Biksvartur húmor

eftir Arnór Bragi Elvarsson

Þessa grein tekur 4 mínútur að lesa

Malbik, samblanda af hnausþykkri aukaafurð olíuframleiðslu (biki) og möl, hefur bætt vegagerð til muna. Hugmyndin um að splæsa þessu tvennu saman er líklega eitt helsta verkfræðilega afrek síðustu alda. Malbik hefur þann kost fram yfir malarvegi að það bindur svifryk að mestu leiti og gerir borgir því mun lífvænlegri en áður. Malbik eykur veggrip og þægindi við akstur sem leyfir hærri aksturshraða og bætir þar af leiðandi flutningsgetu vegakerfisins. Einn ókosturinn er þó kannski það að slitlagi malbiksvega þarf að viðhalda reglulega.

 

Viðhaldið hefur látið á sér standa

Mörgum er minnisstætt að fyrir tveimur árum síðan komu malbiksslitlög víða í Reykjavík sérstaklega illa undan vetri. Stórar holur urðu til sem gerðu nýjar kröfur til svigaksturshæfileika ökumanna þegar borgin sparaði of mikið í vegaviðhaldi. Þegar verktakar voru loks fengnir til að malbika, var mikið um að fólk birti myndir og jafnvel reiðipistla á samfélagsmiðlum vegna tafanna af þessari vinnu.  

Annars vegar er það frekar fyndið að sumir sjái ekki að viðhald malbiks sé hliðarafurð þeirrar velmegunar og bættra lífskjara sem við lifum við með bættum vegum. Hins vegar er það líka orðið fyndið hvað stjórnmálamenn átta sig seint á vandanum sem felst í því að svelta innviði þörfu viðhaldi. Vandinn safnast upp.

 

Aukin útgjöld segja ekki alla söguna

Samkvæmt fréttatilkynningum Reykjavíkurborgar hefur borgin veitt mun meiri fjármuni til malbikunar undanfarið en fyrri ár. Á bilinu 2004-2008 var 4,8% heildarlengdar vegakerfis Reykjavíkur endurnýjað árlega að meðaltali (stofnbrautir Vegagerðarinnar í Reykjavík ekki meðtaldar, sjá mynd 3). Árið 2018 er stefnt að því að endurnýja 10% allra vegkafla borgarinnar fyrir 2 milljarða króna. Þetta er fagnaðarefni enda hafði fjárfestingu borgarinnar til innviðaviðhalds dalað síðan 2008 eins og sjá má á eftirfarandi mynd.

Mynd 1: Núvirði malbikunarframkvæmda í Reykjavík, gögn frá Reykjavíkurborg

 

Þegar rýnt er í gögnin má þó líka sjá að á sama tíma og sparað var í viðhaldi var vegakerfið stækkað (sjá mynd 2). Síðan 2004 hefur veganet Reykjavíkurborgar lengst um 30%. Í staðinn fyrir að gera við götur á niðursveifluárunum, stækkaði borgin netið sitt. Að núvirði jafngildir þetta 230 milljóna króna aukningu í árlegt malbikunarviðhald m.v. fyrr nefnda 4,8% endurnýjun á ári. Þess ber að geta að uppsafnaða viðhaldsþörfin er meiri.

Mynd 2: Malbikunarviðhald í hlutfalli við vegakerfi Reykjavíkur, gögn frá Reykjavíkurborg

 

Á sama tíma og skuldir aukast í Reykjavík er borgin að skuldbinda sig til frekari árlegra fjárútláta. Það hlýtur að teljast metnaðarfullt ef Reykjavík á erfitt að viðhalda þeim götum sem hún á þegar. Miðað við að skatttekjur Reykjavíkurborgar jukust um 10% á milli ára árið 2017, þá sýnist höfundi það einungis ætla að bitna á skattgreiðendum borgarinnar.

 

Sól í kortunum

Stórar áætlanir Reykjavíkurborgar að laga göturnar eru álitlegar og veðurspáin er orðin það líka. Það sem af er sumars hafa malbikunarverktakar víða um land átt erfitt með að standa við áætlanir sínar vegna rigningar, sem bitnaði t.d. á þátttakendum KIA Gullhringsins sem átti að fara fram þarsíðustu helgi, en var frestað vegna vegarástandsins. Frekar er hægt að sýna því skilning að verktakar geti ekki unnið vinnuna sína vegna veðurs en að stjórnmálamenn finni ekki fjármagn. Þetta sýnir þó enn frekar mikilvægi þess að fresta ekki viðhaldi fram á síðustu stundu.

Nú þegar sólin fer loksins að láta sjá sig þá gera malbiksverktakar líka vart við sig. Á næstunni verða umferðartafir því óumflýjanlegar. Þá mæli ég með að hækka í útvarpinu, virða umferðarreglur og brosa yfir því hvað malbik er frábært.

 

 

Mynd 3: Stofnbrautir Vegagerðarinnar í Reykjavík, skjáskot úr Borgarvefsjá