Black Lives Matter

eftir Birta Austmann Bjarnadóttir

Árið 2012 var hinn 17 ára þeldökki Treyvon Martin skotinn til bana án ástæðu af hverfisvakt í Flórída þar sem Treyvon átti leið um að kvöldlagi. Mótmæli brutust út um öll Bandaríkin í kjölfarið, friðsamleg og ófriðsamleg, með slagorðið Black Lives Matter, byggt á myllumerki undir sama nafni. Síðan þá hafa mótmæli vegna ofbeldis af hálfu lögreglunnar í Bandaríkjunum og mismununar í garð þeldökkra verið mjög áberandi. Í mótmælunum taka þátt hundruð ef ekki þúsundir manna sem fara áfram af reiði og réttlætiskennd. Framkoma lögreglu við þeldökka í Bandaríkjunum hefur lengi verið gagnrýnd en með aukinni tækni eins og samfélagsmiðlum og farsímum með myndavélum er ekki lengur um að ræða orð gegn orði heldur nást atvik þar sem brotið er á þeldökkum aðilum hvað eftir annað á myndbönd sem síðan fara eins og eldur um sinu á samfélagasmiðlunum. Hér erum við því að sjá nýja tegund réttindabaráttu sem einnig fer fram á samfélagsmiðlum og nær því til enn stærri hóps enn hraðar.

Black Lives Matter er grasrótarhreyfing sem hefur það að markmiði að vekja athygli á því að blökkumenn verða oftar fyrir ofbeldi af hálfu lögreglunnar í Bandaríkjunum og almennri mismunun en aðrir þjóðfélagshópar.

Saga réttindabaráttu þeldökkra í Bandaríkjunum

Að mínu mati er nauðsynlegt að þekkja forsögu atburða til þess að skilja þá betur. Hér ætla ég því í miklu hraði að skauta yfir sögu réttindabaráttu þeldökkra í Bandaríkjunum.

Eins og við öllum vitum hefst saga þeldökkra í Bandaríkjunum með þrælahaldi, en blómleg verslun var með þeldökka í Bandaríkjunum – svo blómleg að hún var víðsvegar lögfest. Það er kaldhæðið að hugsa til þess að landsfeður (e. founding fathers) Bandaríkjanna, sem skrifuðu sjálfstæðisyfirlýsinguna (e. Decloration of Independence), sem leggur m.a. áherslu á mannréttindi og jöfnuð, hafi verið þrælahaldarar.

Þeldökkir fengu síðan frelsi við lok þrælastríðsins í stjórnartíð Abrahams Lincoln. Þrátt fyrir frelsi þeldökkra gerðu ríkin mörg hver þeim erfitt uppdráttar og fengu þeir ekki jöfn tækifæri á við hvíta Bandaríkjamenn. Við lok 19. aldar voru sett lög, svonefnd Jim Crow lög sem kváðu á um aðskilnað kynþátta og átti staða þeldökkra í Bandaríkjunum að vera aðskilin en jöfn (e. Separate but equal) en lögin skiluðu sér í mikilli mismunun í garð þeldökkra í Bandaríkjunum. Lögin giltu til miðrar 20. aldar og einkenndist tímabilið af mikilli grimmd og rasisma í garð þeldökkra. Á þeim tíma voru margir þeldökkir myrtir, og þá var aðferðin „lynching” einkennandi.

Upp úr 1960 fór að bera á hreyfingu þeldökkra sem krafðist þess að aðskilnaður grundvallaður á kynþætti og mismunun myndi heyra sögunni til. Þeldökkir ættu að hafa sömu réttindi og aðrir. Leiðtogi þessarar hreyfingar var Martin Luther King, en hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1964 fyrir störf sín í réttindabaráttu þeldökkra. Hin ýmsu stórmenni komu að réttindabaráttunni og ber þar t.d. að nefna Rosa Park og Thurgood Marshall sem og þúsundir manns sem létu misrétti þeldökkra sig varða og kröfðust jafnrar stöðu allra.

Mótmæli, samstaða og krafa þeldökkra sem og hvítra um jöfn réttinda allra óháð kynþætti skilaði árangri, og með nýjum lögum og dómum Hæstaréttar Bandaríkjanna unnust sigrar í átt að jafnara samfélagi.

Stefnumarkandi dómar Hæstaréttar Bandaríkjanna

Dómaframkvæmd Hæstaréttar Bandaríkjanna hefur haft mikil áhrif á réttindabaráttu þeldökkra og er hún því órjúfanlegur hluti hennar. Hér að neðan eru helstu dómar Hæstaréttar þar sem reyndi á réttindi þeldökkra í Bandaríkjunum.

doomaframkvaemd

Plessy v. Ferguson: Dómstóllinn komst hér að þeirri niðurstöðu að aðskilnaður Jim Crow laganna væri löglegur og færi ekki gegn stjórnarskránni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, hér var vitnað í “separate but equal”.

