Bólusetningar barna – lög eða ekki lög

eftir Páll Óli Ólason

Bólusetningar barna hafa töluvert verið í umræðunni síðustu ár. Þær umræður hafa oftar en ekki snúið að því hvort skuli bólusetja börn eða ekki. Umræðan hefur fengið að fljúga áfram, oft án þess að einstaklingar gefi sér sjálfir tíma í að leita upplýsinga eða að þeir týnast í ólgusjó lélegra heimilda. Veldur það því að umræðan fer stundum á þann veg að það verða til tvær fylkingar. Með og á móti bólusetningum.

Það er staðreynd að bólusetningar hafa stórlega dregið úr skæðum sjúkdómum sem hér áður fyrr drógu fjölda barna til dauða. Taflan hér fyrir neðan, fengin frá Centers for Disease Control and Prevention (CDC) í Bandaríkjunum, sýnir hvernig sjúkdómstalan, þ.e. þá sem hafa fengið sjúkdóminn, hefur fallið frá því sem hún var á síðustu öld, í Bandaríkjunum.

Sjúkdómur Sjúklingar á ári á 20. öld Sjúklingar á árinu 2013 Lækkun
Bólusótt 29.005 0 100%
Barnaveiki 21.053 0 100%
Kikhósti 200.752 28.639 86%
Stífkrampi 580 26 96%
Mænusótt 16.316 1 >99%
Mislingar 530.217 187 >99%
Hettusótt 162.344 584 >99%
Rauðir hundar 47.745 9 >99%
HiB 20.000 31 >99%

Sjúkdómar sem í dag virðast ekki vera eitthvað sem fólk hræðist. Á heimasíðu landlæknis má finna töflu sem sýnir alvarlegar afleiðingar og dánartíðni þessara sjúkdóma. Áróður gegn bólusetningum hefur snúið helst að aukaverkunum þeirra, að þær virki ekki og á þeirri lífsseigu mýtu að bólusetningar geti valdið einhverfu. Nánar um það síðar.

Það sem ég velti stundum fyrir mér er hvort það sé rétt að gera bólusetningar barna að skyldu eða ekki. Hvort nú sé þörf á að festa slíkt í lög hérlendis. Til að kanna það skulum við byrja á byrjuninni.

Hvað er bólusetning?

Ónæmiskerfið er vörn líkamans gegn utanaðkomandi sýklum s.s. veirum og bakteríum. Það sem ónæmiskerfið gerir er að þegar sýklar ná inn í líkamann ræðst það gegn þeim og hindrar að þeir valdi teljandi skaða. Ónæmiskerfið lærir að þekkja sýkilinn þannig að þegar einstaklingur hefur fengið ákveðna týpu af sýkli þekkir það viðkomandi og drepur auðveldlega ef hann kemur aftur. Til að gefa þér dæmi nefni ég hlaupabóluna. Þú fékkst hana kannski sem barn en svo aldrei aftur. Það er vegna þess að veiran sem veldur henni komst í líkamann þinn, ónæmiskerfið tók við sér, þú varðst veik/ur í nokkra daga, klórandi af þér húðina, en á meðan var kerfið að læra á þennan vágest þannig að næst þegar bólan ætlaði að ráðast á þig var kerfið tilbúið strax gegn henni. Þess vegna fékkstu hlaupabóluna aðeins einu sinni. Það sem felst í bólusetningu er það að bóluefni sem myndað er úr veikluðum veirum eða bakteríum eða efnum úr þessum sýklum er sprautað í líkamann. Við það ræsist ónæmiskerfið og lærir þannig inn á sýkilinn, svona eins og þegar þú fékkst hlaupabóluna.  Önnur efni sem notuð eru í bóluefnum eru t.d. rotvarnarefni. Þekktast þeirra er Thiomersal. Hér áður fyrr var eitt af innihaldsefnum þess kvikasilfur. Kvikasilfur í miklu magni getur haft skaðleg áhrif á líkamann, m.a. taugakerfið. Magn kvikasilfurs í Thiomersal var samt það lítið að það hefði ekki getað haft þessi áhrif. Í dag eru engin bóluefni á Íslandi gefin sem innihalda Thiomersal með kvikasilfri. Bólusetningum fylgir líka hjarðónæmi. Í því felst að ef við erum með 100 manns og 95 eru bólusettir fyrir einhverjum sjúkdómi fá hinir 5 hann ekki vegna þess að sjúkdómurinn þrífst ekki. Hjarðónæmi er gríðarlega mikilvægt fyrir þá einstaklinga sem ekki hafa eða geta verið bólusettir sökum aldurs eða undirliggjandi sjúkdóma. Eins er það mikilvægt þar sem bólusetningin virkar ekki í 100% tilvika. Það er misjafnt hversu há prósenta fólks þarf að vera bólusett svo að hjarðónæmið virki. Til að nefna dæmi þurfa 90-95% að vera bólusett gegn mislingum svo það virki.

