Aukin hætta á sjálfsvígstilraunum barna á þorláksmessu

eftir Jónína Sigurðardóttir

Í nóvember og desember síðast liðin ár hefur umræðan um hófsemi í kringum jólin verið töluverð. Fyrir mitt leyti þá hefur sú umræða oftar en ekki snúist frekar um neysluhyggju heldur en aðrar afleiðingar sem þetta tímabil getur haft í för með sér. Margir finna fyrir aukinni streitu í kringum jólin. Álag eykst á mörgum vinnustöðum þar sem skila þarf ákveðnum verkefnum svo að fólk geti verið í fríi yfir hátíðirnar. Það er ótalmargt sem þarf að klára fyrir jólin, eins og að kaupa allar gjafir, finna jóladress, þrífa, þvo þvott, skreyta og baka. Þar að auki er algengt að margir geri vel við sig í desember og fari á jólahlaðborð og mörg tilefni eru fyrir veislur sem ýtir undir aukna neyslu áfengis. Óþolinmæði er algengur fylgikvilli streitunnar og álagsins sem skapast í kringum hátíðirnar. Þegar óþolinmæð nær tökum er fólki hættara til að smita út frá sér pirring sem börn telja sig eða hegðun sína hafa skapað.

Þó svo að þessi atriði sem talin voru upp hér að ofan snúist helst að fullorðnu fólki og álagi sem þau verða fyrir að þá hefur þetta áhrif á börnin okkar líka.

Þorláksmessa erfiðust

Ég sat nýverið á fundi með barnasálfræðingi sem ræddi meðal annars um hversu erfiður desember mánuður getur verið börnum og þá sér í lagi börnum sem hafa glímt við erfiðleika af einhverju tagi.

Þessi barnasálfræðingur vinnur á einkastofu og er því eðli samkvæmt í fríi um helgar og á hátíðisdögum. Þorláksmessa er þó sá dagur sem hann leggur helst ekki frá sér símann, passar að kveikt sé á tilkynningum og að hljóð sé á honum því á Þorláksmessu er líklegast að börn og ungmenni geri tilraunir til þess að taka eigið líf.

Andleg vanlíðan barna eykst oft í desember, einmanaleiki, tómarúm, áhyggjur af öðrum fjölskyldumeðlimum og vonbrigði eru dæmi um tilfinningar sem kvikna hjá börnum á þessum tíma ársins.

Aukinn sambanburður og sterk skilaboð samfélagsins

Samfélagið hefur kennt okkur að á jólunum eiga allar okkar áhyggjur að hverfa á brott og að þá sé maður hamingjusamur og við eigum að vera í faðmi fjölskyldunnar og njóta samverustunda. En hvað með þá sem búa við erfiðar fjölskylduaðstæður? Hvað um þá sem líður ekki vel heima hjá sér? Hvað ef við höfum ekki fjölskylduna okkar hjá okkur? Hvað ef við erum ekki hamingjusöm á jólunum þrátt fyrir að ekkert annað ami að? Hefur okkur þá mistekist? Þetta er að minnsta kosti í skjön við þær upplýsingar sem samfélagið hefur gefið okkur.

Þá hefur hugmyndin um það hvernig við eigum að upplifa jólin aukist til muna með tilkomu og aukinni notkun á samfélagsmiðlum. Í stað þess að leggja áherslu á að hafa það huggulegt og njóta er kominn þrýstingur um að setja flottustu myndina af flottasta veisluborðinu eða flottasta jólatrénu á samfélagsmiðla til þess að fá sem flest læk.

Mörg börn bíða spennt eftir jólunum en önnur kvíða þeim alveg óskaplega. Eru áhyggjur af fjárhagi heimilisins, aukinni drykkju og óreglu og ótti við að vera ekki hamingjusöm á tíma sem börn eiga að vera hamingjusöm dæmi um ástæður fyrir kvíða barna í kringum hátíðarnar.

Hátíð ljóss og friðar

Fyrir þessum hópi barna er jólahátíðin ekki hátíð ljóss og friðar heldur hátíð vanmáttar og vanlíðaninnar. Til þess að aðstæður þessara barna breytist þarf ekki einungis að veita þeim aukinn stuðning í kringum hátíðirnar heldur þurfum við öll að læra að slaka á um hátíðirnar og breyta þannig hugmyndum um það hvernig við eigum að upplifa þetta tímabil. Ef orka og fókus er settur á að reyna að breyta ákveðnum tilfinningum eru auknar líkur á að þær verði sterkari fyrir vikið þar sem fókus og hugsun er mikil á tilfinningunni.

Fyrst og fremst þurfum við sem fullorðin erum að sýna börnum gott fordæmi, hætta að skapa streituvaldandi umhverfi og læra að slaka á að njóta líðandi stunda. Ef við slökum á þá er líklegra að börnin nái því líka. Ef við ræðum við börn um að allar tilfinningar eigi rétt á sér á jólunum rétt eins og á öðrum dögum gætum við stuðlað að betri líðan þeirra. Fátt er dýrmætara en að kenna börnum að bera virðingu fyrir tilfinningum sínum og gera þeim grein fyrir að þau stjórna þeim ekki, það er ekki til off takki á þeim.

Það er ekkert rétt eða rangt, það má líða illa um jólin.

Jónína Sigurðardóttir

Ritstjórn

Jónína Sigurðardóttir er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun og forvarnir fyrir börn og ungmenni. Hún starfar sem ráðgjafi á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jónína á 11 ára gamla dóttur og hefur mikinn áhuga á velferðarmálum.