Allir vildu Bjarna hafa kveðið

eftir Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Íslandsbryggja ber nafn með rentu í kvöld en vindur og rigning herja á rúðurnar hér á Bergþórugötunni í gömlu höfuðborginni okkar, Kaupmannahöfn. Gott er þá að búa svo vel að eiga pakka af íslensku Siríus suðusúkkulaði sem fljótt er hægt að breyta í heitan drykk. Með rjóma, að sjálfsögðu. Íslensk tónlist fær að hljóma til að kynda upp fyrir heimferð um jólin og loks glymur Þrek og tár með Hauki Morthens og Erlu Þorsteinsdóttur. Rifjast upp áramótaskaupsatriði frá 1996 þegar Halldóra Geirharðsdóttir og Laddi í hlutverkum Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóns Baldvins Hannibalssonar sungu um erfiðleika krata. Hvort það er heita súkkulaðið eða svefngalsi sem veldur, þá kemur hér uppfærður texti við fyrrnefnt lag:

 

Bjarni Benediktsson
Viltu með mér vaka’ er formenn sofa
Kata mín og ganga suður’ að tjörn?
Ég mun hegða mér, því skal ég lofa
og hækka skatta – ekki fara’ í vörn.
Virkja, einkavæða, leggja af bætur!
Draumastóllinn getur orðið þinn.
Hvort er sem mér sýnist að þú grætur
seg mér, hví er dapur hugur þinn?

Katrín Jakobsdóttir
Hví ég græt, ó burt er vinstrið bjarta
hugsjón minnar dáið sérhvert blóm.
Það er sárt í sínu græna hjarta
að kasta sér í hægri, siðlaust tóm.
Hvort er verra að ég fylgi öllu glati
eða stjórnarkrepp’ setji’ allt í fokk?!
En ,,íslensk pólitík er allt í plati
einkum það sem heitir vinstri blokk”.

BB king
Ekki gráta þá samsteypudrauma
gamla drauma, bara óra´og tál.
Með Framsókn ríkisstjórn við myndum nauma
úr gömlum hneykslum gerum ekki mál…
Ég er kökukóngur, teflon-Bjarni,
Icehot1, Panamaprinsinn þinn!
Engeyingar, sjálfstæðisins kjarni,
vilja sjúga áfram spenann sinn.
Bil
Kata Jak
Allir vildu Bjarna hafa kveðið –
leki, þagganir og vafningar.
En eftir forsætinu hef ég beðið!
Svo nú skulu takast samningar.
Verður vinstrið nú hin Bjarta framtíð?
Ríkisstjórn svo bara búið, bless?
Dæma mig og hann mun okkar samtíð
óvíst er með niðurstöðu þess.

 

Gleðilegan fössara!  

 

Pistillinn var skrifaður af Sólveigu Hlín Brynjólfsdóttur og Hólmfríði Rósu Halldórsdóttur. Sólveig Hlín leggur stund á krabbameinsrannsóknir við Kaupmannahafnarháskóla. Áður lauk hún prófi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands og meistaraprófi í lífefnafræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Helstu áhugamál hennar eru kórsöngur, handavinna, matargerð og pole fitness.

Hólmfríður Rósa Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Hólmfríður Rósa er nemi í lífefnafræði á ónæmisfræðisviði Kaupmannahafnarháskóla og leggur stund á rannsóknir á ónæmismeðferðum við krabbameinum. Áður lauk hún prófi í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands. Hólmfríður Rósa hefur meðal annars starfað við umönnun á hjúkrunarheimili, prófbúðakennslu í HÍ og danskennslu við JSB.