Another brick in the wall

eftir Björn Már Ólafsson

Menntamálaráðherra hefur nú til skoðunar að setja skýrari reglur um undanþágur frá skólasókn og skyldunámi. Ástæðan er sögð vera aukin leyfisumsókn foreldra vegna grunnskólanema, meðal annars vegna ferðalaga fjölskyldna. Skólastjórnendur hafa lýst yfir áhyggjum af því að nemendur sem fá aukið leyfi frá skóla lendi eftir á í námi, og jafnvel að þeir nái ekki hæfniviðmiðum.

Ástæðurnar fyrir leyfisumsóknum geta verið margs konar en eðlilega mætti skipta þeim í tvennt. Annars vegar þegar foreldrar sækja um leyfi fyrir börnin sín af öðrum ástæðum, til dæmis af læknisfræðilegum eða félagslegum ástæðum. Þá er eðlilegt að skólayfirvöld hafi sitt að segja um reglurnar og það verður að vera skýr eftirfylgni með því að börn sem fá leyfi af slíkum ástæðum fái viðeigandi aðstoð og eftirfylgni. En hitt tilfellið er það þegar fjölskyldur fara í frí utan hefðbundins skólafrís og sækja um leyfi fyrir börnin sín.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að það séu settar skýrar reglur um leyfi frá grunnskólanámi. Skyldunám er á Íslandi fram til 15 ára aldurs og er mikilvægt að halda í þá reglu. En frammistaða barna og þörf fyrir hefðbundið skólastarf getur líka verið æði einstaklingsbundin. Það gefur auga leið að sumir nemendur valda því vel að missa úr vikur úr námi. Sumir ferðast til útlanda, kynnast þar annarri menningu og fá að spreyta sig á erlendu tungumáli í raunverulegum samskiptum og það er fín æfing til tilbreytingar frá kennslubókunum. Síðan er það svo að aðrir nemendur mega minna við því að missa úr skóla, nemendur sem jafnvel eru eftir á í námi og þurfa á mikilli eftirfylgni til að taka framförum í námi og félagsþroska.

Skapa skólaleyfin ójöfnuð?

En umræðan um að setja staðlaðar og stífar reglur um leyfi frá skóla dettur oft í sama farið og umræðan um heimanám sem ég hef áður fjallað um hér. Heimanám hentar sumum nemendum vel og öðrum ekki. Þess vegna er til stór hópur sem öskrar á afnám heimanáms á meðan aðrir vilja aukið heimanám. En skólakerfið verður að vera nægilega sveigjanlegt til að rúma allar tegundir af nemendum.

Þá koma fram rökin um að heimanám og leyfi frá skóla geti skapað aukinn ójöfnuð í skólakerfinu. Nemendur með hátt menntaða foreldra, sem vinna hefðbundin 9-17 störf hafa betri tök á að aðstoða börnin sín við heimanám heldur en foreldrar í vaktavinnu eða sem eru ekki menntaðir. Að sama skapi eru efnameiri foreldrar líklegri til fara oftar í frí og fá leyfi fyrir börnin sín. Hvað ef foreldrar barns sem á í miklum námserfiðleikum fara í þriggja vikna frí og fá leyfi fyrir barnið sitt. Er rétt að foreldarnir megi taka þá nemendur úr skólanum? Á skólinn þá að geta neitað því? Að sama skapi, ef sterkur nemandi sem er ekki í neinum vandræðum með að ná hæfniviðmiðum í skólanum fer í mánaðarfrí með fjölskyldunni, á að láta hann taka árið aftur, bara vegna þess að hann „fellur á mætingu?”

Slíkt er auðvitað erfitt í framkvæmd og felur satt að segja ekki í sér mikið réttlæti. Lausnin hlýtur að felast í samskiptum á milli skóla og foreldra. Ef foreldrar barns með námserfiðleika sækja um leyfi fyrir barnið verður skólinn að gera foreldrunum skýra grein fyrir stöðunni. Þá er hægt, í samráði við foreldrana að skipuleggja nám barnsins þannig að foreldarnir sjái til þess að barnið sinni náminu eftir bestu getu á meðan á fríinu stendur.

Ég bíð spenntur eftir að sjá hvers konar reglur menntamálaráðherra hefur í hyggju að setja um leyfi grunnskólanema. En hótanir, og eftir atvikum að framfylgja hótunum um að fella nemendur um ár, víkja úr skóla eða eftir atvikum að hafa samband við barnaverndaryfirvöld felur í sér miklu stærra inngrip í námsferil barnsins heldur en fríið myndi gera.

Foreldrar eru tilfinningaverur. En vilja þeirra til að gera það sem er barni þeirra fyrir bestu er ekki ástæða til að draga í efa. Samráð og samskipti á milli skóla og foreldra, „góð skólamenning” eins og segir svo fallega í tilkynningunni frá ráðuneytinu, er lausnin. Ekki stífari reglur sem skapa stærri vandamál ef þeim er framfylgt.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.