Borgarlínan – Taktu þér far aftur til 19. aldar

eftir Janus Arn Guðmundsson

Hvern hefði órað fyrir því að snjallsímar með snertiskjá ættu eftir verða normið – og raunar breyta lífi okkar – þegar  frumkvöðullinn Steve Jobs kynnti fyrstu kynslóð iPhone-síma fyrir tíu árum síðan?

Oft er rætt um þá sem vilja flýta sér hægt, spyrja gagnrýnna spurninga eða eru mótfallnir svonefndri borgarlínu sem gamaldags steinaldarmenn. Raunar ganga sumir svo langt að gefa sér að þessir hópar hafi ekki nokkurn skilning á þörfinni sem er fyrir að efla almenningssamgöngur hérlendis. Þannig séu þeir einfaldlega afturhaldssamir fremur en framsýnir.

Hins vegar er staðreyndin sú – sem sumir þeirra „framsýnu“ eiga erfitt með að horfast í augu við – að þessu er einmitt öfugt farið. Þegar tekið hefur verið tillit til kostnaðar, tækni og framtíðarskipulagsþarfa má sjá að hinir „afturhaldssömu“ eru komnir langt fram úr þeim sem enn vilja byggja upp kerfi í anda 19. aldarinnar.

Enginn veit fyrir víst hvað framkvæmdin mun kosta

Það er eðlileg krafa á 21. öldinni að fjármunum skattgreiðenda sé varið með sem skilvirkustum hætti. Því er nauðsynlegt að reyna að átta sig á hvað draumur sumra stjórnmálamanna um lest á höfuðborgarsvæðinu muni kosta íbúa landsins.

Helst er hægt að vera viss um að enginn veit fyrir víst hvað framkvæmdin mun kosta. Rætt hefur verið um að lágmarkið nemi 62 til 70 milljörðum en þá er miðað við svokallað hraðvagnakerfi sem er ódýrari kosturinn. Hinn kosturinn er sá að leggja léttlestarkerfi en kostnaður við slíkt kerfi er talinn vera um 150 milljarðar.

Þessum tölum ber þó að taka með miklum fyrirvara, enda alkunn staðreynd að kostnaðaráætlanir við samgöngumannvirki standast sjaldnast – en í því samhengi nægir að nefna Vaðlaheiðagöng sem komin eru 44% fram úr áætlun. Þá benda niðurstöður rannsóknar, sem gerð var við Álaborgarháskóla, til þess að lestarframkvæmdir fari að meðaltali 45% fram úr áætlun og vegaframkvæmdir 20%. Þannig má áætla að áætlunin geri lítið úr raunkostnaðnum við borgarlínuna.

Þá eru enn fremur líkur til þess að frammúrkeyrsla verði fyrir ofan meðaltalið þar sem aðstæður á Íslandi eru sumpart frábrugðnar þeim sem eru í nágrannalöndunum. Þess utan skortir jafnframt gríðarlega þekkingu á byggingu og rekstri lestarkerfis sem leiðir sennilega til þess að verkið tekur lengri tíma og fleiri mistök munu eiga sér stað en í landi þar sem slík þekking er til staðar.

Borgarlínan mun því hið minnsta kosta hvern landsmann tæpar 190.000 krónur. Og ef dýrari valkosturinn yrði farinn þ.e. léttlestarkerfi, mun kostnaðurinn slaga upp í hálfa milljón króna á hvern Íslending. Fólk hlýtur því að spyrja sig hvort ekki sé hægt að efla almenningssamgöngur með minni tilkostnaði? Þar er svarið tvímælalaust – Já – því þær tækniframfarir í samgöngumálum sem nú eru að eiga sér stað munu að öllum líkindum verða til þess að gjörbreyta samgöngumáta almennings og skipulagi borga.

Hugvitið á sér sem betur fer engin takmörk

Á undanförnum mánuðum hafa þekkingarfyrirtæki á borð við Google, Uber og Tesla fjárfest gríðarlega í þróun sjálfkeyrandi bíla og leigubíla fyrir stórborgir. Jafnframt er mikil gróska í frumkvöðla- og nýsköpunarstarfi í bílaiðnaði.

