Baráttan um sæti Scalia

eftir Birta Austmann Bjarnadóttir

Antonin Scalia lést síðastliðinn laugardag, þá 79 ára að aldri. Scalia hafði þá setið sem dómari í hæstarétti Bandaríkjanna frá 1986 þegar Ronald Reagan skipaði hann í embættið. Fráfall hans skapar laust pláss í hæstarétti en þar er úrskurðað, oft með eins atkvæðis mun, um mikilvæg og umdeild mál í bandarísku samfélagi. Dómurinn hefur meira vægi félagslega og í stjórnmálum en við þekkjum hérlendis.

Í kjölfar þess að losnað hefur embætti við hæstarétt Bandaríkjanna hafa margir velt því fyrir sér hver verði næsti dómari og þá enn frekar hver skipi hann. Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna skal forseti tilnefna dómara og öldungadeild þingsins samþykkja hann, en tilnefningu forseta hefur í fjórðungi tilfella verið hafnað af hálfu öldungadeildarinnar. Þrætueplið um þessar mundir er því hvort Barack Obama fái að skipa nýjan dómara eða hvort það sé í verkahring næsta forseta Bandaríkjanna. Alla jafna eru dómarar sem eru tilnefndir af demókrötum frjálslyndir en þeir íhaldssamir sem Rebúplikanar tilnefna.

Núverandi staða í hæstarétti og dómskerfið

Í Bandaríkjunum má greina á milli ríkis- og alríkisdómstóla. Hæstiréttur er æðsta alríkisdómstigið og náist ekki meirihluti í hæstarétt um niðurstöðu gildir úrskurður dómstigsins fyrir neðan. Í níu af þrettán áfrýjunardómstólum er meirihluti skipaðra dómara frjálslyndur. Hæstiréttur Bandaríkjanna fær árlega um 8000 málsmeðferðarbeiðnir og tekur til meðferðar um 80-100 mál á ári. Hann hefur lögsögu yfir öllum Bandaríkjunum og velur sjálfur hvaða mál hann tekur til meðferðar. Málin eru flutt munnlega fyrir níu dómurum hæstaréttar og niðurstaða um þau tekin á lokuðum fundi dómaranna.
Fráfall Scalia, sem var mjög íhaldssamur, hefur skapað vissa pattstöðu í hæstarétti, sem nú er aðeins skipaður 8 dómurum. Nú eru fjórir dómaranna íhaldssamir og fjórir frjálslyndir, því gæti farið svo í mörgum þeim umdeildustu málum sem borin er undir réttinn að það færi 4-4. Ef hinn íhaldssami Anthony Kennedy færir sig nær hinum frjálslyndari dómurum í ákvörðunum sínum, eins og hann gerði í dómi hæstaréttar um réttindi samkynhneigðra til að ganga í hjónaband, gæti þó farið 5-3 frjálslyndum í vil.

skipun domara3

En hver var þessi Scalia?

Antonin Gregory Scalia lauk laganámi frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum árið 1960. Eftir það starfaði hann sem lögmaður á lögmannsstofu í nokkur ár áður en hann gerðist kennari við lagadeildina í háskólanum í Virginíu. Hann starfaði síðan sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra í stjórnartíð Nixons og Fords en tók eftir það aftur við kennslu og þá við háskólann í Chicago. Það var síðan árið 1986 að Ronald Reagan skipaði hann sem hæstaréttardómara. Hann varð fyrsti dómarinn af ítölskum uppruna við dómstólinn. Scalia taldi að túlka ætti lagatexta eftir orðanna hljóðan. Samfélagslega mótaðar hugmyndir okkar ættu ekki að hafa áhrif á skilning okkar á lagatextanum. Hann var mjög íhaldssamur og gætir þess í dómum hans; hann var yfirlýstur andstæðingur fóstureyðinga, jákvæðrar mismununar og aukinna réttinda samkynhneigðra. Í munnlegum málflutningi fyrir hæstarétti var Scalia þekktur fyrir að spyrja flestra spurninga og koma með flestar athugasemdir. Scalia var beinskeyttur í rökræðum og alltaf vel undirbúinn, hann var þekktur fyrir að skrifa skemmtilega texta og þótti geta breytt hinum þurrustu lagatextum í hina áhugaverðustu lesningu.

Hver fær að skipa næsta hæstaréttardómara?