Sigrar

Bólusetningar hafa dregið verulega úr ungbarnadauða í heiminum. Það sést best í því að skoða töfluna hér að ofan og þeirri staðreynd að þegar slakað hefur verið á bólusetningum hækkar tíðni þeirra sjúkdóma sem bólusett er fyrir. Einn stærsti sigurinn er án efa útrýming á bólusótt í átaki Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Henni var útrýmt með öllu árið 1980. Nú er hefur einnig mænusótt (polio) verið nánast útrýmt, hún er nú aðeins landlæg í Afganistan og Pakistan.

Andstæðingar bólusetninga

Allt frá því að byrjað var að bólusetja af alvöru í byrjun 19. aldar hafa verið til þeir sem eru á móti bólusetningum. Ástæðan fyrir slíkri andúð til að byrja með var það að menn vissu ekki hvernig bólusetningin virkaði nákvæmlega og því litu margir hornauga á það að smita fólk með einhverjum sýkli. Einnig voru einhverjir á móti því að gera bólusetningar skyldugar. Upp úr 1970 kom önnur alda andstæðinga bólusetninga. Á þeim árum höfðu augu færst frá sjúkdómunum sjálfum, þar sem lítið sem ekkert var um þá, yfir í aukaverkanir bóluefna.

Enter Andrew Wakefield

Andstæðingar bólusetninga fengu byr undir báða vængi í febrúar 1998 þegar grein eftir Andrew nokkurn Wakefield, sérfræðing í almennum skurðlækningum birtist í tímaritinu The Lancet. Fjallaði greinin um tengsl einhverfu og bólusetningar með MMR-bóluefninu (sem notað er gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum). Voru niðurstöður greinarinnar á þá leið að tengsl væru á milli bólusetninga og einhverfu. Andstæðingar bólusetninga voru loksins að fá alvöru vatn á myllur sínar.

Eða hvað?

Þegar einhver gerir rannsókn birtir hann grein þar sem hann útlistar hvernig hann framkvæmdi rannsóknina og hvaða niðurstöður hann fékk. Þetta gerir öðrum kleift að geta framkvæmt slíka rannsókn á öðrum stað til að fá sömu niðurstöður. Í rannsókn Wakefield var hann með 12 börn, þar af 11 drengi, og taldi hann átta þeirra hafa sýnt hegðunarbreytingar í anda einhverfu eftir bólusetningu með MMR-bóluefninu. Aðrir fóru að rannsaka. Madsen og félagar skoðuðu árið 2002 hvort tengsl væru milli einhverfu og bólusetningar með MMR en fjöldi viðfangsefna í þeirra rannsókn voru 537.303 börn. Niðurstaðan? Engin tengsl. Hviid og félagar könnuðu árið 2003 hvort Thiomersal ætti einhvern þátt í einhverfu. Könnuðu þau hvort munur væri á einhverfu hjá börnum sem fengu bóluefni með Thiomersal og þau sem fengu það ekki. Alls voru 467.450 börn rannsökuð. Niðurstaðan? Engin tengsl. Árið 2004 birtist tilkynning í The Lancet þar sem 10 af 12 meðrannsakendum Wakefield drógu upphaflegu rannsóknina, sem hafði sýnt fram á tengsl milli einhverfu og bólusetninga, til baka. Það var svo í febrúar 2010 sem ritstjórn The Lancet dró greinina til baka að fullu. Þá hafði komið í ljós að Wakefield falsaði niðurstöðurnar. Í stuttu máli hafði hann verið í sambandi við hóp foreldra barna með einhverfu sem töldu að bólusetningin hefði haft þessi áhrif og gerði rannsóknina til að styðja sinn málstað. Skaðinn var samt skeður. Enn þann dag í dag eru hópar sem halda uppi áróðri gegn bólusetningum. Halda þeir því enn á lofti að bólusetningar valdi einhverfu, jafnvel þó að Taylor og félagar hafi komið með rannsókn árið 2014 sem tók saman niðurstöður fjölda rannsókna með alls um 1,3 milljón barna sem sýndu enn og aftur engin tengsl milli bólusetninga og einhverfu. Hefur þetta valdið því að faraldrar mislinga og fleiri sjúkdóma hafa komið fram bæði austan hafs og vestan, sjúkdóma sem var búið að koma að mestu fyrir kattarnef, jafnvel þó að engar slíkar sannanir séu fyrir hendi eftir skoðun á rannsóknum beggja hópa.