Brown v. Board of education: lög sem kváðu á um aðskilda skóla fyrir hvíta og þeldökka þóttu fara gegn stjórnarskránni. Í niðurstöðum Hæstaréttar var þó ekki tekið fram hvernig enda ætti aðskilnað í skólum (enda er það líklegast hlutverk löggjafans ekki dómstóla). Dómurinn hafði því ekki mikil praktísk áhrif en var fordæmisgefandi og mikill sigur fyrir réttindabaráttu þeldökkra.

Heart of Atlanda Motel, Inc. v. United States: Hér komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að motel hefði enga heimild til þess að velja gesti sína eins og því hentaði.

Loving vs. Virginia: Þeldökk kona og hvítur maður í Virginíu höfðu verið dæmd í eins árs fangelsi fyrir að giftast, en lög þar bönnuðu hjónaband milli kynþátta. Samhljóma niðurstaða hæstaréttar var sú að lögin færu gegn stjórnarskránni. Í kjölfar þessa dóms féllu því úr gildi lög sem bönnuðu hjónaband milli kynþátta.

Grutter v. Bollinger: Hér reyndi á lög um jákvæða mismunun en tilgangur þeirra var aðstoða hina ýmsu minnihlutahópa. Dómstóllinn staðfesti að lög um jákvæða mismunun stæðust stjórnarskrá þar sem að hér væri um sértæka aðgerð að ræða og tilgangur hennar væri að rétta hlut þeirra sem hallar á.

Eru þeldökkir beittir misrétti af hálfu lögreglunnar í Bandaríkjunum?

Samkvæmt Washington Post voru 258 af þeim 990 aðilum sem létu lífið af völdum aðgerða lögreglu árið 2015 þeldökkir. Það sem af er liðið ári eru skráð 708 dauðsföll af völdum lögreglunnar og eru af þeim 173 þeldökkir aðilar. Hér verður þó að skoða hvert mál fyrir sig; Gagnrýni Black Lives Matter á framferði lögreglumanna gegn þeldökkum í Bandaríkjunum er ekki talin í fjölda andláta heldur aðdraganda þeirra, að þeldökkir séu frekar skotnir en hvítir án þess að raunveruleg hætta hafi stafað af þeim.

Hér að neðan er tafla með nöfnum þeldökkra aðila sem látið hafa lífið af völdum lögreglunnar í Bandaríkjunum. Í flestum þessara mála er síðar meir búið að dæma að lögreglan hafi gengið of langt. Í kjölfar þessara mála brutust víðs vegar út mótmæli þar sem ofbeldi í garð þeldökkra var mótmælt.

nafn

Michael Brown var óvopnaður þegar hann lést, en hann var skotinn 12 skotum af lögreglumanni í Ferguson eftir að hafa stolið sígarettum í sjoppu. Í kjölfar þessa urðu mikil mótmæli og reiði í Ferguson og komu mótmælendur frá öðrum borgum til mótmælanna. Þá sköpuðust miklar umræður um samskipti þeldökkra og lögreglunnar.

22. nóvember 2014 dó hinn 12 ára gamli Trevor Rice eftir að hafa verið skotinn af lögreglumanni. Hann hafði verið í rólu í almenningsgarði og teygt sig eftir því sem lögreglumennirnir á staðnum héldu að væri byssa. Það liðu tvær sekúndur frá því að lögreglumennirnir komu á staðinn og að þeir skutu að Trevor. Trevor var ekki með alvöru byssu. Í kjölfar þess að Trevor Rice lést brutust út fjölmenn mótmæli sem mikill hiti færðist í, enda þótti hér flestum allt of langt gengið .

Freddie Grey var 25 ára þegar hann lést, en hann lést af áverkum eftir harðræði við handtöku og ónægilega aðgæslu í lögreglubifreið. Í kjölfar þessa brutust út mótmæli víðsvegar um Baltimore og færðist í mörg þeirra mikil reiði og hiti sem skilaði sér í ofbeldi af hálfu mótmælenda.

Tölfræðin er líka sláandi. Þeldökkir eru í miklum meirihluta í fangelsum í Bandaríkjunum, en þrátt fyrir að telja um 12-13% af Bandarísku þjóðinni eru þeir 35% af föngum í fangelsum í Bandaríkjunum. Einn af hverjum 15 þeldökkum mönnum í Bandaríkjunum er í fangelsi á meðan að 1 af hverjum 106  hvítra manna er í fangelsi. Þá getur 1 af hverjum 3 þeldökkum mönnum búist við því að fara í fangelsi einhverntíma á lífsleiðinni. Fleiri þeldökkir menn eru í fangelsum en hefja háskólanám. Þeldökkir nemendur eru oftar handteknir en hvítir nemendur af skólalögreglu, en um 70% af handtökum í skólum eru þeldökkir og af spænskum ættum, sem þó eru í miklum minnihluta í skólakerfinu. Jafnframt er þrisvar sinnum líklegra að þeldökk kona sé fangelsuð en hvít kona. Þá fá þeldökkir dóma sem geta verið allt að 10% lengri en hvítir, fyrir sömu brot. Þá hefur fangelsisvist ekki sömu áhrif á tekjur þeldökkra og hvítra, en þeldökkir fá töluvert lægri laun eftir fangelsisvist en hvítir.

