Allir tapa

eftir Hallveig Ólafsdóttir

Ekki hefur farið fram hjá neinum að boðað hefur verið til kosninga, aftur. Undirrituð er komin með ágæta reynslu af alþingiskosningum, sem og öðrum kosningum, og verða komandi alþingiskosningar fimmta skiptið sem undirrituð er gjaldgeng í kjörklefann. Ef ríkisstjórnir hefðu haldið út heil kjörtímabil hefði sú reynsla náðst við 34 ára aldur, ekki 28 ára.

Átök í stjórnmálum og á vinnumarkaði eru ekki ný af nálinni á Íslandi. Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins vitnaði fráfarandi formaður samtakanna í grein Guðmundar Jónssonar sagnfræðings og talaði um „Átakahefðina í íslenskum stjórnmálum og norrænt samráðslýðræði“. Vakti hann athygli á því að samráðslýðræði eigi ekki við um stjórnmál né vinnumarkað á Íslandi, ólíkt því sem gerist á Norðurlöndunum. Á Íslandi hefur verið erfitt að sameina ólíka hagsmuni og því lítið um málamiðlanir. Í grein Guðmundar segir:

„Í rannsóknum fjölmargra sagnfræðinga og félagsvísindamanna hefur samráð verið talið einkenna stjórnmálamenningu þessara landa, lögmæti ríkisins er þar óskorað, stjórnmálaþátttaka mikil, traust er á stjórnstofnunum og stofnanir stuðla að samráði og samstöðu frekar en meirihlutaræði og átökum.“

Hornsteinn samráðslýðræðis er traust.Ólíkir hópar með ólíka hagsmuna finna farveg fyrir samráð og málamiðlanir. Það er deginum ljósara að þetta traust skortir á Íslandi. Stjórnvöld eru því föst í ákveðinni klemmu og má lýsa henni með þekktu hagfræðilegu dæmi, ógöngum fangans (e. prisoner’s dilemma). Þegar tveir hópar takast á er farsælasta niðurstaðan gjarnan málamiðlun og samningur. Hættan er þó sú, að annar hópurinn svíki samninginn til að ná fram sínum ítrustu hagsmunum. Hópurinn sem hélt samningnum situr þá eftir í verri stöðu. Ef báðir aðilar hugsa aðeins um sína hagsmuni verður tapið enn meira. Traust er því algjört lykilatriði, og þegar traust skortir á milli hópa verður lendingin oft óhagfelldari en ella gæti orðið.

Í þessum pistli er ekki lagt mat á hvaða hópar bera ábyrgð á því að traustið er brostið og framundan eru Alþingiskosningar, heldur einungis bent á að átakahefð einkennir stjórnmál og vinnumarkað á Íslandi og liggur ábyrgðin því víða. Þó svo að litið sé til Norðurlandanna í þessum efnum, þá eru ákveðnir ósiðir sem Norðurlöndin hafa tamið sér en hafa til allra hamingju ekki verið til ama í íslenskum alþingiskosningum. Eitt dæmi um slíkan ósið er hávær umræða um málefni innflytjenda. Í þeirri umræðu er hópum innan sama samfélaginu stillt upp sem andstæðingum. Annað dæmi er að kosningar í Noregi eru á mánudögum, en á þeim degi er Vinmonopolet (ÁTVR Noregs) einnig lokað.

Undirrituð hefur ekki áhyggjur af því að síðarnefndi ósiðurinn smitist til Íslands fyrir komandi kosningar en er ekki jafn bjartsýn hvað þann fyrrnefnda varðar.

 

Hallveig Ólafsdóttir

Pistlahöfundur

Hallveig Ólafsdóttir er hagfræðingur og stafar hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Samhliða námi starfaði hún sem vallarstarfsmaður á Laugardalsvelli og á greiningardeild Vinnumálastofnunar ásamt því að sitja í ritstjórn Studentablaðsins.