Bókadómur: Herbergi í öðrum heimi

eftir Bjarni Halldór Janusson

Hjá bókaþjóðinni í norðri hefur myndast sú hefð að gefa bækur í jólagjöf og umfangsmikil bókaútgáfa einkennir vikurnar í aðdraganda jóla. Allt að fjórði hver landsmaður segist vilja bók í jólagjöf og á hverju ári spretta fram ungir og upprennandi rithöfundar sem keppa við metsölurithöfunda fyrri ára. Pistillinn að þessu sinni verður bókadómur. Hér verður bókin „Herbergi í öðrum heimi“ tekin fyrir, sem var nýverið valin annað besta íslenska skáldverk ársins af starfsfólki bókaverslana, en bókin er frumraun Maríu Elísabetar Bragadóttur.

Bókin er í raun smásagnasafn sem hefur að geyma sjö áhugaverðar og eftirminnilegar smásögur. Viðfangsefnin eru ólík og oft og tíðum snúin. Höfundur hefur gott vald á tungumálinu, með ríkan orðaforða, og skrifar svo að lesturinn allur verði mjúkur og góður. Það sem stendur einna helst upp úr er hvernig höfundi tekst að fjalla um hverfulleika lífsins og lýsa brothættu ástandi manneskjunnar út frá aðstæðum sem virðast í fyrstu nokkuð almennar og venjulegar. Með glöggri innsýn í hugarheim ólíkra einstaklinga, frábærri persónusköpun og með einlægri frásögn sinni nær höfundur að skapa mjög merkingarþrungnar smásögur. Persónurnar eru ljóslifandi og aðstæðurnar raunverulegar, en lýsingarnar ljóðrænar og prósinn fallegur.

Í smásögunum eru tekin fyrir viðfangsefni sem flestir þekkja til og þar er aðstæðum lýst sem líklega allir geta samsvarað sig við með einum eða öðrum hætti. Stundum eru afdrif óljós og engin eiginleg endalok fyrir hendi, en þá verða lesendur sjálfir að fylla í eyðurnar, sem gerir sögurnar enn eftirminnilegri. Höfundur fangar athygli lesenda á fyrstu blaðsíðu og heldur athyglinni frá upphafi til enda. Bókin hentar öllum, bókaunnendum jafnt sem byrjendum. Bókin á því skilið fullt hús stiga og fær sérstök meðmæli í þessum pistli.

Bjarni Halldór Janusson

Stjórn & pistlahöfundur

Bjarni Halldór er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur nýlokið meistaranámi í stjórnmálaheimspeki við University of York í Bretlandi. Skrif hans hverju sinni munu beinast að helstu málefnum félags- og hugvísinda. Þá verða málefni líðandi stundar og hugmyndafræðilegar vangaveltur fyrst og fremst til umfjöllunar. Hann hefur lengi látið sig félagsmál varða, en þar ber helst að nefna varaþingmennsku á Alþingi og setu í Stúdentaráði HÍ.