Bónus – Nýi kaupmaðurinn á horninu?

eftir Sigurður Tómasson

Sem aldrei fyrr er ráðist að íslenskum fyrirtækjum, og þá sér í lagi stórverslunum, fyrir að hafa okrað eða jafnvel svindlað á neytendum um áratugaskeið. Nú er hins vegar frelsari íslenskra neytenda mættur sem varpar ljósi á misréttið sem hefur átt sér stað. Costco er komið.

Ég er mjög hrifinn af frelsaranum. Aukin samkeppni er nauðsynleg og alltaf af hinu góða. Það á við um allar atvinnugreinar og er verslun svo sannarlega ekki undanskilin. Hins vegar er orðræðan um að íslensk fyrirtæki séu myrkarveldið sjálft og hafi í gegnum tíðina rukkað neytendur umfram það sem eðlilegt er, á villigötum.

Frelsarinn drepur kaupmanninn

Kaupmaðurinn á horninu, sem allir sakna og ég fékk varla að kynnast, hætti ekki störfum vegna þess að hann var að okra. Hann mætti samkeppni sem hann einfaldlega réði ekki við. Hagkvæmari og stærri aðilar komu inn á sjónarsviðið sem gátu boðið meira úrval á lægra verði, alveg eins og Costco gerir í dag. Ef íslensku stórfyrirtækin hefðu ekki boðið lægra verð, betri þjónustu eða meira úrval en litlu sjoppurnar hefði fólk einfaldlega ekki verslað þar.

Costco er risavaxið fyrirtæki og Ísland er lítið land. Samanborið við Costco eru Bónus, Krónan og Hagkaup kaupmennirnir á horninu. Costco er með 734 verslanir um allan heim, og 214.000 starfsmenn. Það vinna fleiri hjá fyrirtækinu en vinna á Íslandi (190.600 árið 2016). Velta fyrirtækisins árið 2016 var á við fimmfalda landsframleiðslu eyjunnar okkar. Þessi stærð býður upp á hagkvæmni sem íslensk fyrirtæki á þessum mörkuðum geta ekki dreymt um, og veldur því að Costco getur boðið miklu lægra verð. Kostnaður á bak við rekstur tölvukerfis er miklu lægri á hverja verslun, stjórnendakostnaður dreifist á fleiri búðir og fjármögnun er ódýrari, svo eitthvað sé nefnt.

Magninnkaup eru alltaf ódýrari

Stærsti þátturinn er þó að öllum líkindum innkaup fyrirtækisins. Þó neysla ólíkra þjóða sé mismunandi er stór hluti hennar eins. Það gefur Costco tækifæri til að stunda magninnkaup fyrir alla keðjuna sína og fengið miklu betri kjör á hverja einingu. Sem dæmi má hugsa sér að Costco þyrfti að kaupa 500.000 tannkremstúbur á ári til að sinna tannkremseftirspurninni á litla íslenska markaðinum, samanborið við 500.000.000 stykki fyrir allar verslanirnar sínar. Tannkremstúbuframleiðandinn er til í að selja hverja einingu á miklu lægra verði til stórkaupanda, eins og Costco, en til smærri kaupanda, eins og íslensku verslananna.

Costco gefur íslenskum birgjum og matvælaframleiðendum einnig tækifæri til að lækka verð sín meira en íslensku verslanirnar gátu. Í fyrsta lagi er þar á ferð mjög stór og traustur kaupandi, sem fer mjög tæplega á hausinn eða missir af greiðslu. Í öðru lagi geta birgjarnir selt til fleiri aðila, dreift áhættunni, og þannig lækkað verð. Í þriðja lagi er eftirsóknarvert fyrir t.d. matvælaframleiðendur að komast inn í söluhillur hjá alþjóðlegu fyrirtæki, sem opnar dyr að útrás fyrir slík fyrirtæki.

Vegna þess að heildsalinn er alþjóðlegt fyrirtæki, er það jafnframt betur tryggt gagnvart skakkaföllum eða samdrætti á einum stað en ef öll starfsemin væri þar. Íslensk fyrirtæki búa hins vegar við fádæmalausan óstöðugleika, t.d. varðandi gengi gjaldmiðla, launakostnað og eftirspurn, sem erfiðar fyrir þeim áætlanagerð og fjárfestingu til langs tíma. Costco getur dregið úr þeirri áhættu stórkostlega samanborið við íslensku fyrirtækin.

Costco er ekki Rauði krossinn

Þá rekur Costco enga góðgerðarstarfsemi eins og stundum er haldið fram. Það er stórfyrirtæki sem reynir að rukka eins hátt verð og það getur á meðan hagnaður þess er sem mestur, eins og flest fyrirtæki. Það mætti halda af umfjölluninni að fyrirtækið hegðaði sér öðruvísi en önnur stórfyrirtæki að þessu leyti, og allt öðruvísi en íslensku verslanirnar. Hins vegar er það svo, að fyrirtæki sem skilar 230 milljörðum í hagnað árið 2016 (sem nemur 10% af íslenskri landsframleiðslu, bara í hagnað) og borgar forstjóranum sínum 700 milljónir á ári í laun er alveg eins og önnur stórfyrirtæki. En umræðan er á þá leið að íslensku fyrirtækin sem eru að reyna það sama og Costco, að hámarka hagnað, séu vond.

Til þess að keppa við Costco þurfa íslensku fyrirtækin að bregðast við, og það hafa þau gert. Til að mynda hefur N1 keypt Kaupás, Hagar keypt Olís og Skeljungur keypt 10-11. Allt eru þetta tilraunir til að auka stærðarhagkvæmni fyrirtækjanna og vera betur í stakk búin fyrir samkeppnina. Með þessum hætti hefur Costco ýtt við markaðinum, neytendum til góða, meira en bara með því að selja vörur á lægra verði.

Þetta er alls ekki tæmandi umfjöllun en punktar sem þarf að hafa í huga. Að öllu þessu sögðu er afar jákvætt fyrir alla, bæði samkeppnisaðila þeirra, neytendur og aðra viðskiptavini, að fyrirtækið sé hingað komið. En það er mikilvægt að átta sig á því að íslensk fyrirtæki búa við verri rekstrarskilyrði en Costco, og þess vegna er verð þeirra hærra en hjá heildsalanum. Það hefur ekkert að gera með svik og pretti.

Sigurður Tómasson

Pistlahöfundur

Sigurður er hagfræðingur með M.Sc. úr Kaupmannahafnarháskóla og B.Sc. úr Háskóla Íslands. Sigurður starfar nú sem ráðgjafi í Danmörku en áður starfaði hann hjá Viðskiptaráði Íslands og viðskiptafréttadeild Morgunblaðsins. Skrif hans í Rómi beinast einna helst að hagfræðilegum málefnum.