Blue Monday

eftir Björn Már Ólafsson

Árið 2005 varpaði hópur vísindamanna fram kenningunni um „Blue Monday”. Hugtakið er notað um þann dag ársins þegar líðan jarðarbúa er allra jafna með versta móti. Niðurstaða þeirra var að versti dagur ársins væri þriðji mánudagurinn í janúar, en gæti líka verið annar eða fjórði.

Kenningin byggir á útreikningum og rannsóknum á hlutum eins og fjárhagsstöðu fólks, veðri og líðan. Allir þessir þættir ná lágpunkti í fyrsta mánuði ársins.

Við Íslendingar búum við feykiöflugt skammdegi og þeir fáu sólargeislar sem drífa hingað til lands lenda fæstir á húðinni okkar en flestir á gluggunum okkar á meðan erum fyrir innan í vinnunni. Efnishyggja jólanna nartar svo í bakið á okkur í janúarmánuði á meðan við vöðum slabb og snjó á leið í vinnuna.

Í gær bárust landsmönnum síðan sorglegar fréttir. Dauðsfallið virðist tengjast atburðum sem vakið hafa mikinn óhug. Gríðarleg samstaða hefur myndast vegna atburðarins og er engu ofaukið þegar ég segi að hugur allra landsmanna sé hjá fjölskyldu Birnu. Áfallið hefur lagst á okkur öll. Margir hafa vakið og sofið yfir leitinni. Ber þar helst að nefna leitarmannskapinn sem vinnur óeigingjarnt starf, oft við erfiðar aðstæður. En líka almenningur sem vakti og svaf yfir hvarfinu. Fólk átti erfitt með að festa svefn á meðan óvissan um mannshvarfið var sem mest. Mörgum reynist til dæmis erfitt að finna réttu orðin þegar útskýra þarf fyrir börnum hvað hafi gerst.

Blái mánudagurinn þetta árið er því sérstaklega blár. Það sem gerðist var það sem allir óttuðust mest. Á þessum tíma í janúar er því sérstaklega mikilvægt að við styðjum hvort við annað. Gefum af tíma okkar, hlustum á þá sem í kringum okkur eru og aðstoðum þá sem eiga erfitt. Komumst saman í gegnum skammdegi þessa bláu janúardaga.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.