Ávarp forseta

eftir Birta Austmann Bjarnadóttir

Nýju ári fylgir nýtt ávarp forseta. Eins og svo margir Íslendingar er ég einstaklega ánægð með nýkjörinn forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson. Ég var því spennt að horfa á fyrsta nýársávarpið hans. Það kom mér ekki mikið á óvart að ég var ánægð með það, ég velti því upp hvort að forseti hafi áður sagt “fjandans” í ávarpi, það fékk mig allavega til að brosa. Að sjálfsögðu vitnaði sagnfræðingurinn í forna tíð og merka menn, ekki við öðru á búast. Þá er ekki alltaf sem að speki Holy fokking B heyrist í ávarpi forsta og þá í kjölfar selskapsvísu amtmanns frá fyrri hluta nítjándu aldar. En þrátt fyrir glettni á köflum voru áherslur Guðna umhugsunarefni fyrir alla.

Hvernig mælum við styrk þjóðar?

Það mætti segja að Guðni hafi farið um víðan völl í ávarpi sínu, ég svosem ætla ekki að fara nánar í breytingar á vefsíðu forsetaembættisins þó þær séu líklegast kærkomnar. Það voru þó nokkrir punktar frá honum sem mér fannst sérlega góðir og langar til að leggja áherslu á.

“Það er nefnilega þannig að styrkur ríkis og þjóðfélags er ekki metinn eftir hagvexti eða þjóðarframleiðslu, vígbúnaði eða mannfjölda. Og þótt við fögnum afrekum samlanda okkar á sviði menningar, vísinda eða íþrótta eru þau ekki endilega til vitnis um kosti samfélagsins. Raunverulegur styrkur þess felst í því hversu vel er hlúð að sjúkum og öðrum sem þurfa á aðstoð að halda, fólki sem býr við fötlun eða þroskaskerðingu. Styrk samfélags má líka meta eftir því hvernig börnum er sinnt, hvernig búið er að öldruðum á ævikvöldi. Þetta eru allt saman mælikvarðar á lífsgæði, markmið sem skipta mestu í bráð og lengd”

Að mínu mati setur forseti vor þarna fram kjarnann í góðu samfélagi. Og eins og Guðni sagði í framhaldi af þessu að það má alltaf gera betur, og þar er ég aftur sammála. Í þessu tilviki tel ég að við megum ekki bara gera betur, heldur miklu betur. Með kosningunum í haust kom margt nýtt fólk inn á svið Alþingis ásamt því að margir hoknir af reynslu héldu áfram, þessir fulltrúar okkar munu vonandi halda uppi þessum raunverulega styrk samfélagsins af fullum krafti og gera enn betur en gert hefur verið. Sem og við hin líka.

Guðni og Margrét danadrottning

Framfarir um okkar daga byggjast á fjölbreytni; flæði hugmynda og fólks um víða veröld. Um leið verðum við þó ætíð að tryggja og vernda grunngildi okkar; réttarríki og velferðarsamfélag þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð, jafnrétti kynjanna, trúfrelsi og ástfrelsi, málfrelsi og menningarfrelsi.”

Samfélagið okkar er að breytast, einsleitnin er liðin tíð eins og Guðni tekur fram í nýársávarpi sínu sem og innsetningarræðu sinni í ágúst síðastliðinn. Fjölbreytni í samfélaginu getur vel spilað saman við grunngildin okkar, svo allir megi hagnast. Þá vitnaði Guðni í um áratugs gamalt nýársávarp Margrétar Danadrottningar þar sem hún hitti naglann á höfuðið;

”„Enginn skyldi vænta þess,“ sagði drottning, „að þeir sem flytja til nýrra heimkynna, til framandi lands, skuli þá þegar varpa fyrir róða allri sinni arfleifð.“ Um leið minnti hún þó á að borgararnir nýju yrðu að virða lög og gildi síns nýja samfélags. Þetta eru skynsamleg sjónarmið.”

2017

2016 gekk vel hjá mér, ég get ekki kvartað, enda tók ég það skýrt fram í ársbyrjun að 2016 yrði mitt ár, annað var ekki til að ræða. Hvað varðar 2017 þá má það alveg mín vegna verða mitt ár líka  – en ég mun ganga inn í árið bjartsýn og vonandi réttsýn og þá er gott að fá ávarp frá góðum forseta á fyrsta degi ársins sem bæði vekur upp bros og áminningu sem og hvatningu um hlutverk okkar allra gagnvart okkur sjálfum sem og samfélagin – þó stundum sé ekkert annað hægt en að hugsa eftir orðtakinu sem Guðni minntist á og segja við sjálfan sig ”þetta reddast”.

Fyrir áhugasama má lesa nýársávarp Guðna Th. Jóhannssonar í heild sinni hér.

Birta Austmann Bjarnadóttir

Pistlahöfundur

Birta er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í lögfræði frá sama skóla. Birta starfaði á viðskiptasviði Íbúðalánasjóðs samhliða námi en starfar núna hjá Þjóðskrá Íslands. Hún hefur setið í stjórnum Vöku fls. og stjórn Politica, félags stjórnmálafræðinema auk nefndarsetu í ráðum Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólaþingi.