Aftur í framboði

eftir Tryggvi Másson

Þann 18. september síðastliðinn tilkynnti forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson um þingrof og alþingiskosningar í kjölfarið sem haldnar yrði 28. október, aðeins einum mánuði og tíu dögum síðar. Það er afar óvenjulegt að boðað sé til kosninga með svo stuttum fyrirvara og því hefur verið lítill tími fyrir þá flokka sem hyggja á framboð að huga að framboðslistum, meðmælendum, málefnum o.s.fr.v.

Fyrir flokkunum stóð sú ákvörðun um hvort þeir ættu að halda sig við sambærilega framboðslista og árið áður eða freista gæfunnar og hrista upp í listunum í von um að sækja fleiri atkvæði með fersku og nýju fólki.

Þegar betur er að gáð er það ekki svo svart og hvítt. Því aðeins einn flokkur hélt listum sínum nánast óbreyttum og það er Sjálfstæðisflokkurinn. Þeir listar sem hann lagði fram eru flestir óbreyttir utan listans í Norðausturkjördæmi, en töluverð uppstokkun og endurröðun átti sér stað í neðri sætum listans.

Öll önnur framboð voru með yfir 40 einstaklinga sem ekki buðu fram í síðustu Alþingiskosningum. Flesta er að finna í Miðflokknum 114 frambjóðendur buðu ekki fram í fyrra, sem verður þó að teljast skiljanlegt þar sem flokkurinn bauð ekki fram í fyrra. 11 þeirra sem buðu sig fram í fyrra voru þá á lista Framsóknarflokksins.

Alþýðufylkingin, Píratar, Viðreisn og Vinstri græn eru allt flokkar sem bjóða fram nánast óbreytt efstu sæti en töluverðar breytingar hafa átt sér stað á neðri sætum listanna. Sama má segja um Framsóknarflokkinn utan þess að hann þurfti að aðlaga sig af blóðtöku sökum brotthvarfs tveggja oddvita til Miðflokksins auk Eyglóar Harðardóttur sem kaus ekki bjóða sig ekki fram aftur til endurkjörs.

Eini flokkurinn sem fór í gagngera endurskoðun á efstu sætum á sínum framboðslistum var Samfylkingin, sem hafði nánast þurrkast út af alþingi í síðustu kosningum. Sú ákvörðun hefur greinilega borgað sig ef marka má síðustu skoðanakannanir. Björt framtíð og Flokkur fólksins eru einnig með nýja frambjóðendur í efstu sætum hjá sér en þær breytingar hafa haft þveröfug áhrif á við Samfylkinguna og er fylgi þessara flokka í frjálsu falli frá því sem áður var.

Aftur í framboði – en fyrir annan flokk

Af þessum mörghundruð aðilum sem eru aftur í framboði til alþingis, annað árið í röð, eru allaveganna 17 sem eru í framboði fyrir annan flokk. 11 af þessum 17 eru á lista Miðflokksins og voru á lista Framsóknarflokksins í fyrra. Þá er Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar í framboði fyrir Samfylkinguna.

2016 2017
Ragnar Sverrisson Húmanistaflokkurinn Alþýðufylkingin
Baldvin Örn Arnarson Íslenska þjóðfylkingin Flokkur fólksins
Sigurjón Arnórsson Viðreisn Flokkur fólksins
Örn Björnsson Íslenska þjóðfylkingin Flokkur fólksins
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Þorgrímur Sigmundsson Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Úlfhildur Rögnvaldsdóttir Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Sigurður Páll Jónsson Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Gunnar Bragi Sveinsson Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Sigrún Aspelund Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Steinunn Anna Baldvinsdóttir Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Brandur Gíslason Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Dorota Anna Zaorska Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Hallur Steingrímsson Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Kristján Hall Framsóknarflokkurinn Miðflokkurinn
Baldur Vignir Karlsson Flokkur fólksins Píratar
Guðmundur Ragnar Guðmundsson Húmanistaflokkurinn Píratar
Páll Valur Björnsson Björt framtíð Samfylkingin

Ef að vika er langur tíma í pólitík þá er greinilegt að ár er heil eilífð þar sem heilu listarnir eru endurskoðaðir frá grunni, nýir flokkar stofnaðir og frambjóðendur skipta um flokka án þess að blikka.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.