Hérlendis voru sagðar fréttir af því þegar sprotafyrirtækið nuTonomy, sem sprottið er upp úr einum virtasta tækniháskóla heims MIT, hóf að prófa hugbúnað í sjálfkeyrandi leigubílum í borgríkinu Singapúr. Forsvarsmenn sprotafyrirtækisins segja markmið þess að vera með fullbúinn sjálfkeyrandi leigubílaflota í Singapúr strax á næsta ári, eða árið 2018. Fyrirætlanir fyrirtækisins miða að því að draga verulega úr fjölda bíla á yfirfullum vegum borgríkisins.

Fyrirtækið vinnur nú að því að hefja prófanir á sams konar leigubílaþjónustu í borgum Asíu, Bandaríkjanna og Evrópu. En það er víðar en í borgum vestanhafs eða í Suðaustur-Asíu sem borgaryfirvöld eru farin að horfa til framtíðar í samgöngumálum. Rafknúnir sjálfkeyrandi strætisvagnar verða nú prófaðir í Osló strax á næsta ári, að því er fram kemur í fréttum norska blaðsins Aftenposten. Þar kemur einnig fram að þú pantir þér far með strætisvagninum í gegnum snjallsímaforrit.

Þeir sem hafa nýtt sér þjónustu fyrirtækisins Uber erlendis hafa kannski hvað bestu tilfinninguna fyrir því hvernig þjónusta sjálfkeyrandi leigubifreiða eða strætisvagna mun koma til með að virka. Uber er snjallsímaforrit sem tengir saman bílstjóra og farþega. Uber býður bæði upp á hefðbundna leigubílaþjónustu og samflot með öðrum farþegum (e. carpool) þar sem forritið parar saman farþega sem stefna í sömu átt – en það gerir farþegum kleift að deila kostnaði. Það segir sig svo sem auðvitað sjálft að með tilkomu sjálfkeyrandi leigubíla næst fram mikil kostnaðarhagræðing í stafsmannahaldi, bæði er varðar ökumenn annars vegar og þjónustu (t.d. símsvörun) hins vegar.

Sjálfkeyrandi leigubílar hafa í för með sér fjölmarga kosti sem gætu haft mikil áhrif á umhverfið, samfélagið og borgarskipulag hvarvetna í heiminum. Meðal annars bendir allt til þess að hægt verði að draga verulega úr útblæstri, umferðarslysum, bílastæðum og ökutækjum svo fátt eitt sé nefnt. Jafnframt eru líkur á því að vegir þurfi minna pláss.

Um leið og sjálfkeyrandi leigubílar frá þekkingarfyrirtækjum á borð við nuTonomy, Google, Uber, Tesla og öðrum bílaframleiðendum fara að vekja eftirtekt á götum borga má gera ráð fyrir því að stjórnmálamenn og íbúar þeirra muni sjá kosti þessarar tækni.

Ef kostnaður við að taka sjálfkeyrandi leigubifreið – sem gengi fyrir rafmagni – yrði á pari við að nýta þjónustu Strætó, er ljóst að margir myndu sjá það sem fýsilegan ferðamáta. Jafnvel þótt þeir þyrftu að deila bifreiðinni með öðrum, ókunnugum, sem legðu leið sína á svipaðar slóðir. Rafknúnir sjálfkeyrandi leigubílar yrðu jafnframt heppilegur samgöngukostur á höfuðborgarsvæðinu vegna fámennis, veðráttu og aðgang að grænni og tiltölulega ódýrri raforku.

Sérstaða íslenska hagkerfisins felst meðal annars í því hversu lítið það er, en í því felast bæði kostir og gallar. Mönnum er tíðrætt um gallana en einn af kostunum er sá að Ísland er hinn fullkomni prufumarkaður (e. test market) með hátt tæknistig og nýjungagjarna neytendur. Við erum því í kjöraðstöðu til þess að vera eitt fyrsta landið til að innleiða sjálfkeyrandi bíla. Innleiðing nýrrar tækni mun einnig gefa tækifæri á breyttri borgarmynd og opna á fleiri möguleika heldur en gengið er útfrá í skipulagi Reykjavíkurborgar um þessar mundir.

