aðgengi fólks að dagvistum og leikskólum, styrkti stefnu sína varðandi barneignarleyfi og koma til móts við foreldra í gegnum skattkerfið með skattalækkunum. Þetta eru ámóta aðgerðir og gripið var til í Svíþjóð en þar hefur fæðingartíðni hækkað síðan um aldarmótin. Þær aðgerðir voru keyrðar á kynjajafnréttisstefnu.

Það væri því áhugavert að sjá hvort þýska ríkið muni taka af skarið og standa í slíkum breytingum til að stuðla að frekari hækkun fæðingatíðni þar í landi, sem er alltof lág. Enn þá áhugaverðara væri að vita hvort slíkar stefnubreytingar hafi mestu áhrifin, eða hvort viðhorf fólks spili stærra hlutverk og muni yfirgnæfa áhrif stefnubreytinga, skyldi það ekki breyta viðhorfinu sjálfu.

 

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Ragnheiður Björk er meistaranemi í stjórnun ásamt iðnaðarverkfræði í Tækniháskólanum í Munchen og lauk BSc í iðnaðarverkfræði frá HÍ. Hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu um lokun virðisaukakeðju vöruframleiðanda og hefur reynslu úr iðnaðnum eftir að hafa unnið hjá McKinsey, Daimler Mercedes Benz Cars og BMW í Þýskalandi. Áður stýrði hún Formula Student liði HÍ við hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls. Skrif hennar í Rómi beinast að femíniskum viðhorfum og áhrifum hnattvæðingar og gróðurhúsaáhrifa á alþjóðasamfélagið.