Bestu og verstu dómar MDE á árinu 2017

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Á þorra skína bæði stjörnurnar á vetrarhimninum og í Hollywood skærar en venjulega. Tilnefningar til Óskarsverðlauna árið 2018 hafa þegar verið kynntar en efni þessa pistils eru þó yfirburðir á öðru sviði. Á heimasíðunni Strasbourgobservers stendur nefnilega yfir kosning um besta og versta dóm Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sem féllu á árinu sem leið.

En hvað skilur að góða og slæma dóma MDE? Í færslu Strasbourgobservers segir að meðal annars megi spyrja að því í hvaða tilvikum dómstóllinn hafi staðið undir nafni sem „samviska Evrópu“ og hvenær það ætlaða hlutverk hefði hugsanlega mátt rækja betur. Annar mælikvarði gæti verið gæði lögfræðilegrar röksemdarfærslu dómsins fyrir niðurstöðu sinni hverju sinni. Dæmi hver fyrir sig en niðurstöður kosningarinnar verða kynntar í febrúar.

Tilnefningar Strasbourgobservers um „bestu dóma“ ársins 2017 voru eftirfarandi (í stafrófsröð):

 1. Bărbulescu g. Rúmeníu
 • Vinnuveitanda var ekki talið heimilt að fylgjast með tölvupósti starfsmanns og að eftirlitið hafi falið í sér brot gegn friðhelgi einkalífs starfsmannsins.
 1. Bayev g. Rússlandi
 • Niðurstaða MDE var að rússnesk lög sem kváðu meðal annars á um bann gegn útbreiðslu boðskaps um samkynhneigð við ákveðnar aðstæður (e. the gay propaganda law) hafi brotið gegn 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) um tjáningarfrelsi og 14. gr. MSE um bann við mismunun.
 1. Carvalho Pinto de Sousa Morais g. Portúgal
 • Talið var að lækkun fjárhæðar skaðabóta vegna varanlegs líkamstjóns 50 ára konu sem hún hafði hlotið vegna mistaka í aðgerð með vísan til staðalímynda um aldur og kyn, hafi brotið gegn 8. gr. um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og 14. gr. MSE um bann við mismunun.
 1. Hamidović g. Bosníu og Hersegóvínu
 • Vitni í dómsmáli var refsað fyrir að mæta í réttarsal með höfuðfat eins og venja er fyrir hjá sumum sem aðhyllast múhameðstrú (e. islam skullcap). Niðurstaða MDE var að refsingin hafi falið í sér brot gegn 9. gr. MSE um hugsana- samvisku- og trúfrelsi og 14. gr. MSE um bann við mismunun.
 1. D. and N.T. g. Spáni
 • Brottvísunaraðgerðir (e. push-back operations) á spænsku landamærunum voru taldar hafa brotið gegn rétti til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns og banni gegn því að gera hópa útlendinga landræka, sbr. 4. gr. 4. viðauka MSE.

Í flokknum „verstu dómarnir“ árið 2017 hlutu eftirfarandi dómar tilnefningu (í stafrófsröð):

 1. Burmych o.fl. g. Úkraínu
 • Í málinu var meðal annars fjallað um að hvorki dómum MDE eða innlendra dómstóla í Úkraínu væri framfylgt í Úkraínu. Niðurstaða MDE var að það ætti fremur að koma í hlut evrópsku ráðherranefndar Evrópuráðsins (e. Committee of Ministers) að leysa málið en ráðherranefndin samanstendur af utanríkisráðherrum aðildarríkja ESB og fastafulltrúum þeirra.
 • Niðurstaða MDE er þó ekki úr lausu lofti gripin en á meðal hlutverka ráðherranefndarinnar er að framfylgja dómum Evrópudómstólsins og að ákveða viðbrögð vegna aðsteðjandi vandamála í Evrópu. Gagnrýni Strasbourgobservers lýtur þó líklegast helst að því sem áður hefur verið bent á um að framfylgd dóma MDE er í reynd háð samvinnu af hálfu aðildarríkjanna þar sem MDE hafi takmörkuð úrræði í þeim efnum.
 1. Sératkvæði dómarans Dedov í Bayev g. Rússlandi
 • Sératkvæði dómarans Dedov, í fyrrgreindu máli MDE Bayev g. Rússlandi, var talið svo litað af fordómum gegn samkynhneigðum að þrátt fyrir að um sératkvæði hafi verið að ræða, þ.e. minnihlutaálit, ætti það engu að síður erindi á topp fimm listann yfir verstu dóma ársins.
 1. Garib g. Hollandi
 • MDE staðfesti að synjun á búsetuleyfi (e. housing permit) til einstæðrar móður sem framfleytti sér á félagslegum bótum hafi ekki brotið gegn frelsi hennar til þess að velja sér búsetustað. Nánar tiltekið hafði henni verið synjað á grundvelli löggjafar sem kvað á um lágmarks fjárhæð tekna til búseturéttar á tilteknum svæðum í Rotterdam.
 1. Khamtokhu og Askenchik g. Rússlandi
 • Kyn- og aldursbundin mismunun við ákvörðun refsingar var ekki talin fela í sér brot gegn 10. gr. MSE. Samkvæmt hinum umdeildu lögum var einungis heimilt að ákveða að karlmenn á aldrinum 18 til 65 ára sem hefðu gerst sekir um tiltekna glæpi yrðu dæmdir í lífstíðarlangt fangelsi, en ekki mátti dæma sambærilega refsingu í tilviki kvenna, ungmenna eða eldri borgara, sem höfðu framið sama glæp.
 1. Ndidi g. Bretlandi
 • Málið fjallaði um brottvísun innflytjanda sem hafði sest að í Bretlandi en honum var gert að snúa aftur til heimaríkis síns í kjölfar afbrota en hann var meðal annars dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir dreifingu fíkniefna.
 • Í yfirliti Strasbourgobserver er því velt upp hvort niðurstaðan sé til marks um minnkandi vernd fyrir innflytjendur á grundvelli 8. gr. MSE, um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, þar sem þrýstingur frá almenningi vegna innflytjendamála hafi farið vaxandi.

Áhugavert verður að sjá hvaða dómar verða fyrir valinu sem sá besti og hvaða dómur sá versti. Meira um það síðar, en að endingu má nefna áhugaverð nokkur áhugaverð mál sem eru á döfinni hjá MDE:

 • Mál Navalnys g. Rússlandi – Frambjóðandi til forseta Rússlands var ekki talinn kjörgengur vegna fjárdráttar sem hann hafði verið dæmdur fyrir nokkrum árum áður. MDE hefur hins vegar þegar staðfest að sá dómurinn hafi verið “augljóslega óréttmætur. Þess má geta að Navalny var handtekinn í Moskvu þann 29. janúar sl.fyrir að hafa staðið að ólöglegum mótmælafundi á degi Rússlands til þess að mótmæla spillingu í landinu.
 • Mál Michel Platini g. Sviss – Michel Platini, fyrrum forseti UEFA, var árið 2015 dæmdur í átta ára bann af afskiptum af fótbolta af siðanefnd FIFA í kjölfar hneykslismáls. Fyrir alþjóðlegum áfrýjunardómstól í Sviss var tíminn styttur í fjögur ár. Platini er hins vegar enn ósáttur og telur sig ekki hafa gert neitt rangt og hefur hann því kært niðurstöðuna til MDE.

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.