Allir sitji við sama borð

eftir Ritstjórn

Ferðaþjónusta á Íslandi hefur lengi notið ívilnana hvað virðisaukaskatt varðar, en árið 2016 var skatturinn hækkaður úr 0% í 11%. Útlit er fyrir frekari breytingar í þessum efnum, en fjármálaráðherra boðaði á fimmtudag að þjónusta í ferðamannaiðnaði yrði skattlögð til jafns við aðra þjónustu, eða að virðisaukaskattur yrði 24% í stað 11%, líkt og verið hefur. Er sú aðgerð hluti af fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022. Í áætluninni segir einnig að almenna virðisaukaskattsþrepið, 24%, lækki í 22,5% árið 2019.

Þrátt fyrir að ekki sé um að ræða skattahækkun í hefðbundnum skilningi þess orðs, heldur jafnræðisaðgerð, fór allt í bál og brand í lok síðustu viku og ferðaþjónustufyrirtæki auk hagsmunasamtaka þeirra kveinkuðu sér mjög yfir ráðagerð ráðherra. Í Morgunblaðinu á föstudag sagði Grímur Sæmundsen, formaður samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), sagði „skattahækkunina” koma illa við fyrirtæki í ferðaþjónustu og eyðileggja afkomu þeirra. Fjármála- og efnahagsráðuneytið áætlar að verðlag á ferðaþjónustu hækki um 10,4%.

Aftur á móti hafa háværar gagnrýnisraddir lengi verið uppi um hraðan vöxt ferðaþjónustunnar og áhrif þess á félagsleg og náttúruleg þolmörk ferðamannastaða. Grímur Sæmundssen hefur raunar sjálfur talað fyrir því að betur þurfi að stýra flæði ferðamanna til landsins. Síðastliðin ár hafa stjórnvöld ásamt hagsmunasamtökum ferðaþjónustunnar leitað leiða til þess að fjármagna uppbyggingu innviða ferðamannastaða en án árangurs.

Nú er því svo komið að grípa verður til aðgerða og í Morgunblaðinu á föstudag má skilja á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- og iðnaðarráðherra, að þetta skref komi í stað náttúrupassa eða komugjalda, sem ekki hefur náðst samstaða um í ferðaþjónustugreinunum. Það er vel og ferðaþjónustan getur í raun sjálfri sér um kennt að hafa ekki getað leyst úr þessu á þeim leiðnum sem henni hafa verið boðnar síðustu ár. Má í því samhengi nefna fyrrnefndar hugmyndir um náttúrupassa og komugjöld auk gjaldtöku við ferðamannastaði og hækkun á gistináttagjaldi.

Þeir fjármunir sem innheimtast af virðisaukaskatti ferðaþjónustu verða eyrnamerktir ferðaþjónustunni, svo þessi vandi er að nokkru leyti leystur. Það sem eftir stendur er þó það hvernig skipta eigi fjármununum milli ferðamannastaða og það er verkefni Þórdísar Kolbrúnar að leysa úr því með skynsamlegum hætti.

Í anda stefnu ríkisstjórnarinnar?

Áætlað er að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði 24% þann 1. júlí 2018. Það sem má setja út á er að lítið samráð virðist hafa verið haft við ferðaþjónustuna um þá tímasetningu, en því er haldið fram að fyrirtæki í greininni hafi þegar skipulagt sig og bókað ferðir fram á árið 2018. Það er ámælisvert gagnvart stjórnvöldum að þau taki ekki meira tillit til fyrirtækja en það.

Annað markmið fjármálaáætlunarinnar er að almennur virðisaukaskattur verði lækkaður úr 24% í 22,5% árið 2019. Því hefur ekki verið svarað hvers vegna ekki var beðið með að breyta virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna þar til almenna lækkunin verður. Það hefði, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga fyrirtækja um bókanir árið 2018, dregið úr óhjákvæmilegum óþægindum ferðþjónustunnar vegna breytinganna.

Að lokum má nefna að það er meðal markmiða ríkistjórnarinnar, í stjórnarsáttmála hennar, að einfalda skattkerfið. Breytingin sem slík samræmist því markmiði, en spyrja má hvort það sé í anda þeirrar stefnu að leggja þessa breytingu á ferðaþjónustuna með þessum fyrirvara og þannig skattprósentan verði 24% í um sjö mánuði og lækki síðan aftur um 1,5% þegar almenna virðisaukaskattsþrepið verður lækkað.