Alþingi unga fólksins

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Í þessum mánuði hafa tveir ansi skemmtilegir atburðir átt sér stað á Alþingi okkar Íslendinga. Stærri atburðurinn er án nokkurs vafa sá að Bjarni Halldór Janusson, varaþingmaður Viðreisnar, varð yngsti þingmaðurinn til að taka sæti á Alþingi. En einnig tók Albert nokkur Guðmundsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sæti í fjarveru Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur. Það væri þó ekki frásögum færandi, nema fyrir þær sakir að hinn 26 ára gamli Albert hljóp í skarðið fyrir hina 27 ára gömlu Áslaugu.

Mér þykir mikilvægt að Alþingi endurspegli samfélagið, og stendur það nú ekkert ýkja vel að vígi. Þess vegna þykir mér sérstaklega ánægjulegt að sjá að ungu fólki er í auknum mæli sýnt traust til þess að taka þar sæti. Því til stuðnings má benda á að í ríkisstjórninni verður einn ráðherrann þrítugur á árinu, sem og einn þingmaður Pírata, og tveir jafnaldrar Áslaugar sitja á þingi – einnig fyrir Pírata – þær Ásta Guðrún Helgadóttir og Eva Pandora Baldursdóttir. Þá hafa, auk Bjarna Halldórs, varaþingmennirnir Jóhannes Stefánsson og Viktor Orri Valgarðsson báðir tekið sæti á Alþingi í ár – sá fyrrnefndi fyrir Sjálfstæðisflokk og sá síðarnefndi fyrir Pírata – en hvorugur þeirra hefur náð þrítugsaldri.

Fámenn ungmenni á heimsvísu

Ef miðað er við tölur frá árinu 2014, þá voru einungis 1,9% alþingismanna á heimsvísu undir þrítugu, 14,2% undir fertugu og 26% undir fjörutíu og fimm. Meira en þriðjungur íslensku þjóðarinnar er undir þrítugu, skv. upplýsingum Hagstofunnar, og því mikilvægt að þau hafi kröftuga málsvara á þingi.

Miðað við upptalninguna hér að ofan virðast Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar standa fremstir á meðal jafningja hvað traust á ungu fólki varðar. Það er einnig gaman að hugsa til þess að þessir einstaklingar komust áfram á eigin verðleikum – ekki af því að þau eru ung heldur þrátt fyrir að vera ung.

Dræm hvatning Vinstri grænna

Má í því ljósi velta fyrir sér ályktunartillögu sem samþykkt var á landsfundi Vinstri grænna árið 2015, þar sem hvatt var til þess að „a.m.k. eitt af þremur efstu sætum á öllum framboðslistum hreyfingarinnar sé skipað ungliða til að stuðla að framgöngu ungs fólks í stjórnmálum.“

Af því að þau eru ung – ekki þrátt fyrir að vera ung.

Það skýtur því skökku við hversu fáir ungliðar prýða alþingisstóla Vinstri grænna, í ljósi ofangreindrar samþykktar. Að minnsta kosti sex ungliðar hefðu átt að skipa eitt af þremur efstu sætunum, og hafandi fengið tæplega 16% atkvæða – sem samsvarar 10 þingmönnum – hefði ekki verið ólíklegt að ungliði væri þar á meðal. Það varð aftur á móti ekki raunin. Traustið var ekki meira en svo að af öllum sex kjördæmunum voru einungis tveir einstaklingar undir þrítugu í efstu þremur sætunum.

Þó ert vert að taka fram að ég veit ekkert hvernig Vinstri græn skilgreina „ungliða“. Kannski dugar að vera yngri en fertugt?

Ungliðar Alþingis

Þó ungliðar Vinstri grænna hafi ekki prýtt efstu sætin á listum þeirra, þykir mér ekki annað sanngjarnt en að fram komi hversu mörgum ungliðum allir flokkar tefla fram – hvort heldur sem þingmönnum eða varaþingmönnum. Ungliði er hér einstaklingur sem er 30 ára eða yngri. Í sviga er hlutfall ungliða á m.v. stærð þingflokks og varaþingmanna.

Björt Framtíð: 0 (0%)

Framsóknarflokkur: 1 (0,6%)

Píratar:  7 (35%)

Samfylkingin: 1 (17%)

Sjálfstæðisflokkur: 11 (26%)

Viðreisn: 3 (21%)

Vinstri hreyfingin, grænt framboð: 2 (10%)

Forsvarsmenn ungu kynslóðarinnar

Það er til mikillar fyrirmyndar að stjórnmálaflokkar séu í auknum mæli farnir að gefa ungu fólki tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Að sitja á Alþingi er mikið ábyrgðarhlutverk, og því óskandi að ungliðarnir leggi áherslu á málefni sem snerta unga fólkið í landinu beint. Geðheilbrigðismál standa þar fremst á meðal jafningja, og þess vegna var mjög ánægjulegt að lesa að áðurnefndur Bjarni Halldór væri „meira en tilbúinn“ í slaginn sem framundan væri í þeim málaflokki.

Blaðamaður Vísis benti t.a.m. á það á dögunum að á einni viku fékk hann fregnir af þremur sjálfsvígum karlmanna undir þrítugu, og furðaði hann sig á því að samfélagið færi á hliðina þegar dauðsföll verða í Silfru og fólk færi fram á tafarlausar aðgerðir en menn mættu hins vegar alveg „drepa sig hægri vinstri óafskipt“. Geðheilbrigðismál eru flókin og illviðráðanleg, en þau eru í gífurlegu ólagi og þar má gera svo miklu betur. 

Sömuleiðis þarf ríkisstjórnin að auka gífurlega framlög til menntamála ætli hún að ná markmiðum sínum í þeim málaflokki. Að sama skapi þarf að tryggja viðráðanlegan húsnæðismarkað, eigi (ungir) einstaklingar einhvern tímann að eiga möguleika á því að flytja að heiman eða snúa aftur heim, og auðga samkeppnishæfni vinnumarkaðarins, svo þeir sjái heillavænlega framtíð á Fróni fyrir sér.

Ungliðarnir eru í forsvari fyrir ungu kynslóðina og vona ég þeir beri ábyrgð á því að þessi mál – og önnur – sem snerta hana beint verði í hávegum höfð. 

Við þurfum svo nauðsynlega á því að halda.

 

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.