Agaleysi Íslendinga

eftir Kristófer Már Maronsson

Reynsla mín af Íslendingum, að undirrituðum meðtöldum, er sú að við séum yfirleitt í seinna lagi miðað við þá útlendinga sem ég hef umgengist víðs vegar um heiminn. En hverju er um að kenna? Er það af því það var svo mikil umferð í morgun? Já auðvitað, það voru allir jafn seinir á ferðinni, eða keyrði strætó framhjá stætóskýlinu og þessvegna ertu 20 mínútum á eftir áætlun. Eða getur verið að vandamálið liggi annarstaðar en í lélegum afsökunum, sem við töfrum fram eins og skot þegar eitthvað bregður útaf?

Hið akademíska kortér

Ég hef oft heyrt talað um hið akademíska korter en aldrei fundið skýra skilgreiningu á því. Miðað við reynslu mína af því, þá er það viðurkenndur tími þar sem beðið er eftir þér áður en fólk hefst handa í þeirri samvinnu sem þið hafið mælt ykkur mót með. Pældu aðeins í því, hvað gerist ef þú mætir of seint? Er tekið hart á því á þínum vinnustað eða í skóla barnanna þinna, eða er það kannski bara orðið samfélagslega viðurkennt? Hið akademíska kortér, virðist af minni reynslu vera reglan frekar en undantekningin. Er þetta eitthvað sem lærist frá blautu barnsbeini? Að það sé allt í lagi að vera bara aðeins á eftir áætlun. Er einn af orsakavöldum agaleysis barna, unglinga og fullorðins fólks að finna í barnaskólum?

Eftirseta í skólum

Eftir því sem ég best veit tíðkast ekki á Íslandi að börn séu sett í eftirsetu (e. detention) í grunnskólum mæti þau of seint í tíma. Eftirseta er ein algengasta refsing við óæskilegri hegðun nemenda í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu, Kanada og Singapúr, ásamt mörgum öðrum löndum. Þessi refsing byggir ekki á hreinni illsku, þvert á móti er tilgangurinn að hjálpa börnum að læra að það borgar sig að vera stundvís. Afhverju að taka áhættuna á að mæta fimm mínútum of seint ef það getur kostað klukkutíma í eftirsetu aukalega eftir skóla?

Ég þekki þetta kerfi af eigin reynslu eftir stutta en ótrúlega lærdómsríka skólagöngu í Ástralíu á betri hluta táningsáranna. Það kom örsjaldan fyrir að börn enduðu í eftirsetu, það gerðist þó en í kjölfarið var stundvísi nemenda til fyrirmyndar. Yfirleitt voru allir mættir tíu mínútum til korteri fyrir tíma, þar sem við vinirnir byrjuðum jafnan daginn á stuttum fótboltaleik eða spjalli um daginn og veginn. Bekkurinn hittist fyrir utan smíðastofuna á slaginu hálfníu og þá var nafnakall áður en haldið var til skólastofu. Á meðan nafnakallinu stóð röltu starfsmenn um og athuguðu hvort allir væru ekki í skólabúningunum sínum, þar sem eftirseta var á matseðlinum fyrir þá sem fylgdu ekki reglunum.

Snúðu bolnum bara við”

Nemendum er skylt að ganga í skólabúning fyrstu tíu ár skólagöngunnar í flestum skólum Ástralíu, en þar er skólastigum alla jafna skipt í fyrsta til sjötta bekk og sjöunda til tólfta bekk, að því loknu tekur við háskólanám ef slíkt er á dagskrá. Það var þó þannig að í ellefta og tólfta bekk gátu nemendur valið sér klæðnað alveg sjálf. Þrátt fyrir það mátti varla sjá íþróttabuxur og hettupeysu því nemendur höfðu vanist því að klæða sig snyrtilega frá og með 7. bekk og sá ávani varð meginreglan þegar kom að skólaklæðnaði. En það eru ekki bara skyrta, buxur og svartir skór sem er hluti af skólabúningnum, íþróttafötin voru það líka. Nú þykir mörgum það eflaust full mikil forræðishyggja að börnin þurfi sérstök íþróttaföt. Fyrir það fyrsta þá getur þú ekki sýnt öllum vinum þínum nýju Tim Cahill treyjuna sem þú fékkst í jólagjöf, en öll vorum við í gulum bol og dökkbláum stuttbuxum svo metingurinn var úr sögunni. Þegar kom að því að skipta í lið, þá þurfti enginn vesti heldur bolnum einfaldlega snúið við og úr varð dökkblár bolur. Eðli málsins samkvæmt hef ég verið stuðningsmaður skólabúninga eftir þessa reynslu, en ég tel að það stuðli að auknum aga, virðingu og vellíðan barna í skólum.

Rétt upp hönd

Það sem mér þótti einna merkilegast er hversu kurteisir nemendur voru og hversu mikla virðingu þeir báru hverjir fyrir öðrum og kennaranum, gjörólíkt því sem ég kynntist hér á Íslandi. Það opnaði ekki nokkur einasti maður munninn án þess að hafa rétt upp hönd og fengið tilskilið leyfi frá Miss MacDonald til þess að opna á sér kjaftinn. Ég vildi óska þess að ég gæti lýst viðurlögunum, en það kom bara ekki til þess að það þyrfti að taka á þessu. Þetta var lærdómsríkt ferli fyrir unga Íslendinginn, sem var vanur því að mæta í íþróttafötum í skólann þar sem allir gripu fram í fyrir hverjum öðrum sem varð til þess að þeir málglöðustu töluðu mest en feimnari aðilar drógu sig í hlé.

Brennt barn forðast eldinn

Það er þó eitthvað skrítið við hversu dónaleg og agalaus Íslendingar eru oft á tíðum og er undirritaður þar engin undantekning. Ég stend mig oft að því að grípa fram í fyrir fólki og mæta seint en viðurlögin eru yfirleitt engin nema sár á eigin samvisku og einstaka illkvittið augnaráð. Þetta virðist vera einhverskonar samþykkt hegðun sem fer þó í taugarnar á sjálfum mér og sennilega fleirum. Þetta kristallast út um allt í samfélaginu og ég tel að ein leið til þess að takast á við vandamálið til lengri tíma sé að kenna börnum í grunnskóla hvað agi, virðing og stundvísi skipta miklu máli. Ein af áhrifaríkustu leiðunum tel ég vera eftirsetu og skólabúninga. Það er ekki þannig að ég krefjist þess að allir skólar taki upp eftirsetu og skólabúninga, en ég hef áhyggjur af framtíðarkynslóðum og tel ég að skólabúningar og eftirseta gætu aukið aga komandi kynslóða, öllu samfélaginu til hagsbóta.

Það sem birtist hér að ofan eru persónulegar skoðanir höfundar en endurspegla ekki skoðanir vinnuveitanda hans né annarra.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.