Blessun eða bölvun?

eftir Alexander Freyr Einarsson

Við Íslendingar búum vel að því að vera rík af náttúruauðlindum. Sjávarútvegurinn hefur fært okkur mikla hagsæld undanfarin ár, við höfum beislað orku náttúrunnar til útflutnings með komu álvera og nú undanfarið hefur ferðaþjónustan hjálpað okkur að rísa upp úr erfiðu efnahagshruni sem átti sér stað fyrir átta árum. Það má með sanni segja að við séum heppin með landið okkar, en þessi blessun getur samt sem áður einnig virkað sem bölvun.

Hagfræðin hefur í áratugi fjallað um svokallaða „bölvun náttúruauðlinda“ og í tengslum við það hugtak má nefna hina svokölluðu hollensku veiki. Þetta hugtak var fyrst notað um efnahagskrísuna sem átti sér stað í Hollandi á áttunda áratug síðustu aldar í kjölfar þess að þar í landi fundust gríðarlegar gasauðlindir árið 1959. Hollendingar byrjuðu að flytja út gasið í miklu magni með þeim afleiðingum að gjaldeyrir streymdi inn í landið og gjaldmiðill þeirra rauk upp í verði. Þetta gerði aðrar útflutningsgreinar ósamkeppnishæfar og endaði á að hafa mjög slæm áhrif á hollenskan efnahag. Hugtakið hollenska veikin hefur síðar verið notað um það þegar ein náttúruauðlind verður til þess að aðrar náttúruauðlindir í landinu verða ósamkeppnishæfar.

Ekki er erfitt að sjá tenginguna við Ísland. Þrátt fyrir að Íslendingar eigi ferðaþjónustunni mikið að þakka eftir efnahagshrunið á hún stóran þátt í því að íslenska krónan hefur styrkst gífurlega á stuttum tíma. Ég hef áður fjallað um þær hættur sem stafa af styrkingu krónunnar, þrátt fyrir að sterk króna geri innfluttar vörur ódýrari og geti þar af leiðandi hækkað lífsgæði, þá hefur hún að sama skapi lamandi áhrif á útflutningsgreinarnar sem bera uppi hagkerfið. Þetta á sér stað í beinni útsendingu fyrir framan nefið á okkur, innflæði gjaldeyris vegna fjölda ferðamanna gerir eina af megin atvinnugreinum okkar, sjávarútveginn, ósamkeppnishæfan á alþjóðamarkaði. Annað hvort þurfa sjávarútvegsfyrirtæki að halda verðinu óbreyttu í erlendum gjaldmiðli og þar af leiðandi fá minni tekjur í íslenskum krónum, eða þær þurfa að hækka verðið og eiga á hættu að missa viðskipti annað. Ísland er nefnilega ekki eina landið sem veiðir og selur fisk, þótt við séum afskaplega góð í því.

Annar stór galli sem fylgir því að stóla um of á náttúruauðlindir er sú staðreynd að áföllin verða alvarlegri. Norðmenn, sem rekið hafa sitt hagkerfi með miklum sóma og haldið vel á spöðunum þegar kemur að olíuauðlind sinni, hafa sannarlega fundið fyrir verðfalli olíu og hafa átt erfitt með að fóta sig í gegnum það. Enn sterkara dæmi er Venesúela, sem stólar nær alfarið á útflutning olíu. Lágt olíuverð, ásamt efnahagslegri óstjórn, hefur lamað hagkerfi þeirra og enn svartari tímar eru framundan. Það skal enginn halda að Ísland sé undanþegið þessu lögmáli og staðreyndin er sú að við erum þátttakendur í rússneskri rúllettu. Á meðan vel gengur í ferðaþjónustu og sjávarútvegi er allt í himnalagi, en fallið er ansi hátt ef illa gengur.

Viðskiptaráð og McKinsey hafa bent á mikilvægi þess að bjóða upp á fjölbreyttari útflutning sem gengur ekki einungis út á náttúruauðlindir. Ef við lítum á ferðaþjónustuna er ljóst að styrking krónunnar mun koma sér afar illa fyrir greinina. Ferðamönnum mun einhvern tíma þykja of dýrt að koma hingað og finna sér aðra áfangastaði. Sömuleiðis þarf lítið annað að gerast en að Ísland detti úr tísku til að voðinn sé vís. Áfall fyrir ferðaþjónustuna er áfall fyrir allt hagkerfið.

Íslendingar ættu sannarlega að njóta góðs af náttúruauðlindum sínum og þeim verðmætum sem í þeim felast. Að sama skapi þurfum við að dreifa áhættunni með fjölbreyttara atvinnulífi. Við eigum ótrúlega mikið af frábærum mannauði sem getur staðið sig vel á hinum ýmsu vígstöðvum. Frumkvöðlastarfsemi hér er til fyrirmyndar og hugmyndauðgin er sannarlega til staðar. Lykilatriðið er að einblína á aukna fjölbreytni í útflutningi þannig við verðum ekki næstu fórnarlömb hollensku veikinnar og bölvun náttúruauðlinda. Við eigum að nýta þær auðlindir sem við höfum, ekki bara í náttúrunni, heldur einnig í hug okkar allra. Þannig getum við náð árangri og hagsæld til framtíðar.

Alexander Freyr Einarsson

Pistlahöfundur

Alexander Freyr er MFin frá Massachusetts Institute of Technology og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann býr í New York þar sem hann starfar í fjárfestingarbanka. Áður starfaði hann hjá Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við Endurreisn” ásamt Dr. Ásgeiri Jónssyni. Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín.