Unga fólkið ávallt á hakanum

eftir Ritstjórn

Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði mun hækka úr 8% í 11,5% vegna fyrirhugaðra breytinga á lífeyriskerfinu með SALEK-samkomulaginu. Tilgangurinn er að jafna lífeyriskjör opinberra starfsmanna og þeirra úr einkageiranum, en hingað til hefur verið misræmi þar á milli. Þetta eru góðar fréttir fyrir lífeyri Íslendinga en þó er ekki víst að breytingin hafi verið sú besta í stöðunni.

Ásgeir Jónsson, deildarforseti hagfræðideildar HÍ, benti á í lok síðustu viku að skylduiðgjald í lífeyrissjóði, eins og tíðkast í dag, gæti reynst ungu fólki þrautin þyngri og mögulega leitt það í fátækragildru. Með skylduiðgjaldi væri ungt fólk knúið til meiri sparnaðar á tímabili í lífi þeirra þegar útgjöld og skuldsetning þarf að vera hvað mest; komið er upp börnum og húsnæðislán tekin. Á þeim tíma ættu stjórnvöld að reyna að auka ráðstöfunartekjur þeirra en ekki minnka, að sögn Ásgeirs. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, tók undir orð Ásgeirs og sagði að hækkun mótframlags fyrirtækja væri fé sem hefði líklega betur mátt fara í vasa launþega, og myndi þannig hjálpa ungu fólki mikið.

Það má velta fyrir sér hvort betra hefði ekki verið að færa mótframlag ríkisins í lífeyri niður til móts við framlag einkafyrirtækja í stað þess að færa framlag einkafyrirtækja upp. Þannig hefði bæði skattfé sparast og laun á vinnumarkaði gætu hækkað meira, ungu fólki til hagsbóta.

Samkomulaginu verður þó ekki breytt. Aukinn launakostnaður mun enda á fyrirtækjum og ráðstöfunartekjur ungs fólks verða áfram litlar. Um er að ræða enn eitt dæmið um ákvarðanir ráðandi kynslóðar án þess að tillit sé tekið til þeirra næstu. Aðeins á þessu ári hefur til að mynda verið barist fyrir hærri húsaleigubótum sem leiðir til seinkunnar á fasteignakaupum ungs fólks og búvörusamningar samþykktir og festir næstu tvö kjörtímabil, svo stór hluti skatttekna ungu kynslóðarinnar týnist í peningatætara óhagkvæmninnar.

Skammtímalausnir eru alltaf langtímavandamál

Það væri frábært ef embættismenn létu færri ákvarðanir ráðast af skammtímahagsmunum og tækju fleiri ákvarðanir komandi kynslóðum til hagsbóta eða einfaldlega leyfðu þeim að taka ákvarðanir fyrir sig sjálfar. En kosningar nálgast óðfluga og þá munu skammtímaloforðunum fjölga. Nýjasta dæmið er þingsályktunartillaga sjö þingmanna stjórnarandstöðunnar þar sem mælt er til þess að ríkið gefi nýbökuðum foreldrum vörur sem það telur nýbaka foreldra vanta, en mun svo þurfa að innheimta skatt fyrir. Sennilegast mun sama fólkið greiða fyrir vörurnar en aðeins bætist við nýr milliliður – hið opinbera. Jafnframt vill Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra en með réttu bótaráðherra, lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og hækka hámarksgreiðslur til foreldra upp í 600 þúsund krónur.

Sumir hugsa ef til vill að hér sé verið að koma til móts við vandamálið sem áður var lýst. Ráðstöfunartekjur ungs fólks auknar á mikilvægasta tíma lífs þeirra. Hins vegar mun útgjaldaaukningin sem fæðingarorlofið krefst kosta ríkissjóð um átta milljarða og þeir peningar eru ekki til í dag þannig það er næsta víst að launafólk mun sjálft þurfa að punga út fyrir breytingunum. Ef flokkur Eyglóar hefði ekki verið nýbúin að binda ríkissjóð um áðurnefnda hundruði milljarða í bændasamningum væri þetta ef til vill mögulegri kostur. En það verður að velja og hafna, þó embættismenn hafi yfirleitt verið betri í að velja heldur en að hafna.

Í lýðræðislegu samfélagi er sökin þó ekki aðeins hjá embættismönnum, heldur einnig kjósendum. Það er kominn tími til að sjá í gegnum atkvæðaveiðarnar og skammtímakosningaloforðin. Ein stærsta lexía efnahagshrunsins er að búa til slaka fyrir ríkissjóð svo hann geti tekið á sig ófyrirséð högg. Nú er rétti tíminn til að búa til þennan slaka og ráðast ekki í skammtímalausnir eins og að senda vörupakka heim að dyrum frá ríkinu eða hækka fleiri tegunda bóta, heldur auka frelsi fólks til að taka ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna sinna sjálft.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.