Biden, Bernie og einvígið um Bandaríkin

eftir Bjarni Halldór Janusson

Um þessar mundir er mikið fjallað um helstu sviptingar í bandarískum stjórnmálum. Brátt eru liðin fjögur ár frá síðustu forsetakosningum og því eru næstu kosningar rétt handan við hornið. Í Bandaríkjunum er tvíflokkakerfi við lýði og frá miðbiki nítjándu aldar hafa forsetar Bandaríkjanna komið úr röðum tveggja flokka. Sitjandi forseti Bandaríkjanna kemur úr röðum Repúblikana og mun etja kappi við forsetaefni Demókrataflokksins næsta haust. Nú stendur yfir baráttan um forsetatilnefningu Demókrata og þar stefnir í einvígi milli Joe Biden, fyrrum varaforseta, og Bernie Sanders, öldungadeildarþingmanns.

Fulltrúafjöldi og forysta

Til að hljóta tilnefningu flokksins þarf stuðning 1.991 landsfundarfulltrúa, eða kjörmanna, og ræðst fulltrúafjöldi frambjóðenda af árangri þeirra og atkvæðafjölda í hinum ýmsu ríkjum. Alls eru landsfundarfulltrúarnir 3.979 talsins. Kaliforníuríki er fjölmennasta ríkið og hefur því 415 fulltrúa, en fámennustu ríki og yfirráðasvæði Bandaríkjanna hafa undir tuttugu og jafnvel undir tíu fulltrúa. Enn er verið að telja atkvæði frá kosningunum síðasta þriðjudag og þegar þetta er skrifað hefur Biden um og yfir 620 fulltrúa, en Sanders um og yfir 550 fulltrúa. Elizabeth Warren, sem dró framboð sitt til baka í gær, virðist hafa hlotið 64 fulltrúa. Um það bil 2.500 fulltrúar standa enn til boða og því verður hart barist fram í byrjun júní þegar baráttunni lýkur endanlega.

Lengst af þótti Biden líklegastur til að hljóta tilnefningu Demókrata og út árið 2019 mældist hann efstur í skoðanakönnunum á landsvísu, en í ársbyrjun 2020 fór fylgið hans að falla og Sanders náði forystu. Forysta Sanders varð svo enn meiri þegar kosið var í fyrsta ríkinu, Iowa. Þar hlaut Sanders næstflesta fulltrúa, eða 12 fulltrúa af þeim 41 sem stóðu til boða, en Biden hlaut eingöngu 6 fulltrúa. Þá kepptust raunar ellefu frambjóðendur um atkvæðin, en í dag eru frambjóðendurnir eingöngu þrír talsins, eða áðurnefndir Sanders og Biden auk Tulsi Gabbard.

Í New Hampshire og Nevada varð forysta Sanders enn meiri þegar hann hlaut flest atkvæði og flesta fulltrúa, en skammt undan voru þeir Pete Buttigieg og Joe Biden. Öll von virtist úti fyrir Joe Biden sem hafði fallið í skoðanakönnunum og beðið ósigur í fyrrnefndum ríkjum. Í lok febrúar fór staða hans þó að vænkast þegar hann hlaut stuðning úr öllum áttum og náði góðri kosningu í Suður-Karólínu. Frambjóðendur sem áður höfðu gert gott mót, svo sem Amy Klobuchar og Pete Buttigieg sem nutu stuðnings 15% kjósenda, drógu framboð sín til baka og studdu við bakið á Biden.

Þá lýsti Jim Clyburn yfir formlegum stuðningi við Biden, en Clyburn má telja nokkurs konar varaformann þingflokks Demókrata í fulltrúadeildinni og þykir mjög vinsæll í heimaríki sínu, Suður-Karólínu, einkum meðal þeldökkra kjósenda. Stuðningur hans skipti sköpum þegar Biden hlaut um helming atkvæðanna í Suður-Karólínu og hlaut tvo þriðju allra greiddra atkvæða frá þeldökkum. Sigur Biden í Suður-Karólínu fylgdi honum síðastliðinn þriðjudag þegar hann vann stórsigur í suðurríkjunum og tókst að virkja kjósendahópa sem þóttu ólíklegri til að skila sér á kjörstaði. Nefna má að Suður-Karólína hefur lengst af verið vígi Repúblikana, en þeir hafa sigrað í ríkinu í öllum forsetakosningum frá árinu 1980.