Eins og fram hefur komið er það mikið hitamál þessa dagana hver muni skipa nýjan dómara í hæstarétt. Obama hefur gefið frá sér þá yfirlýsingu að hann ætli sér að tilnefna dómara. Á sama tíma hefur Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, gefið frá sér þá tilkynningu að hann telji að nýr forseti eigi að tilnefna og skipa nýjan dómara. Það gæti því reynst vandasamt fyrir Obama að fá samþykki öldungadeildarinnar því repúblikanar eru í meirihluta þar. McConnell og fleiri bera fyrir sig að ekki sé hefð fyrir því á kosningaári að fráfarandi forseti skipi nýjan dómara. Það er ekki alveg rétt því í áranna rás hafa fjórtán dómarar verið tilnefndir á kosningaári. Þrettán þeirra voru reyndar tilnefndir fyrir seinni heimstyrjöld, þegar hugmyndafræði flokkanna var ekki eins ólík og hún er í dag. Sá dómari sem síðast var tilnefndur á kosningaári er enn starfandi dómari við hæstarétt Bandaríkjanna. Anthony Kennedy, var tilnefndur af Ronald Reagan, repúblikana, árið 1987 og skipaður í embættið 1988. Heyrst hafa rök eins og að vilji fólksins eigi að ráða og nýkjörinn forseti eigi að skipa næsta dómara. Það má velta því fyrir sér hvað Scalia fyndist um þetta, en í stjórnarskránni stendur að forseti tilnefni og skipi dómara með samþykki öldungadeildarinnar. Samkvæmt orðanna hljóðan sér undirrituð ekki annað en að Obama, þrátt fyrir að vera ”lame duck” (forseti á útleið), hafi fullan rétt á að tilnefna næsta dómara. Og þá ber öldungadeildinni stjórnskipuleg skylda til þess að taka afstöðu til hans vals á málefnalegum forsendum og tefja ekki að óþörfu. Obama á meira en 300 daga eftir í embætti, sem er langur tími án níunda dómarans í hæstarétti, en lengsti tími sem hefur liðið með átta dómara hæstarétt í Bandaríkjunum er 125 dagar þegar fyrrnefndur Anthony Kennedy var skipaður í embætti.

Arfleifð Obama og næstu mál fyrir hæstarétti

Forsetar Bandaríkjanna mega ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil, eitt kjörtímabil er fjögur ár. Sagt er að á fyrra kjörtímabili sínu vinni forsetar að því að ná endurkjöri og á því seinna móti þeir arfleifð sína. Nái Obama að tilnefna og fá samþykki öldungadeildarinnar fyrir nýjum dómara gæti það þýtt að honum takist að breyta hlutföllunum í hæstarétti á þann veg að meirihluti dómara verði frjálslyndur en ekki íhaldssamur – sem er nokkuð sem gera má ráð fyrir að Obama vilji gjarnan að fólk minnist hans fyrir. Líklegt þykir að Obama muni tilnefna Sri Srinivasan sem er ákveðin málamiðlun gagnvart repúblikunum því hann þykir frekar hófsamur. Srinivasan er talinn líklegur til þess að fylgja frjálslyndum dómurum í málum er snúa að mannréttindum en íhaldssamari þegar kemur að spillingar- og auðvaldsmálum.
Framundan eru mörg stór mál sem hæstiréttur þarf að úrskurða um þar sem hlutfall frjálslyndra og íhaldssamra dómara getur haft gífurleg áhrif á veruleika almennings, má þá helst nefna mál um fóstureyðingar, vald forsetans, jákvæða mismunun, rétt verkalýðsfélaga og lög um heilsugæslu. Verði ekki búið að skipa nýjan dómara er ekki ólíklegt að mörg málanna fari 4-4 og þá gildi úrskurður lægra dómsstigs. Sem dæmi má taka fyrrnefnt mál um fóstureyðingar, en í því var dæmt á lægra dómsstigi í Texas, dómurinn felur í sér takmörkun á aðgengi kvenna til fóstureyðinga. Fari 4-4 fyrir hæstarétti í því máli gildir dómur lægra dómsstigsins og geta önnur ríki Bandaríkjanna stuðst við hann og með því takmarkað aðgengi kvenna að fóstureyðingum.

Sú staða er uppi núna að málflutningi er lokið í hæstarétti í nokkrum málum, t.d. málinu um jákvæða mismunun, og dómararnir (þar með talinn Scalia) líklegast búnir að kjósa um það þó að ekki sé búið að skrifa og birta niðurstöðuna. Venjan er að kosið sé um niðurstöðu eftir málflutning en síðan getur tekið langan tíma að skrifa og birta niðurstöðuna. Á þeim tíma eiga dómararnir það til að skipta um skoðun og er þeim það heimilt. Því vaknar sú spurning hvort hægt sé að láta óbirtan dóm gilda þegar einn af þeim dómurum sem þar dæmdi er látinn. Til dæmis ef um er að ræða mál sem fór 5-4, er þá úrslitaatkvæði Scalia að ná út fyrir gröfina? Líklegt er að dæma þurfi aftur í þeim málum, og það þykir mér áhugavert í ljósi þess að þá gætum við verið að sjá þveröfuga niðurstöðu við þá fyrri, sem getur haft mikil áhrif á Bandarískt samfélag, allt vegna þess að Scalia féll frá. Það er frekar magnað.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Birta Austmann Bjarnadóttir

Pistlahöfundur

Birta er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í lögfræði frá sama skóla. Birta starfaði á viðskiptasviði Íbúðalánasjóðs samhliða námi en starfar núna hjá Þjóðskrá Íslands. Hún hefur setið í stjórnum Vöku fls. og stjórn Politica, félags stjórnmálafræðinema auk nefndarsetu í ráðum Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólaþingi.