Auðveldara að kaupa bjór en komast í Bónus

eftir Sigríður María Egilsdóttir

Rökræðan um áfengissölu virðist ætla að fylgja íslensku þjóðinni út í hið óendanlega – einskonar þjóðarsport – svona eins og glíman og handboltinn. Við skiptum okkur í tvær fylkingar; viðskiptafrelsi móti forræðishyggju, prinsipp móti lýðheilsu, ‘hvað-með-börnin’ móti ‘hvað-með-börnin-í-öllum-löndunum-þar-sem-bjór-er-seldur-í-sjoppum’. Hvor hópurinn fyrir sig heldur svo sinn reiðilestur yfir hinum þar til annaðhvort bjórinn er leyfður eða enn annað ‘stuttbuxnafrumvarpið’ er kæft niður – í bili.

Þó endurtekning hljómi ekki áhugaverð útaf fyrir sig, er áhugavert að virða fyrir sér afleiðingum hennar. Ein afleiðing hinnar síendurteknu rökræðu um áfengissölu, er að rökin sem notuð eru bæði með og á móti verða slípaðari, þjálari og fólk fer jafnvel að trúa þeim heitar; en það þýðir samt ekki að þau eldist vel.

Áfengi og aðgengi

Í síðasta mánuði fór fram á Alþingi enn önnur umræðan um enn annað áfengisfrumvarpið. Í þetta sinn var lagt til að heimila einkareknar sérvöruverslanir með áfengi; einskonar áfengis (en ekki tóbaks-) verslun Jóns eða Gunnu í stað ríkisins. Undirrituð fylgdist vel með, enda þátttakandi í umræðunum, og það sem bar einna helst á góma í umræðunni var skaðsemi aukins aðgengis að áfengi. Andstæðingar einkasölu telja einatt að með henni muni aðgengi aukast og þar með neysla fólks. Einkareknar áfengisverslanir hljóti að spretta upp eins og gorkúlur til að mæta eftirspurn stjórnlauss almennings. Fyrsta skrefið í átt að glötun íslensks samfélags.

Raunin er hins vegar sú að aðgengi að áfengi hefur nú þegar snaraukist – bara í boði ríkisins. Í dag eru verslanir ÁTVR orðnar 51 talsins, fjórföldun á 30 árum. Til samanburðar eru einungis 32 Bónus verslanir um land allt. Það er því orðið auðveldara að nálgast áfengi um land allt en það er að komast í Bónus. Þegar teknar eru saman tölur um fjölgun ÁTVR verslana og fjölgun vínveitingaleyfa kemur í ljós að aðgengi hefur aukist um tæp 250%.

En hvar var þessi heilaga reiði talsmanna takmarkana aðgengis þegar ÁTVR opnaði nýjasta útibú sitt í Garðabæ, eða á Djúpavogi eða í Neskaupsstað? Þegar hætt var við lokun útibúsins í Skeifunni? Staðreyndin er einfaldlega sú að umræðan um skaðsemi aukins aðgengis skýtur einungis upp kollinum þegar rökræðan um hver megi selja áfengi á sér stað. Á meðan rökræður um áfengissölu hafa skotið upp kollinum í tíma og ótíma, hefur aðgengi aukist og bæði landinn og ÁTVR verið ánægð með:

Forræðishyggjan eldist illa

Fyrr á árinu fögnuðum við því að 30 ár voru liðin síðan bjórbanninu var aflétt, og höfðu þá stjórnmálamenn í rúm 74 ár gætt þess að íslenskur almenningur gæti ekki farið sjálfum sér að voða við bjórdrykkju. En fyrir 30 árum heyrðust viðlíka skoðanir og við heyrum í dag; Svavar Gestsson, þáverandi þingmaður bað þingið á sínum tíma að íhuga varlega „ábyrgðina sem fylgi því að hella áfengu öli yfir íslensku þjóðina.“ Það fylgdi reyndar ekki sögunni hve miklu bjórlíki þjóðin hafði hellt yfir sjálfa sig á meðan banninu stóð.

Það kaldhæðnislega við baráttu okkar Íslendinga við áfengið, forræðishyggjuna sjálfa, er að öll boðin, bönnin og tilraunir stjórnvalda til að halda almenningi frá ‘veigum djöfulsins’, hafa alið af sér einhverja skaðlegustu tegund drykkjumenningar sem fyrirfinnst. Við drekkum ekki oft (í viku), en þegar við drekkum – þá drekkum við.

Það virðast þó vera bjartir tímar framundan, og það þökk sé einhverjum ólíklegasta hópnum: íslenskum unglingum. Þjóðfélagshópur sem eitt sinn átti OECD-met í unglingjadrykkju hefur nú snúið blaðinu við og mælist unglingadrykkja einna minnst hérlendis. Þeim árangri getum við þakkað auknum forvörnum og fræðslu meðal ungs fólks. Í dag innheimtir ríkið gjald af öllu seldu áfengi á Íslandi, en einungis um 1% gjaldsins rennur til lýðheilsumála – eina úrræðisins sem hefur sýnt sig að virkar, og það þrátt fyrir stóraukið aðgengi að áfengi. Í nýjasta frumvarpinu var einnig lagt til að fimmfalda þau framlög. En fræðslan gengur ekki út á að hafa vit fyrir fólki – hún gengur út á að fólk geti haft vit fyrir sér sjálft. Forræðishyggjan hins vegar, hún eldist ekki vel.

Sigríður María Egilsdóttir

Pistlahöfundur

Sigríður María er lögfræðingur með LL.M. í alþjóðlegri viðskiptalögfræði frá Stanford Háskóla og fyrsti varaþingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.
Helstu áhugamál hennar eru lögfræði, stjórnmál og ræðumennska. Skrif Sigríðar í Rómi snúast að miklu leyti um menntamál, lögfræði og málefni líðandi stundar.