Líkt og fyrr segir hefur Biden flesta fulltrúa, ekki síst vegna stórsigursins síðasta þriðjudag. Biden mælist einnig með mesta fylgið, sé tekið meðaltal síðustu kannana, en raunar virðist Biden hafa enn meiri forystu í allra nýjustu könnunum, þar sem Biden mælist með um 40% fylgi en Sanders 30%. Einnig eru taldar mestar líkur á að Biden hljóti tilnefningu flokksins, en líkurnar eru um 80% gegn 10% líkum á að Sanders hljóti tilnefningu. Áður en kosið var á hinum svonefnda ofurþriðjudegi, þar sem kosið var um þriðjung landsfundarfulltrúa, þótti líklegra að Sanders hlyti tilnefningu. Áður mældust þau Bloomberg og Warren í þriðja og fjórða sæti, en Bloomberg hafði að meðaltali um 18% fylgi en Warren um 11% fylgi.

Sóknarfæri og samstarf

Líklegt þykir að kjósendur sem annars hefðu kosið Bloomberg kjósa nú Biden í staðinn, en líklegast þykir að kjósendur Warren skipti sér nokkuð jafnt á milli Biden og Sanders, þó líklegra þyki að fleiri kjósi Sanders en Biden. Nú munu Sanders og Biden áreiðanlega keppast um stuðning hennar, en hún þykir vinsæl meðal kjósenda þeirra, auk þess sem hún gæti höfðað til kjósenda sem Biden og Sanders ættu annars erfitt með að höfða til.

Í tilfelli Biden gæti hún fært honum kjósendur sem þykja hann annars of miðjusinnaður og íhaldssamur, en í tilfelli Sanders gæti hún hjálpað honum að höfða til kvenna, einkum háskólamenntaðra, og kjósenda á norðausturhorni Bandaríkjanna, sem Biden virðist ná betur til þessa dagana. Warren gæti því allt eins hlotið tilnefningu sem varaforsetaefni, fjármálaráðherra eða innanríkisráðherra, þó hið síðarnefnda þyki raunar líklegra en hið fyrstnefnda.

Sanders nýtur langmests stuðnings meðal yngstu kjósenda og meðal þeirra sem eru 30-44 ára, á meðan Biden hefur töluvert minni stuðning þar. Hjá 65 ára og eldri nýtur Biden yfirburðarstuðnings og hjá 45-64 ára hefur hann töluvert meiri stuðning en Sanders. Kjörsókn var eingöngu 46% hjá yngri en 30 ára í síðustu forsetakosningum, sem merkir að Sanders getur átt töluvert inni, en það er vissulega áhætta líka, og svo virðist ekki sem kjörsókn hafi aukist mikið hjá yngri aldurshópum síðasta þriðjudag. Biden hefur langmestan stuðning þeldökkra kjósenda, sem getur verið áhætta í ljósi þess að kjörsókn þeirra hríðféll í síðustu forsetakosningunum, en virðist þó hafa skilað Biden góðum árangri í suðurríkjunum síðastliðinn þriðjudag.

Þegar niðurstöður liggja fyrir og Demókratar hafa valið forsetaefni flokksins, þá hefjast getgátur um hver verði varaforsetaefni flokksins. Oftar en ekki hafa forseti og varaforseti ólíkan bakgrunn og höfða til ólíkra hópa. Árið 2016 varð Mike Pence fyrir valinu sem varaforsetaefni Donald Trump, en Pence þótti ná vel til miðvesturríkjanna, sem á endanum tryggðu Trump forsetaembættið, auk þess sem Pence þótti vinsæll meðal trúaðra og íhaldssamra og hafði stuðning ráðandi afla, sem Trump skorti í upphafi.

Í þeim tilfellum sem ekki er reynt að höfða til ólíkra hópa, þar sem er ekki reynt að sameina hið miðsækna fylgi og jaðarfylgið, þá eru varaforsetaefni oft reynsluboltar úr stjórnsýslunni eða stjórnmálum. Obama valdi Biden sem varaforseta árið 2008 svo hann gæti náð betur til hvítra kjósenda og kjósenda utan helstu þéttbýlisstaða, en líka því Biden hafði þá verið öldungadeildarþingmaður í næstum fjóra áratugi. George Bush yngri valdi Dick Cheney árið 2000 vegna þess að hann þekkti bandaríska stjórnsýslu eins og lófann á sér, en hlaut líka meðmæli frá Bush eldri.

Sanders hefur talað fyrir miklum innviðafjárfestingum og auknum fjárframlögum til helstu málaflokka, líkt og Warren, sem þýðir að þau næðu vel saman en höfða þó til svipaðra kjósenda. Erfiðara væri fyrir Warren og Biden að ná saman um helstu stefnumál, en samstarf við Warren myndi hjálpa Biden að höfða til kjósenda sem hann hefur annars ekki höfðað til. Því er ljóst að auk Sanders og Biden verður Warren áreiðanlega mikið í sviðsljósinu næstu daga, því stuðningur hennar getur skipt sköpum, einkum fyrir Sanders.

