Baráttan um turninn við tjörnina
Laugardag nokkurn nú í maí
listaframboð reyna
sér að tryggja völd í bæ
og sæti við tjörn eina
Heldur meirihlutinn velli?
rennur kannski upp Dagur nýr?
Stjórnar hverrar keppikefli
er að öðlast framhalds-Líf
Framboðslistar fleiri nú
en nokkru sinni áður
kjósandi góður, nú þarft þú
að velja og hafna sjálfur
Vandast málið vinur minn
verkefnið er ærið
sextán listar, hver er þinn?
ljóta fyrirbærið
Allt í graut og einum hnút
aðeins betur skoðum
Tökum þessi tilboð út
í röð eftir framboðum:
Kommar og kratar fá svar við bæn
fram bjóða fjórir listar:
Alþýðufylking, Vinstri græn,
Samfó og Sósíalistar
Á öndverðu meiði nefna má
Þjóðfylking, Frelsisflokkur
Flokkur fólksins kemur þá
loks Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur
Framsóknarflokkarnir eru þrír
sá gamli, Sveinbjörg og Vigga
er einhver munur, maður spyr?
hvern ert þú að digga?
Gleyma ekki heldur má
Pírötum og Höfuðborgarlista
Kynjatvíhyggju gætir þá
á kvenna- og karlalista
Kjörseðill langur, ég fæ sjokk
á lengd við borgarlínu
setj’ann ætti strax í stokk
frá Mjódd og niðrí Kringlu
Rignir yfir loforðaflaum
listar hyggjast margir
lækka útsvar, hækka laun
og græja aðrar bjargir
Hvort og hverju trúa skal
hver um sig mun dæma
því að lokum þitt er val
hvern atkvæðið mun sæma
Ekki er úr vöndu að velja
viljir þú bara status quo
x-ið setur, myndi ég telja
við Pírata, VG og Samfó
Í fílabeinsturni sætin fá
en um marga að velja
verðum bara að bíða og sjá
þau lengi verða að telja
Hvernig sem að lokum fer
er áhugi á undanhaldi
sjálf afskaplega fegin er
að kjósa úti á landi