Allur vindur úr vísindalæsi

eftir Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Réttu upp hönd ef þú ert tilbúin/nn að prófa ýmislegt til að bæta einbeitingu, auka orku, brenna fitu hraðar eða bara einfaldlega ná að sofna fyrr. Við erum báðar tvær með hendur á lofti. Við vorum því forvitnar þegar okkur áskotnaðist á dögunum nýtt fæðubótarefni sem er á leið á markað. Við skulum kalla það Þrumuklár. Þrumuklár er í fljótandi formi og á að taka inn sem skot eða þynna með vatni á morgnanna. Samkvæmt umbúðunum á efnið að minnka þreytu og orkuleysi, styðja við eðlilega vöðvastarfsemi og eðlileg efnaskipti í líkamanum. Gífurlega spenntar tókum við Þrumuklár samviskusamlega, eitt skot á morgnana með morgunmatnum. Við vonuðum að nú myndum við koma meiru í verk yfir daginn – jafnvel takast að koma okkur í ræktina. Eftir nokkra daga vorum við svo sannarlega farnar að finna mun – það var eitthvað að gerast! Við vorum farnar að leysa vind í töluvert meira mæli en vanalega. Nú vissum við ekki hvort þetta gæti flokkast sem eðlileg afleiðing þess að vera með svona blússandi aukin efnaskipti eða hvort vindgangurinn væri einhver óæskileg aukaverkun. Svo við fórum að gúggla. Niðurstaðan var sú að við vorum einfaldlega að drekka magnesium með berjabragði en magnesium stuðlar einmitt að “stórbættri” meltingu, með þessum afleiðingum. Við komumst því að þeirri niðurstöðu að óþarfi væri að kaupa slíkt fæðubótarefni dýrum dómum þar sem ódýrari magnesíumtöflur myndu líklegast hafa sömu áhrif.

 

Við erum svo heppnar að vera þokkalega læsar á vísindi og eigum því fremur auðvelt með að kynna okkur vísindalegar rannsóknir og annað í þá veru. Hæfileikar okkar til að gúggla magnesium gluconat, magnesium sulfate og acesulfam kalium og skilja niðurstöðurnar eru að mestu leiti að þakka 5 ára háskólamenntun í lífefnafræði en nú hafa ekki allir lagt á sig þá þrautagöngu, og kannski óþarfi að ætlast til þess að fólk hafi fleiri háskólagráður bara til að átta sig á því af hverju magapína stafar. Eðlilegra væri að við kæmum þokkalega læs á þessa hluti út úr grunn- og menntaskóla. Því miður virðist vísindalæsi eiga á brattann að sækja hjá okkur Íslendingum þessa dagana og nýjustu PISA-kannanir sýna að vísindalæsi grunnskólabarna á Íslandi hefur farið versnandi á undanförnum árum (1). Vísindalæsi er sá hæfileiki að geta túlkað og skilið vísindi, ásamt því að beita vísindalegum hugsunarhætti. Eftir því sem vísindi verða stærri þáttur í nútímasamfélagi, því mikilvægara er að við getum skilið þau vísindi sem snerta okkur dagsdaglega, þekkt í sundur hvað eru vísindi og hvað er sölumennska og tekið upplýstar ákvarðanir um hverju við trúum.

 

Gott vísindalæsi almennings er einnig gífurlega mikilvægt fyrir samfélagið í heild. Í Fréttablaðinu 21. ágúst birtist frétt þar sem fram kom að aldrei hafa jafn margir verið greindir með mislinga í Evrópu og í ár og að 37 manns hafa dáið úr mislingum það sem af er ári. Rekja má þessa aukningu mislingasmita beint til foreldra sem láta ekki bólusetja börnin sín (2). Hér kemur vísindalæsið inn. Það er mjög ábyrgt af foreldrum að vilja kynna sér bóluefnin og tryggja að því sem sprautað er í barnið þeirra valdi því ekki skaða. Hins vegar, ef foreldrar eru ekki í stakk búnir til að greina rökstudd vísindi frá áróðri lendir allt samfélagið í hættu. Mislingar taka sig upp á ný með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið, heilsubresti almennings og jafnvel dauðsföllum. Lífshættulegur sjúkdómur sem við héldum að við værum nærri búin að útrýma.

 

Bólusetningar eru eflaust sterkasta dæmið um mikilvægi vísindalæsi en skortur á því getur haft víðfeðmar afleiðingar á öllum stigum samfélagsins. Þessi vandamál geta verið allt frá því að við ausum pening í gagnslaus fæðubótarefni því við trúum því að magnesium með berjabragði muni lækna letina í okkur yfir í að forseti Bandaríkjanna skilur ekki loftslagsbreytingar og drekkir okkur öllum. Gott vísindalæsi er því nauðsynlegt fyrir okkur öll og er í rauninni mjög vandræðalegt hvað við Íslendingar erum að standa okkur illa í þessum málum, verandi forrík þjóð sem hrósar sér af góðu menntakerfi. Vonandi taka stjórnvöld niðurstöður PISA-kannananna til sín og við eigum von á endurbótum og endurnýjun í vísindakennslu í grunn- og menntaskólum. En hvað með okkur hin sem eru löngu búin með NÁT103? Hvernig er hægt að endurforrita okkur til að skilja vísindi og nýta okkur þau á uppbyggilegan hátt? Við þessu er ekkert einfalt svar en góð byrjun væri að temja okkur gagnrýninn hugsunarhátt, hugsa okkur tvisvar um þegar eitthvað er sett fram sem vísindi, bólusetja börnin okkar og hætta að kaupa rándýrt magnesium með berjabragði.

 

(1) Menntamálastofnun, Helstu niðurstöður PISA 2015, 2015. https://mms.is/sites/mms.is/files/pisa_2015_island.pdf

(2) A.Á. (2018, 21.ágúst). Metfjöldi greinist með mislinga í Evrópu það sem af er þessu ári. Fréttablaðið, bls.6.

 

Pistillinn var skrifaður af Sólveigu Hlín Brynjólfsdóttur og Hólmfríði Rósu Halldórsdóttur. Sólveig Hlín leggur stund á krabbameinsrannsóknir við Kaupmannahafnarháskóla. Áður lauk hún prófi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands og meistaraprófi í lífefnafræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Helstu áhugamál hennar eru kórsöngur, handavinna, matargerð og pole fitness.

 

Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Hólmfríður Rósa er nemi í lífefnafræði á ónæmisfræðisviði Kaupmannahafnarháskóla og leggur stund á rannsóknir á ónæmismeðferðum við krabbameinum. Áður lauk hún prófi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands. Hólmfríður Rósa hefur meðal annars starfað við umönnun á hjúkrunarheimili, prófbúðakennslu í HÍ og danskennslu við JSB.