Ár lýðskrumsins

eftir Ritstjórn

Ein af fáum bjargföstum skoðunum Pírata í aðdraganda Alþingiskosninganna í haust var sú að frelsi til þess að selja áfengi í verslunum væri ekki forgangsmál. Í hið minnsta tönnlaðist Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, á þessari rullu þegar hún var þráspurð um afstöðu gagnvart fyrirkomulagi áfengissölu í kosningasjónvarpi RÚV í lok október.

Nú hefur komið á daginn að flotaforingi Pírata, Birgitta Jónsdóttir, hefur kúvent stefnunni og áfengismálið orðið svo mikilvægt að uppgjör þess krefst atkvæðagreiðslu þjóðarinnar í hennar huga. Þar með hefur málið skipað sér á bekk með fullveldisframsali í gegnum Evrópusambandsaðild og breytingum á stjórnskipan landsins.

Kúvendingar koma þó ekki svo á óvart þegar Birgitta á hlut að máli. Nægir þar að taka dæmi af prinsipp afstöðu hennar um að þingmenn ættu ekki að sitja lengur en tvö kjörtímabil. Birgitta hóf nefnilega sitt þriðja kjörtímabil nú í janúar.

Seinfundinn yrði sá maður í hópi helstu stuðningsmanna frumvarpsins sem samsinnti flotaforingjanum um svo gríðarlegt mikilvægi þess. Afstaða Birgittu er eins og hver maður getur séð aumkunarverð tilraun til þess að afvegaleiða málið. Hér er skólabókardæmi sem prófessorar við stjórnmálafræðideildir landsins gætu nýtt sér um lýðskrum. Það er augljóst að ef öll mál af svipuðu tagi og áfengis færu í þjóðaratkvæðagreiðslu myndi það bæði torvelda stjórnsýslu hér á landi en einnig draga úr gæðum ákvarðana enda fáir sem sjá sér nokkurn hag í að setja sig um of inn í minni mál.

Það er dálítið lýsandi að þetta skemmtilega lýðskrumsútspil hafi verið sett fram í sömu viku og Píratar voru skilgreindir af norska dagblaðinu Verdens Gang sem einn lýðskrumsflokka í Evrópu. Ritstjórn vill ekki láta sitt eftir liggja og óskar flokknum innilega til hamingju með áfangann.

Kerfið berst gegn skruminu

Sem betur fer eru Píratar þó ekki eins hættulegir né áhrifamiklir og lýðskrumarinn Donald Trump. Lýðskrum þessara tveggja aðila er vissulega af mjög ólíku tagi. Í málflutningi og ákvörðunum Trumps má finna nær allt það sem kyndir undir lægstu hvatir mannskepnunnar.  Ákvörðun hans um að mismuna fólki við landamæri Bandaríkjanna er lítið annað en ógeðfelld. Samt má finna ljóstýru í myrkrinu en nú er sem betur fer að koma í ljós slagkraftur stjórnmálakerfisins þar í landi sem berst hatramlega gegn ákvörðunum hans og útnefningum í hin ýmsu embætti.

Þannig hefur ferðabanni Trumps í hið minnsta tímabundið verið aflétt og búast má við að harðsótt verði að fá samþykki fyrir sumum tilnefningum hans í embætti, sérstaklega þegar kemur að stöðu hæstaréttardómara. Bandaríska stjórnkerfið var hannað með það fyrir augum að greinar ríkisvaldsins tempruðu vald hvorrar annarrar. Víðast hvar búa demókratar, hagsmunasamtök og jafnvel fjölmiðlar sig undir harða stjórnarandstöðu. Það má segja að stjórnarskrá landsins þurfi að þola mesta álagspróf síðari tíma þegar kemur að valdtemprun á meðan Trump situr í embætti. Heimsbyggðin mun fylgjast með næstu fjögur árin og við vonum öll að kerfið standist prófið.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.