Ávanabindandi áreiti

eftir Elísabet Inga Sigurðardóttir

Í dag er sjálfsagt að hver einn og einasti þátttakandi í samfélaginu eigi snjallsíma troðfullan af snjallforritum, þar er síminn minn og ábyggilega þinn, engin undantekning. Ég er að sjálfsögðu með sérstakt snjallforrit fyrir 1) Gmail svo ég sjái örugglega alla tölvupósta um leið og þeir berast, því það er auðvitað fáranlegt að bíða með að opna pósta þar til tími gefst. 2) Messenger svo ég geti átt eðlilegar samræður við vini og vandamenn – og það strax. 3) WhatsApp þar sem ég spjalla við vini búsetta erlendis. 4) SMS þar sem ég svara þeim sem sem eru ekki nettengdir. Skipulagsforrit á borð við 5) Slack og 6) Trello því annars missi ég úr verkefnavinnu. 7) Instagram til að sjá hvað aðrir eru að gera. 8) Snapchat til að sýna öðrum hvað ég er að gera. 9) Faceook forritið til að sjá hvenær vinir mínir eiga afmæli, til að geta átt samræður í hópum og að sjálfsögðu til að sjá hverjir voru að byrja og hætta í sambandi. Öllum þessum forritum fylgja tilkynningar, hljóðmerki og því ákveðið áreiti, töluvert áreiti.

Ég er háð öllum þessum forritum og nota þau daglega – oft á dag. Ég reiði mig á þau alla daga og legg allt mitt traust á þau. Með tilkomu ákveðinna forrita hætti ég að treysta á minni mitt og lagði það traust í hendur forritanna. Þegar ég var yngri kunni ég öll símanúmer vina og vandamanna utanbókar, ásamt öllum afmælisdögum þeirra, vegna þess að ég þurfti að geyma slíkar upplýsingar í minni mér. Í dag kann ég engin símanúmer einstaklinga sem komu inn í líf mitt eftir árið 2010, þ.e. árið sem snjallsímanotkun mín fór að ná tökum á lífi mínu. Ef Facebook minnti mig ekki á afmælisdaga vina minna daglega myndi ég ekki muna eftir þeim. Í símaum geymi ég dagatal og í það skrifa ég allt sem ég hyggst framkvæma, ef atburður er ekki í dagatalinu þá gleymi ég honum. Þessi forrit auðvelda okkur því að einhverju leiti lífið. Auðvelda okkur skipulagningu. Þau varðveita upplýsingar fyrir okkur og auðvelda samskipti manna, en þau skapa engu að síður mikið áreiti.

Ég er knúinn því að svara samstundis

Eitt forrit nota ég meira en öll önnur. Facebook messenger. Forritið er frábært til að auka samskipti manna og koma skilaboðum hratt til skila. Allan sólarhringinn er hægt að senda fólki skilaboð í gegnum forritið og opnar það því möguleikann á að ná í fólk. Svokölluð sítenging. Með forritinu er hægt að spjalla við einstaklinga, búa til hópspjöll, (sem eru mjög vinsæl og mörg, of mörg) og hringja símtöl. Áreitið sem fylgir forritinu er að mínu mati fáránlegt og er það algjörlega sjálfsprottið. Mér finnst ég knúin til að svara öllum skilaboðum um leið og þau berast þar sem ég vil fá svör við mínum spurningum tafarlaust, enda óþolandi að ná ekki í fólk. Vinir mínir búast við að ég svari samstundis enda vita þau að ég er alltaf með símann á mér. Síminn er nefnilega tól sem fæstir leggja frá sér – hvað þá skilja eftir heima. Farsími og forrit tengd honum eru mjög ólíkt hugsununni um t.d. heimasíma, sem þú svarar einungis í þegar þú ert heima. Dónalegt þykir einnig að hringja í heimasíma seint að kvöldi eða nóttu en annað gildir um farsíma. Þeir eru eins og verslun sem er opin allan sólahringinn, nema eigandi farsímans er ekki á launum og fær aldrei sumarfrí.

Að ánytjast þessum snjallforritum fylgja bæði kostir og gallar. Á meðan síminn auðveldar lífið eins áður hefur verið nefnt þá getur fylgt því stanslaust áreiti. Áreiti sem fram til þessa hefur aðeins aukist og aukist. En hvenær mun áreitið vega þyngra en kostirnir af notkuninni. Það verður hver að meta fyrir sig.