Spá um framtíðina

Flestir kjósendur Demókrata ætla sérkjósa þann sem er líklegastur til að sigra Donald Trump, á meðan stefnumál og hugmyndafræði mæta afgangi. Svo virðist sem Demókrataflokkurinn ætli að veðja á Joe Biden, en lykilfólk úr flokknum hefur nú þegar lýst yfir stuðningi við Biden. Þetta mun án efa gera Sanders erfitt fyrir. Í þessu skyni hafa sumir líka bent á að Sanders hafi raunar gengið best í þeim ríkjum þar sem algengt þykir að kjósa nokkrum dögum fyrir, en þá hafa þeir kjósendur greitt atkvæði áður en Biden náði að bæta stöðu sína.

Einnig þykir líklegra að Biden sigri í þeim ríkjum sem eiga enn eftir að kjósa, sem eru mörg miðvesturríki og norðausturríki, auk nokkurra suðurríkja eins og hið fjölmenna Flórídaríki, en Sanders þótti hafa mestan stuðning í vesturríkjunum og suðvesturhluta Bandaríkjanna þar sem ungir kjósendur og kjósendur af rómönskum uppruna eru mest áberandi, svo sem í Kaliforníu þar sem Sanders vann góðan sigur. Enn á eftir að kjósa í mikilvægum ríkjum á borð við Flórída, Michigan og Georgíu sem eru mikilvæg því þau gefa marga fulltrúa en eru líka þekkt fyrir að sveiflast á milli flokka í forsetakosningum.

Án efa vill flokkurinn horfa til þess hver gæti náð sigri í mikilvægum sveifluríkjum í næstkomandi forsetakosningum, en þau ríki eru helst að finna meðal suðurríkjanna eða miðvesturríkjanna, svo sem Virginía, Norður-Karólína og áðurnefnd Flórída í suðrinu, eða Wisconsin, Iowa og Michigan í miðvestrinu. Biden virðist augljós valkostur þar sem hann gæti höfðað til eldri kjósenda í miðvesturríkjum, eins og í Minnesota síðasta þriðjudag, og náð til þeldökkra kjósenda í suðurríkjunum, líkt og síðasti þriðjudagur sýndi einnig. Stuðningsfólk hans bendir jafnframt á að Biden geti betur náð til óháðra og óákveðinna kjósenda, sem eru svonefndir miðjukjósendur, en þó verður að nefna óvissu með það, enda virðist sem þeir kjósendur séu ekki endilega miðsæknir.

Svo má heldur ekki vanmeta Sanders. Hann náði sigri í Wisconsin og Michigan gegn Hillary Clinton árið 2016 og þykir vinsæll í öðrum sveifluríkjum á borð við Nevada í vestri og New Hampshire í norðaustri, þar sem hann vann góðan sigur í ár, sem og í sveifluríkinu Iowa þar sem hann náði líka góðum árangri. Þá bendir stuðningsfólk hans á að árangur miðjusinnaðra frambjóðenda hafi verið misgóður frá aldamótum, en Al Gore, John Kerry og Hillary Clinton hafa öll beðið ósigur. Jafnframt er bent á að Sanders geti betur náð til kjósenda sem tilheyra hvorki Demókrataflokknum né Repúblikanaflokknum, eða einkum ungt fólk sem kallar eftir róttækari breytingum en þær sem flokkarnir hafa hingað til boðið upp á, en þó má nefna óvissuna með kosningaþátttöku þeirra. Loks má nefna að Sanders og Biden virðast báðir sigra Trump í skoðanakönnunum (það er svo annað mál hvort þær gefa rétta mynd).

Ljóst er að baráttan verður jöfn og ef Warren lýsir yfir stuðningi við Sanders þá verður hörð barátta fram í lok forvalsins í júní. Það eru ýmsir þættir sem vinna með Biden, en einnig ýmsir þættir sem vinna með Sanders, og því ekki gefið fyrir fram hver þeirra hljóti tilnefningu flokksins. Staðan núna virðist raunar betri hjá Biden, en Sanders er einnig þekktur fyrir það að geta komið á óvart og unnið sigra þegar öll von virðist úti. Hvað sem þessu líður, þá er vika langur tími í stjórnmálum, eins og Joe Biden virðist hafa sannað nýverið. Kannski er komið að Sanders að sanna það næst?

Bjarni Halldór Janusson

Stjórn & pistlahöfundur

Bjarni Halldór er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur nýlokið meistaranámi í stjórnmálaheimspeki við University of York í Bretlandi. Skrif hans hverju sinni munu beinast að helstu málefnum félags- og hugvísinda. Þá verða málefni líðandi stundar og hugmyndafræðilegar vangaveltur fyrst og fremst til umfjöllunar. Hann hefur lengi látið sig félagsmál varða, en þar ber helst að nefna varaþingmennsku á Alþingi og setu í Stúdentaráði HÍ.