Alið á ótta við að ala barn

eftir Inga María Hlíðar Thorsteinson

Við fæðumst og við deyjum. Það eina sem við eigum sameiginlegt með öllum öðrum lífverum á jörðinni. Því ætti fæðing að þykja eðlilegasti hlutur í heimi.

Fæðingarótti einkennist af hræðslu við sársauka í fæðingu, ótta við að geta ekki fætt barn og ótta við foreldrahlutverkið. Talið er að um fjórða hver kona þjáist af fæðingarótta og eru þær konur líklegri til þess að vilja inngrip í fæðingu, svosem mænurótardeyfingu, gangsetningu eða keisara. 6-10% kvenna glímir við alvarlegan ótta við að fæða barn en birtingarmynd þess eru martraðir, líkamlegir verkir og einbeitingarleysi. Í allt að helmingi tilfella leiðir alvarlegur ótti til þess að konan biðji um keisara en í Finnlandi, Svíþjóð og Bretlandi er fæðingarótti ástæða 7-22% allra keisarafæðinga.

Aukinn kostnaður
Fæðingarótti hefur ekki einungis slæm áhrif á líðan og útkomu heldur eykur það einnig kostnað ríkisins vegna valkvæðra keisarafæðinga. Kostnaður við keisarafæðingu án fylgikvilla er fimmfalt meiri en við eðlilega fæðingu án fylgikvilla á sjúkrahúsi. Kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins af heimafæðingum er ennþá lægri. Öllum inngripum fylgir einhver áhætta og eitt inngrip leiðir af sér fleiri inngrip (series of interventions). Stundum heyrist ,,guði sé lof að við gátum framkvæmt öll þessi inngrip til að bjarga barninu!” þegar í raun er óvíst hvort það hefði þurft að framkvæma öll þessi inngrip ef það hefði ekki verið byrjað á því fyrsta.

Óttinn markaðsvæddur
Í Bandaríkjunum hafa margir fæðingarlæknar aldrei séð náttúrulega fæðingu (fæðingu án inngripa) en þar er jafnramt hæsta hlutfall mæðradauða í hinum vestrænu ríkjum. Upp úr 1930 upphófst mikil herferð gegn ljósmæðrum og lítið var gert úr starfi þeirra. Heimafæðingar voru sagðar vera fyrir hina óæðri en spítalar hreinir og fínir. Þegar fæðingarnar fluttust inn á spítalana þar í landi fylgdu ljósmæðurnar því ekki með en í Norður Ameríku er ljósmóðir aðeins viðstödd í 7-8% fæðinga. Hér á landi er ljósmóðir nær alltaf viðstödd. En ljóst er að almenningur smitaðist af jákvæðu viðhorfi til tækni- og sjúkdómsvæðingar sem er upphaflega byggt á viðskiptatækifærum frekar en á hag móður og barns.

Tækni er orðin stór hluti af okkar daglega lífi. Hætta er að fólk ofmeti tækni í fæðingum og líti hana ekki gagnrýnum augum vegna þess að það fær á tilfinninguna að það sé ekki að velja bestu mögulegu þjónustuna fyrir barnið sitt ef það notar ekki alla tækni sem býðst. Fjölmiðlar sýna fæðingu sem hættulegan og ófyrirsjáanlegan viðburð með tíðum fylgikvillum sem eykur enn á sjúkdómsvæðinguna. Fyrir vikið lítur ungt fólk á fæðingar sem ógnvekjandi fyrirbæri, heldur að mænudeyfing sé nauðsynleg til að geta höndlað fæðinguna og að sjúkdómsvædd, hátækni-nálgun fæðinga sé besta og öruggasta leiðin til að fæða börn o.s.frv. Brilljant markaðssetning!

Brengluð ímynd
Too posh to push (of fínn til að ýta) er hugtak yfir fína og fræga fólkið sem kýs fremur að eiga barn með keisara en á hefðbundinn hátt til að forðast erfiðleikana sem fylgja hefðbundinni fæðingu (verki, breytingar á leghálsinum o.fl.). Síðustu ár hafa stjörnur á borð við Christinu Aguilera, Angelinu Jolie, Jennifer Lopez og Kate Winslet farið í valkvæðan keisara. Þá hafa Britney Spears og Victoria Beckham gengist undir svokallað Designer birth þar sem konan velur sjálf dagsetningu og tíma fyrir keisara og fitusog í beinu framhaldi. Þykir þetta flott og er eftirsóknarvert í Bandaríkjunum í dag. Fræðimenn telja að þessar fyrirmyndir í stjörnuheiminum hafi átt þátt í að breyta viðhorfi almennings til fæðinga. Nú telji margir keisarafæðingar vera yfir hefðbundnar fæðingar hafnar, þær séu verkjalausar, komi síður í veg fyrir breytingar á líkama kvenna og veiti konunni meiri stjórn á aðstæðum.

Fari kona í keisaraskurð þarf að framkvæma ýmis inngrip á henni, svo sem nálaruppsetningu, vökvagjöf í æð, blóðþynnandi lyfjagjöf, þvagleggsuppsetningu og mænudeyfingu svo að dæmi séu tekin. Auk þess gæti konan þurft að glíma við ýmis vandkvæði í kjölfarið svo sem seinkaða mjólkurframleiðslu, aukna blæðingu, verki og hættu á að fá sýkingu í skurðsárið. Þá seinkar tengslamyndun móður og barns sem getur haft langvarandi afleiðingar. Fæðist barn með keisara er það í aukinni hættu á að fá svokölluð vot lungu (öndunarerfiðleika) og lægri apgar skor, sem er próf sem gefur til kynna hvort barnið þurfi tafarlausa læknisaðstoð og/eða endurlífgun 1 og 5 mínútum eftir fæðingu.

Aukin fræðsla og stuðningur

Þó svo að stundum verði að framkvæma keisaraskurði er alltaf viss áhætta að gangast undir skurðaðgerð. Keisarafæðingum fylgir einnig mikill kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið og því ætti engin kona að gangast undir slíka aðgerð að óþörfu. Vissulega fylgja fæðingu kvalir en þær eru eðlilegur þáttur í þessu ferli og hægt er að vinna með þær á margvíslegan hátt. Ísland stendur sig ágætlega í samanburði við önnur OECD ríki en ljóst er að vandinn er til staðar allt í kring. Því er mikilvægt að halda umræðunni á lofti og auka fræðslu til verðandi foreldra og þannig hjálpa þeim að undirbúa sig fyrir hið stóra og spennandi verkefni sem framundan er.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Inga María Hlíðar Thorsteinson

Pistlahöfundur

Inga María útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands vorið 2016 og ljósmóðurfræði 2018. Hún hefur bæði starfað á Fæðingarvakt og Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH eftir útskrift, auk þess að sinna heimaþjónustu ljósmæðra. Inga María var varaformaður Stúdentaráðs HÍ, formaður félags hjúkrunarfræðinema við HÍ og síðar hagsmunafulltrúi félagsins á námstíma sínum. Hún situr nú í velferðarnefnd Sjálfstæðisflokksins.