Bólusetningar á Íslandi

Á Íslandi er ekki skylda að bólusetja börn en Embætti landlæknis hvetur fólk þó til að bólusetja. Hérlendis bólusett gegn alls 11 sjúkdómum í almennu bólusetningaskema. Þetta eru barnaveiki, stífkrampi, kikhósti, hemophilus influenza b, mænusótt, pneumókokkar, meningókokkar C, mislingar, hettusótt, rauðir hundar og HPV. Samanburð á tíðni alvarlegra afleiðinga þeirra og tíðni alvarlegra afleiðinga bólusetningar gegn þeim má sjá í ágætri töflu á vefsíðu landlæknis. Ég hvet þig eindregið til að líta á hana.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá því í mars í fyrra hefur sóttvarnarlæknir ekki séð ástæðu til þess að setja bólusetningu í lög að sinni þar sem það sé of harkaleg aðgerð og að þátttaka sé það góð að þess þurfi ekki. Betra sé að upplýsa fólk fremur en að skylda það. Eins sýnir rannsókn Ýmis Óskarssonar og félaga frá 2014 að 96% einstaklinga myndu bólusetja barn sitt og aðeins 1,2% séu mjög eða frekar andvígir bólusetningu barna á fyrsta og öðru aldursári. Á heimasíðu Embættis landlæknis má finna tölur yfir þátttöku í almennum bólusetningum barna, nýjustu tölur fyrir árið 2014. Þar kemur fram að þátttaka í bólusetningum er um og yfir 90% hérlendis, hærri en árið 2013 og að mestu  leyti ásættanleg að undanskyldri þátttöku við fjögurra ára aldur þar sem hún er aðeins 84%.

Lög eða ekki lög?

Þegar horft er til þess hvort setja eigi bólusetningar í lög þarf að vega og meta siðferðislega hlið málsins. Dæmin sanna að bólusetningar virka. Ekki nóg með það heldur er há tíðni bólusetninga einkar mikilvæg þeim sem ekki geta fengið bólusetningu. Þegar horft er til siðferðislegra þátta spyr maður sig hvort það sé réttara að skylda einhvern í bólusetningu. Einstaklingurinn á að fá að ráða yfir eigin líkama og líkama barna sinna að 18 ára aldri. Það er samt svo að þau rök sem einstaklingur hefur gegn bólusetningum, að þær geti valdið lífshættulegum aukaverkunum bliknar í samanburði við það hversu skæður sjúkdómurinn, sem verið er að bólusetja gegn, er. Eins er einstaklingurinn ekki bara að hugsa um eigin líkama þegar hann neitar bólusetningu heldur gæti hann einnig verið að taka ákvörðun fyrir einhvern sem treystir því að viðkomandi sé bólusettur þar sem sá seinni getur það ekki. Staðan hérlendis eins og hún er nú, er þrátt fyrir allt góð. Það er þó mikilvægt að umræðunni sé haldið á réttu nótunum, að þeir sem ræða um málefnin geri það með alvöru rökstuðningi. Það þarf því að halda rétt á spöðunum, fylgjast vel með að prósentan falli ekki og kanna þann möguleika í þaula hvort rétt sé að festa bólusetningar í lög. Ef hlutfall bólusetninga fer að falla er það ekki spurning.

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.