Framsýnin birtist okkur nú þegar á götum annarra borga

Núverandi aðalskipulag Reykjavíkurborgar leggur mikla áherslu á að auka vægi almenningssamgangna. Markmiðið með borgarlínunni er að auka hlutdeild þeirra úr „4% árið 2016 í a.m.k. 12% af heildarferðum innan höfuðborgarsvæðisins árið 2040. Gangi þetta eftir munu að minnsta kosti fjórfalt fleiri nota almenningssamgöngur árið 2040 en gerðu það 2016,“ segir á vef Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Óhætt er að fullyrða að hér sé um að ræða afar metnaðarfulla sýn fyrir almenningssamgöngur ef miðað er við gamlar aðferðir við fólksflutninga og ekki er gert ráð fyrir neinum tækniframförum. Um leið og tækniframfarir eru teknar inn í myndina blasir hins vegar við að skipulag Reykjavíkurborgar, þar sem borgarlínan er í forgrunni, gæti nánast hafa verið sett fram á 19. öld þegar lestarsamgöngur ruddu sér til rúms í Evrópu með tilkomu gufuvélarinnar.

Eins og nefnt var hér að ofan hefur Singapúr tekið tæknibyltingunni fagnandi og ætlar sér að nýta kosti hennar eftir fremsta megni þegar kemur að samgöngumálum. Singapúr er áhugavert dæmi því að mörgu leyti er búist við svipaðri þróun þar og á höfuðborgarsvæðinu á næstu áratugum.

Singapúr stendur frammi fyrir mikilli fólksfjölgun á komandi árum en því er spáð að íbúum þar muni fjölga um 30% á næstu 20 árum. Hlutfallslega er það ekki ósvipuð fjölgun og mun eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu, eða 35% til ársins 2040. Vegna þessa er yfirvöldum í Singapúr umhugað um að draga úr umferð með því að fá almenning til að notast við almenningssamgöngur. Í því samhengi er einkum horft til sjálfkeyrandi leigubíla, í stað þess að einblína á að fjölga strætisvögnum eða grafa fyrir neðanjarðarlestum.

Í viðtali við Bloomberg segir Doug Parker, framkvæmdarstjóri rekstrar hjá nuTonomy að sjálfkeyrandi leigubílar gætu á endanum fækkað bílum á götum Singapúr úr 900.000 í 300.000. Jafnframt bendir hann á að þegar mögulegt verður að fækka bílum umtalsvert skapi það mikil tækifæri, m.a. verði hægt að fækka bílastæðum og gera vegi minni. Þá segir hann að fyrr eða síðar séu líkur til þess að fyrirmynd kerfisins verði innleidd í borgum um allan heim.

Munurinn á sýn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Singapúr og væntingar um árangur eru hrópandi. Á meðan Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að auka hlutdeild almenningssamgangna í 12% sjá forsvarsmenn verkefnisins um sjálkeyrandi leigubíla fyrir sér að geta fækkað bílum um 67% í Singapúr.

Á Íslandi var heildarfjöldi skráðra ökutækja í árslok 2016 344.664. Ef væntingar stæðu til þess að ná fram sama árangri og gert er ráð fyrir í Singapúr myndi þeim fækka um meira en 200.000. Samhliða slíkri fækkun ökutækja myndi þörf fyrir bílastæði gerbreytast ásamt því að miklu minna landsvæði þyrfti undir samgöngumannvirki. Það myndi jafnframt þýða að hægt yrði að þétta byggð án þess að valda íbúum óþægindum.

Nýjar hugmyndir og tækniframfarir í stað kredda

Það kemur yfirleitt niður á fólkinu í landinu þegar stjórnmálamenn festast í kreddum. Raunar er ég þeirrar skoðunar að borgarlínan, í óbreyttri mynd, yrði skólabókardæmi um slíkt verði hún að veruleika. Eitt er víst að hún mun kosta skattgreiðendur óhemju fjármagn. Sérstaklega í ljósi fámennisins hér á landi. Miklu nær væri að taka nýjum hugmyndum og tækniframförum opnum örmum og kappkosta að verða með þeim fyrstu til þess að innleiða sjálfkeyrandi tækni á vegi landsins.

Það er nefnilega svo einkennilegt stundum að oft er það sem sagt er framsýnt, eins og borgarlínan, hreinlega varðstaða um óbreytt ástand.