Af verkalýðsleiðtogum, sjálfstæðisfólki og októbersnjó

eftir Þórhallur Valur Benónýsson

Mér til yndisauka fór ég í Sundhöll Reykjavíkur seint að kvöldi í síðustu viku, fyrir þá sem ekki hafa komið í Sundhöllina eftir breytingar, þá mæli með henni. Þegar ég lá í heita pottinum að hugsa minn gang byrjaði, mér til mikillar mæðu, að snjóa. Við það varð ég hóflega pirraður en eins og sönnum Íslendingi sæmir fer ég í pirringi að hugsa um dægurmál og það sem er að gerast í samfélaginu, hér ætla ég að fjalla örstutt um það sem kom mér fyrst í huga.

Í nafni bættra kjara og eflingu kaupmáttar lágtekjustétta stefnir forystufólk helstu verkalýðshreyfinga landsins á að hækka lágmarkslauna upp í 425.000kr á mánuði. Ég átta mig ekki á því hvort að þetta sé raunverulega gert í góðri trú um betra líf fyrir almúgann eða hvort að hér sé komið til valda fólk, svo blindað af heift að það vill frekar gengisfella kröfur tveggja af mikilvægustu láglaunastéttum landsins, kennara og hjúkrunarfræðinga, sem munu í kjölfar launahækkana vinna á lágmarkslaunum nánast um aldur og ævi í stað þess að leita raunhæfra leiða til þess að bæta aðstæður lágtekjufólks með öðrum og skynsamari leiðum. Launahækkunum sem þessum fylgir verðbólga og gríðarlega erfiður rekstur fyrir minni fyrirtæki sem mun að öllum líkindum auka frekar á ójöfnuð í landinu, þvert á meints markmið verkalýðshreyfinganna.

Nú vil ég þó ekki ganga svo langt að reikna með samkomulagi í kjaradeilunum eins og kröfur líta út í dag og ætla að leyfa mér bjartari vonir. Bjartari vonir sem felst í að VR sjái frekar sóma sinn í að semja um skárri kjör fyrir félagsmenn frekar en að stefna yfir 30.000 manns í verkfall til þess eins að kalla fram meiri verðbólgu.

Það veldur mér hugarangri, sú pólitíska snilld foringja verkalýðshreyfingarinnar, að lækka laun sín hver á eftir öðrum með þeim afleiðingum að færri einstaklingar sem annars væru tilbúin að taka slag við þau um forystusæti innan hreyfingarinnar. Því starfinu fylgir nú launalækkun. Því að þrátt fyrir fögur loforð um harða og róttæka baráttu fyrir verkafólkið þá vita þau, innst inni, að þau eru kjörnir embættismenn alþýðunnar og að keyra áfram á heift, reiði og róttækni mun ekki duga að eilífu.

Enn og aftur reyndi á siðferðisþröskuld Sjálfstæðismanna í vikunni þegar fyrst Viðar Guðjohnsen, sem þó hefur takmarkaðan stuðning í flokknum, og síðar Sigríður Á. Andersen, sem hefur furðulegt brautargengi og að því er virðist ótakmarkaðan stuðning innan flokksins komust í fréttirnar fyrir misgáfulegar athafnir og ummæli. Reyndar svona þegar ég fer að hugsa út í það þá er þögn ekki það sama og samþykki, en þögn er einmitt það sem einkennir flesta arma Sjálfstæðisflokksins þegar aðilar sem kenna sig við hann stíga feilspor. Harðir flokksmenn og virkir þátttakendur í starfi hans virðast alltaf hverfa í nokkra daga eftir ákveðinni formúlu og neita að horfast í augu við dvínandi almenningsálit á flokknum. Ég hlakka til þess dags sem stigið verður endanlega yfir siðferðisþröskuld Sjálfstæðismanna og við sjáum breytingar gerðar á flokknum innan frá. Þá mun Ísland sjá jákvæðari daga. Það hlýtur að koma, einn daginn.

Svo er það blessaður snjórinn. Það er einungis undir einum kringumstæðum sem snjór á höfuðborgarsvæðinu er bærilegur en það er jólafríið. Undir öllum öðrum kringumstæðum er snjór slysahætta, blautur og kaldur. Ég hef hitt þónokkra aðila á síðustu dögum sem fögnuðu komu snjós af miklum ákafa. Það eina góða sem snjórinn segir okkur er að við höfum náð að lifa annað ár og að eitthvað í heiminum gengur sinn vanagang. Snjór er ákveðin festa í að lífið haldi áfram en sama hverning bjátar á þá er snjór ekki velkominn í október.

Þórhallur Valur Benónýsson

Pistlahöfundur

Þórhallur Valur er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi ýmissa félaga t.d. Orator og NFVÍ auk þess að hafa verið varaformaður og oddviti Vöku fls. Þórhallur starfar hjá Verði tryggingum. Helstu áhugamál hans eru knattspyrna, tónlist og öll þau málefni líðandi stundar sem honum finnst sig varða. Skrif hans á Rómi munu snúast að hverju því sem honum finnst sig varða þá stundina.