Birna og réttarmeinafræðin

eftir Páll Óli Ólason

Ísland er fámennt land. Það hefur sína kosti og galla en eitt er víst að þegar áfall dynur á, eins og atburðir síðustu daga, sameinast þjóðin sem ein heild. Hvarf Birnu Brjánsdóttur þann 14. janúar síðastliðinn snerti ekki aðeins hennar nánustu heldur einnig alla samlanda hennar sem og nágranna okkar. Tvítug stúlka sem fer út að skemmta sér með vinkonum sínum á ósköp venjulegu föstudagskvöldi, dansar og hefur gaman, fær sér að borða eftir á og ætlar svo heim. Við þekkjum þetta ferli, höfum mörg hver margoft gert nákvæmlega sömu hluti. Framhaldið þekkjum við öll, hún skilaði sér ekki heim. Átta dögum síðar var staðfest það sem við öll óttuðumst en vonuðum svo innilega að væri ekki rétt. Það nístir inn að beini að vita til þess að þetta hefði getað verið hver sem er, systir, dóttir, kærasta, vinkona.

Rannsókn málsins

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á hrós skilið fyrir hvernig hún hefur staðið að rannsókn þessa erfiða máls. Hún leitaði til almennings eftir upplýsingum þar sem hún hafði við upphaf rannsóknarinnar úr litlu að moða. Hún hélt blaðamannafund, eitthvað sem þekkist ekki hérlendis, birti myndbrot úr öryggismyndavélum staðsettum í miðbænum sem sýndu Birnu umrætt kvöld og óskaði eftir allri aðstoð. Ekki stóð á vísbendingum almennings, þær streymdu inn. Mikið hefur verið rætt um myndavélar staðsettar í miðbænum, þá sérstaklega um fjölda þeirra og gæði myndefnisins úr þeim. Það má þó ekki gleyma því að ef þessar myndbandsupptökur hefðu ekki verið til staðar væri lögreglan að öllum líkindum ekki með tvo menn í haldi sem svo sterklega eru bendlaðir við verknaðinn. Það sem gerðist næst var það að hinn almenni borgari klæddi sig upp og hóf skipulagða leit af Birnu eða einhverju sem gæti varpað ljósi á atburðarásina. Björgunarsveitirnar og Landhelgisgæslan bættust í leitarhópinn og upp hófst umfangsmesta leit sem þekkist hérlendis, leit sem loks bar árangur.

Upplýsingar til fjölmiðla hafa verið þess eðlis að þjóðin hefur verið upplýst jafnt og þétt, bæði í gegnum blaðamannafundi sem og með samtölum við þá einstaklinga lögreglunnar sem stýrt hafa rannsókninni. Þannig hefur lögreglan náð að stýra umræðunni að mestu bæði til að vernda hagsmuni rannsóknarinnar sem og til að vernda fjölskyldu Birnu.

Rannsókn sem þessi er viðkvæm, sönnunargögnum þarf að safna saman til að fá sem skýrasta mynd, þá þarf að fara varlega með upplýsingagjöf til almennings, taka þarf afstöðu til hvaða fréttir er rétt að birta og hverjar ekki. Sönnunargögnin eru margskonar. Ber þar að nefna farsímagögn, flíkur og þræðir sem finnast á þeim stað sem talinn er tengjast glæpnum og lífsýni s.s. blóð og aðrir vessar. Þar sem erfðamengi okkar eru ólík var hægt að sanna að það blóð sem fannst í bifreiðinni sem hinir grunuðu höfðu til umráða væri Birnu. Það sannar að Birna var í bifreiðinni á einhverjum tímapunkti. Það er ekki bara kenning heldur staðreynd. Blóðið kom úr Birnu og aðeins henni.

Þegar Birna fannst var strax kallað eftir réttarmeinafræðingi til þess að framkvæma krufningu. Var haft samband við þýskan réttarmeinafræðing sem hefur komið að málum hérlendis og þurfti hann að fljúga hingað til lands þar sem ekki er réttarmeinafræðingur í föstu starfi hér á landi. Slíkt fær mann til að hugsa, af hverju ekki?

Krufningar á Íslandi

Þegar horft er á lista yfir tíðni morða í heiminum er Ísland iðulega með einna lægstu tíðnina. Að meðaltalið hafa verið undir 2 morð á ári frá árinu 2000. Þrátt fyrir það hafa krufningar hérlendis verið tæplega 200 á ári síðustu 5-6 ár en voru fyrir það allt upp undir 300. Talað er um tvennskonar krufningar, réttarkrufning og læknisfræðileg krufning. Réttarkrufning fer fram að frumkvæði lögreglu ef grunur leikur á að dauðsfall hafi borið að með saknæmum hætti eða þegar dánarorsök er ekki þekkt. Læknisfræðileg krufning er framkvæmd þegar lík er krufið í læknifræðilegum tilgangi. Réttarkrufningar eru mun fleiri, árið 2015 voru 152 af 182 krufningum réttarkrufningar og árið 2015 voru þær 152 af 187. Það er því alveg kristaltært að hér er grundvöllur fyrir því að hafa réttarmeinafræðing í fullu starfi.

Framhaldið

Nú liggur fyrir að í máli Birnu hefur krufning farið fram og bráðabirgðaniðurstaða hennar hefur borist lögreglu. Rannsókn málsins er í fullum gangi, beðið er eftir niðurstöðum úr lífsýnum sem tekin voru af fatnaði hinna grunuðu og yfirheyrslur standa yfir. Það mun því vonandi fyrr en seinna koma í ljós hvað varð til þess að þessi hörmulegi atburður átti sér stað og með hjálp réttarmeinafræðinnar og ítarlegrar rannsóknar mun réttlætið ná sínu fram.

Að lokum votta ég aðstandendum og vinum Birnu samúð mína og minni okkur öll á að gæta að náunganum, fylgjumst með fólkinu í kringum okkur, ekki bara þeim sem standa okkur næst heldur líka þeim sem við þekkjum ekki.

 

Páll Óli Ólason

Pistlahöfundur

Páll Óli útskrifaðist úr læknisfræði við Háskóla Íslands sumarið 2017 og lauk kandídatsári í júní 2018. Hann stundar sérnám í bráðalækningum við Landspítala. Hann tók virkan þátt í starfi Vöku fls. í Háskóla Íslands og sat meðal annars sem formaður sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs í Stúdentaráði. Páll Óli sat í Útsvarsliði Árborgar frá árinu 2008-2012. Skrif hans í Rómi snúa helst að heilbrigðismálum og lýðheilsu.