Black Lives Matter – All Lives Matter – White Lives Matter – Blue Lives Matter

í kjölfarið af Black Lives Matter hafa myndast fleiri hreyfingar sem svar við Black Lives Matter:

Hugsunin á bakvið All Lives Matter er sú að við erum öll manneskjur, óháð kynþætti, kyni og svo framvegis, og eins og nafnið gefur til kynna skiptir líf og réttinda allra jafn miklu máli. Gagnrýni á All Lives Matter er sú að þar sé gefið í skyn að öll líf séu í jafn mikilli hættu, það sé ekki raunin. Með  Black Lives Matter sé ekki verið að segja að önnur líf skipti ekki máli heldur benda á hvað halli á þeldökka. Að mínu mati fangaði Obama tilgang Black Lives Matter þegar hann tjáði sig um deiluna milli Black Lives Matter og All Lives Matter en hann sagði að hér væri ekki verið að halda því fram að líf þeldökkra væru mikilvægari en önnur heldur benda á vandamál í samfélagi þeldökkra sem þurfi að bregðast við.

White Lives Matter var stofnað í kjölfar Black Lives Matter, en hópurinn er skilgreindur sem haturshópur, hugmyndafræði ný-nasista. Þeir telja m.a. að hvítir Bandaríkjamenn séu að verða undir vegna innflytjenda og hjónabanda milli kynþátta. Flestir stuðningsmanna White Lives Matter styðja Donald Trump til sigurs og höfðar þá sérstaklega til þeirra slagorð hans  “Make America great again”. Hópurinn hefur verið að sækja í sig veðrið.

Blue Lives Matter er hreyfing lögreglumanna í Bandaríkjunum sem var stofnuð eftir Black Lives Matter í kjölfar þess að tveir lögreglumenn voru skotnir til bana við skyldustörf árið 2014. Tilgangur hreyfingarinnar er að veita lögreglumönnum stuðning sem og fjölskyldum þeirra á erfiðum tímum.

Skiptar skoðanir á Black Lives Matter

Black Lives Matter hefur verið gagnrýnt fyrir að vera rasískt og á móti hvítum, að hreyfingin byggi á lygum um að lögreglan beiti svarta mismunun sem sé hættuleg fyrir samfélagið. Þetta er gagnrýni sem ég get ekki tekið undir.

Black Lives Matter er einnig orðið að pólitísku þrætuepli, en forseta frambjóðandi Repúblikana, Donald Trump, hefur gagnrýnt hreyfinguna. Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrata, hefur á hinn bóginn lýst yfir stuðningi við hreyfinguna.

Samkvæmt rannsókn sem var gerð um kosningahegðun þeldökkra í ljósi Black Lives Matter kom í ljós að þeldökkar konur eru líklegri en karlar til þess að kjósa fulltrúa sem styður við hreyfinguna í komandi kosningum í Bandaríkjunum. Þá virðist stuðningur við hreyfinguna skipta meira máli hjá yngri þeldökkum kjósendum.

Bandaríski draumurinn virðist ekki eiga að ná til allra. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að árið 2016 þurfi enn að berjast gegn mismunun, að fólki sé mismunað eftir kynþætti í vestrænu iðnvæddu ríki. Það að litið sé á þeldökka sem hættulegri, að þeldökkir séu í meirihluta í fangelsum, að þeldökkir séu minna menntaðir, fátækari og svona mætti lengi telja, er ekki líffræðilegt, það er félagslegt. Mótmæli í kjölfar dauðsfalla af völdum lögreglunnar eru ekkert nema viðbrögð við hatursglæpum og mismunun. Það er ekki hægt að réttlæta það að hið opinbera mismuni. Í þeim málum sem voru nefnd hér að framan voru grundvallarstofnanir öryggis og réttlætis- löggæsla og dómgæsla –  að bregðast síendurtekið.

Staða þeldökkra í Bandaríkjunum er að mínu mati skammarleg. Jöfn tækifæri til sómasamlegs lífs eiga ekki að takmarkast við kynþætti. Staða þeldökkra í Bandaríkjunum er vandamál sem þarf að bregðast við. Ég sé því ekki meira viðeigandi hátt á að enda þennan pistil en með #BlackLivesMatter

 

Birta Austmann Bjarnadóttir

Pistlahöfundur

Birta er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í lögfræði frá sama skóla. Birta starfaði á viðskiptasviði Íbúðalánasjóðs samhliða námi en starfar núna hjá Þjóðskrá Íslands. Hún hefur setið í stjórnum Vöku fls. og stjórn Politica, félags stjórnmálafræðinema auk nefndarsetu í ráðum Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólaþingi.