Bergmál þekkingar

eftir Guðmundur Snæbjörnsson

Afsakið kennari. Ég er með spurningu.

Höndin er reist hátt til lofts. Nemandinn er stúlka í grárri peysu með víðu hálsmáli. Á viðbeininu liggur gullhálsfesti, þar sem stendur nafn hennar. Hún er ljóshærð. Neðri vörin er föst í biti tannarinnar. Augun eru létt pírð. Höndin er búin að vera uppi í gegnum góðan hluta fyrirlestrarins. Hana er farið að verkja í hægri öxlina. Eins og puttalingur sem hefur beðið með hendina úti og þumalinn uppréttan, á meðan umferðin brunar framhjá.

Kennarinn stoppar. Hann er smá gáttaður. Spurning? – Veit nemandinn ekki að hér er fyrirlestrarform. Að nemendur eru ekkert nema bergmál þekkingar kennarans. Það þýðir lítið að rífast og ræða. Staðreyndir eru þær staðreyndir sem kennarinn segir að séu staðreyndir.

Já?

Hún andar inn. Fram kemur vel ígrunduð spurning um svefnvenjur nashyrninga. Kennarinn deplar augunum. Hann hafði búist við romsu. Yfirleitt fær hann bara romsur frá gömlu fólki. Einn nemandinn er grásprengt gamalmenni sem lifað hefur tímanna tvenna. Sá talar oft um það þegar Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra, eða þegar þeir voru samferða í  Keflavíkurgöngu árið 1987. Staðreyndir sem eru óháðar efni fyrirlestrarins.

Kennarinn svarar spurningunni eftir bestu getu. Stúlkan kemur með gott gagnsvar. Ungur drengur með snyrtilegan snúð og í bol, sem tileinkaður er íslensku stuðhljómsveitinni Sprengjuhöllin, varpar fram tilgátu. Kennarinn svarar á ný. Annar nemandi, þessi grásprengdi og gamli, kemur með innskot. Það er ekki sjálfhverft heldur gott. Hver af öðrum taka nemendur þátt í umræðunni. Fyrr en varir eru skoðanir þeirra farnar að takast á. Stöðugur og tilbreytingarlaus upplestur er orðinn að hitaumræðu, með akademískri fjarlægð.

Heimskuleg spurning

Myndum við segja að senan hér að ofan endurspegli sannleikann í íslenskum kennslustofum? Hversu margir hafa lent í því að sitja í þéttsetnum kennslusal þar sem linsan í auganu bíður þess að þorna upp úr leiðindum? Viljum við vera bergmál þekkingar annarra eða viljum við rífast við samnemendur og fá nýja sýn á málefni löngu liðinnar eða líðandi stundar? Til hvers mætum við í kennslustofu, ef það eina sem við fáum í staðinn, er upplestur á efnisinnihaldi kennslubókar?

Vinur minn sem var í námi í Bandaríkjunum, sagði mér að þar lyftu margir upp hönd, án þess að hafa nokkra spurningu. Nemendur þrái einfaldlega að vera hluti af umræðunni. Í mörgum kennslutímum sem ég hef verið í, passar fólk sig á að hafa hendurnar samhliða búknum. Þannig lendir enginn í vandræðalegum samræðum við kennarann fyrir framan samnemendur sína. Hver vill spyrja heimskulegrar spurningar? Hver vill tefja kennarann við að klára fyrirlesturinn? Valda því að fólk komist seinna heim til að taka því rólega.

Ég held ekki að fyrirlestrarformið sé dautt. Ég held það sé bráðlifandi. Ég held það megi lengi lifa, en það þarf að gæta þess hvernig farið er með það. Fyrirlestrar þar sem eingöngu er miðlað þekkingu án þess að vegist sé á um hana, er til einskis. Það á að rífast. Það á að ögra. Við lærum ekki til þess að kunna orð fyrirlestrarins utanbókar. Við viljum skilja lærdóminn.

Spegluð kennsla

Ég tel að besta leiðin til að bæta úr þessu vandamáli sé með vendikennslu, sem einnig er þekkt sem spegluð kennsla. Í slíku kerfi eru fyrirlestrar kennara á netinu. Nemendur geta horft og hlustað á fyrirlestranna eins oft og þeir vilja, hvar sem þeim vilja. Þá geta nemendur sent nafnlausar spurningar um efnið til kennara og fengið svör á netinu. Þau svör eru öllum opin. Nemendur geta einnig rætt þar innbyrðis.

Kennslustundir yrðu í kjölfarið öðruvísi. Nemendur myndu oftast vinna verkefni saman í hóp og kennarar myndu aðstoða eftir því sem þörf er. Þar sem vendikennsla hefur verið reynd virðist kennslustundin virkja nemendur af meiri kraft. Þau mæta í tíma og ræða málin. Góður undirbúningur fyrir slíka tíma er alltaf nauðsyn, en nám er vinna. Innan sem utan kennslustofunnar.

Við förum í nám til þess að læra og geta beitt þeim lærdóm. Við viljum ekki vera páfagaukar. Ég held að besta leiðin til þess sé með öflugri verkefnavinnu og samræðum um námið. Þar sem ólíkar skoðanir og túlkanir á námsefninu vegast á. Þá þekkjum við mismunandi anga námsefnisins, höfum skeggrætt það og getum staðið í báðar lappir þegar við beitum því í framkvæmd.