Arðbært nám og óarðbært

eftir Oddur Þórðarson

Hver kannast ekki við að vera inntur svörum í fjölskylduboðum eða á öðrum mannamótum um hvað maður sé nú að leggja stund á í lífinu. “Ertu í skóla, Oddur minn eða tókstu þér frí eins og hann frændi þinn til þess að ferðast? Eða ertu kannski bara farinn að vinna?” Þegar ég svo segist vera að læra stjórnmálafræði verða sumir hissa? “Nú, er nokkuð einhvern pening að fá úr því?”

Nám á ekki endilega að vera arðbært

Þó stjórnmálafræði séu félagsvísindi rétt eins og hagfræði, viðskiptafræði eða lögfræði stingur fólk gjarnan upp á því að ég nemi þau fræði frekar. Þau séu arðbærari. Ég veit að margir þeirra sem sækja sér nám í hugvísindum þurfa jafnvel æ oftar en ég að svara þessum óþolandi spurningum. Hvað ætla íslenskunemar eiginlega að gera við sína gráðu, nú eða sagnfræðinemar eða bókmenntafræðinemar? Þessi hvimleiða áhersla margra á að nám eigi einungis að vera sótt svo að maður fái eins ríkulega borgað í framtíðinni er orðin ansi útbreidd.

Nám á fyrst og fremst að vera manngöfgandi. Maður lærir til þess að vita meira og til þess að fá útrás fyrir áhuga á einhverju sviði samfélagsins. Samfélög þrífast ekki nema til sé fólk sem rannsakar og skapar þekkingu á umheiminum, hvort sem það er á sviði lista, menningar, viðskipta, raunvísinda, iðnaðar, tungumála eða annars. Fólk sem skilur ekki að þetta sé hinn raunverulegi tilgangur náms og þekkingasköpunar skilur raunar mjög fátt.

Réttar forsendur

Vel getur verið að þau sem læra viðskiptafræði, hagfræði, fjármálaverkfræði o.þ.h. séu einlægir áhugamenn um fögin sem þau læra. Flestir eru það nú auðvitað. En þau sem einungis leggja stund á slík fræði til þess að eignast sem mesta peninga eru hreinlega að stunda nám á röngum forsendum. Nám á ekki að vera hagnaðardrifið. Nám á að auðga mannsandann og hjálpa okkur að skilja okkur sjálf, hegðun okkar og viðhorf. Nám á að gera okkur kleift að verða betri og upplýstari manneskjur. Þess vegna þokum við fræðunum áfram og þess vegna er nám mikilvægt.

Það er í besta falli barnaleg hugsun að halda að t.a.m. listnám eða hugvísindanám sé tilgangslaust. Allir þeir sem rétt viðhorf hafa gagnvart öllu námi vita það. Það er líka barnaleg nálgun að telja alla þá, sem stunda fræði sem tengjast peningum eða atvinnulífinu, vera peningaþyrsta tækifærissinna. Það væri menntasnobb. Sennilega er ekki allt nám jafnarðbært en allt nám er jafngöfugt ef það er stundað á réttum forsendum.

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.