Atkvæði til sölu

eftir Arnór Bragi Elvarsson

Þessa grein tekur 6 mínútur að lesa

Eftir að Miðflokkur Sigmundar Davíðs var stofnaður spurði Facebook-vinur minn á vegg sínum í gríni „Hvorn Framsóknarflokkinn á að kjósa næst?.“ Vini mínum þótti ekki mikið til koma til þess ástands sem upp hefur komið hérlendis: Popúlista-framfaraflokkar spretta upp eins og gorkúlur til að keppast um óánægjufylgið sem veitti t.d. Pírötum stuðning 40% aðspurðra í könnun gerðri í janúar 2016. Píratar þurfa nú að skipta þessu fylgi með öðrum smáflokkum sem er hver öðrum betri í loforðum og smjaðri.

Pólitík og popúlismi

Fín lína er á milli pólitík og popúlisma en þó er munur þeirra á milli: Pólitík er tengd við hugsjónir, skoðanaskipti og deilur, en popúlismi við tilfinningar, rómantík og innihaldslaus loforð. Til einföldunar er hægt að skilgreina pólitík til að vera álitin ‚rétta‘ skoðunin og popúlismi ‚besta‘ skoðunin. Það er þó auðvitað, út frá hugsjónum, hægt að rökræða um hver rétta skoðunin sé. Besta skoðunin er þó einfaldlega sú sem fellur helst í kram kjósenda.

Eitt nýlegt dæmi til að sýna muninn á pólitík og popúlisma er bókaskatturinn. Þverpólitísk sátt náðist um að afnema virðisaukaskatt sem leggst á söluverð bóka enda hefur sala útgefinna bóka dregist saman um þriðjung frá 2008. Þar sem bækur og lestur eru tengdar við menntun er auðvelt að sannfæra einhvern um það að til að bæta menntunarstig þjóðarinnar þarf lægri skatta á bækur.

Þessi rökfærsla höfðar til tilfinninga allra sem vilja vel, en er þó rökvilla enda vita glöggir lesendur að lesefni hefur í auknum mæli færst í stafræna útgáfu. Þær sölutölur birtast ekki í veltu íslenskra bóksala. Að afnema virðisaukaskatt á bókum er gott mál, en á að gera á þeim forsendum að óþarfi er að sækja enn frekari tekjur í vasa fróðleiksþyrstra neytenda. Að afnema skattinn til að bjarga lesgetu barna er lýðskrum.

Flóttamenn ekki vandinn, heldur prófsteinn

Ég var í Þýskalandi í lok síðasta mánaðar á meðan þarlendar kosningar áttu sér stað. Á vörum allra var popúlistaflokkurinn AfD, sem varð þriðji stærsti flokkurinn á þingi og veldur miklum vandræðum í stjórnarmyndun þessa dagana. Ég heyrði eina sögu frá góðum manni til skýringar á velgengni þeirra:

„Í lest um daginn sat í næstu sætaröð við mig fjölskylda flóttafólks. Lestarverðir gengu um og sektuðu þá farþega sem ekki voru með gildan miða. Er þeir komu að fjölskyldunni reyndu þeir að inna þau eftir miða en fjölskyldan frábað sér að skilja tungumálið. Þau sýndu einungis dvalarleyfi sín. Á endanum gáfust lestarverðirnir upp á að þræta við fjölskylduna og héldu áfram að sekta þýskumælandi farþega nokkrum sætaröðum neðar.“

Þessi maður kaus flokkinn ekki, en gat vel skilið að flokkurinn myndi fá mikið af óánægjuatkvæðum. Hann útskýrði að flóttafólk fær tímabundið dvalarleyfi en annars fái þau ekki tækifæri til að aðlagast þýsku samfélagi, og erfitt er að kenna svo mörgu fólki tungumálið. Þjóðverjar eru ekki ánægðir með það að velferðarkerfi þeirra virki ekki. Flóttamenn fái smáskammt dagpeninga til að framfleyta sér. Á sama tíma sitja aðrir þýskir bótaþegar á hakanum. Að greiða fyrir lestarmiða er ekki flókið, en það er ekki ásættanlegt að sumir komist upp með að sleppa því en aðrir ekki, hvað þá að heimamönnum sé refsað fyrir að tala eigið tungumál.

Davíð Oddsson sagði eitt sinn um hið opinbera: „Það á ekki að vera eins og síldarnót til að festa fólk í, heldur eins og öryggisnet, sem enginn fellur niður fyrir.“ Í Þýskalandi eru flóttamenn fastir í síldarnótinni, sem bitnar á afköstum vélarrýmisins. Sumir popúlistaflokkar mála þá mynd að flóttamenn séu vandi vestræns samfélags. Þetta er fjarri flestum ef ekki öllum þeim gildum sem vestrænt samfélag byggist á. Betur er hægt að lýsa flóttamönnum sem prófstein á samfélagið sem sýnir að þarlent velferðarkerfi er ekki tilbúið til að taka við þessum mannfjölda og virðist halda nýjum íbúum í fátæktargildru. Öryggisnetið á að ná utan um þá sem á því þurfa að halda, hvort sem um aldraða, öryrkja eða flóttamenn er að ræða, en við þurfum líka að geta hjálpað þeim aftur um borð en ekki draga þá í öldunum þar til þeir drukkna.

Viltu stækka eða minnka ríkið?

Popúlismi hefur gerjast í stærri löndum eins og Þýskalandi og Bandaríkjunum þar sem umsvifamikið stjórnkerfið hefur brugðist hinum almenna borgara. Óánægja þeirra með kerfið byggist á því að ríkið nær ekki að sinna öllum þeim verkefnum sem þeir hafa skuldbundið sig til að gera. Ísland er lítið hagkerfi með metnaðarfullt velferðarkerfi sem reiðir sig á velvilja og samstöðu starfsmanna og samfélagsins til að uppfylla sínar skyldur. Traust til kerfisins og stjórnmálamanna er því byggt á viðkvæmum burðarstólpum, sem gefur popúlistum færi á að bæta olíu á eld óánægðra.

Til að bregðast við uppsveiflu popúlista þurfa kjósendur að gera upp við sig á hvaða forsendum þeir greiða atkvæði. Hvort vilt þú ríki sem einbeitir sér að vel völdum verkefnum, eða auki skattheimtu til að sinna löngum lista skuldbindinga betur? Því fyrr sem þú, kjósandi góður, tekur ákvörðun um þetta, því fyrr getur íslenskt samfélag sagt skilið við popúlisma og fagurgala og haldið á braut staðfestu og hugsjóna.