Af þungunarrofum

eftir Jóhann Óli Eiðsson

Það ætti að vera hverjum Íslendingi kunnugt, sem eitthvað fylgist með fréttum, að í upphafi viku var samþykkt ný heildarlöggjöf um þungunarrof. Löngu var tímabært að löggjöf á sviðinu fengi yfirhalningu enda eldri lögin, sem báru hið þjála heiti „lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir“, verið í gildi frá 1975. Þó var breytingin langt frá því að vera óumdeild.

Frumvarpið byggði á vinnu starfshóps sem þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, skipaði en hópurinn skilaði af sér í nóvember 2016. Hópurinn lagði til að heimilt yrði að rjúfa þungun fram að 22. viku meðgöngu, það er 21 vika plús sex dagar. Tæpum tveimur árum síðar, í september 2018, voru frumvarpsdrög byggð á vinnu nefndarinnar birt í samráðsgátt stjórnvalda. Sá munur var hins vegar á frumvarpsdrögunum og skýrslu nefndarinnar að í drögunum að fresturinn til að fara í slíka aðgerð var styttur um fjórar vikur. Lagt var til að þungunarrof eftir 22. viku væri heimilt ef fóstur teldist „ekki lífvænlegt til frambúðar“.

Umsagnir sérfræðinga á einn veg

Fjöldi umsagna barst en þær voru ekki birtar í samráðsgáttinni líkt og venjan er. Þó reyndist unnt að fá afrit af þeim á grundvelli upplýsingalaga. Athyglivert var að athugasemdir fagfólks sneru flestar að því að frumvarpið gengi of skammt. Sér í lagi var fundið að því skilyrði að fóstur þyrfti að teljast ólífvænlegt til að þungunarrof eftir 18. viku væri heimil.

Meðal aðila sem lögðu til að fresturinn yrði lengdur í 22 vikur voru Ljósmæðrafélag Íslands, Félag íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Landspítalinn auk lækna og hjúkrunarfræðinga sem sendu inn umsögn í eigin nafni. Þá fann umboðsmaður barna að því að börn undir sextán ára aldri þyrftu staðfestingu foreldra á því að heimilt væri að framkvæma aðgerðina. Fjöldi umsagna barst síðan frá einstaklingum og sértrúarsöfnuðum þar sem morðum á börnum var mótmælt hástöfum.

Þegar frumvarpið rataði fyrir þingið hafði verið tekið tillit til flestra tillagna úr samráðsferlinu. Fresturinn hafði verið lengdur og réttur ósjálfráða barna til að ákveða slíkt sjálfur var tryggður. Þannig fór það fyrir þingið og þannig var það samþykkt með atkvæðum fjörutíu þingmanna gegn átján. Þrír sátu hjá og tveir voru fjarverandi.

Í kjölfar þessarar upprifjunar er rétt að víkja að því í örstuttu máli af hverju þessi lög eru góð. Þar ber fyrst að nefna hve fallegt að sjá hve vel samráðsvettvangur ríkisstjórnar og almennings virkaði í málinu. Gáttinni var ýtt úr vör í febrúar á síðasta ári og ber að fagna því að almenningi, sérfræðingum og hagsmunaaðilum sé hleypt fyrr að borðinu en áður hefur verið.

Ísland vs. Alabama

Þau voru hins vegar ekki jafn falleg orðin sem ýmsir þingmenn létu falla í umræðum um málið. Sumir þeirra fóru langleiðina með að skipa sér á sama bekk og starfsbræður þeirra í Alabama sem nýverið samþykktu lög um að banna þungunarrof nema líf móður liggi við.

Umræddir þingmenn virtust telja að með breytingunni myndi hver einasta ófríska kona landsins stökkva til og hnýta hnút á meögönguna hið fyrsta. Slíkt er auðvitað fásinna. Sé litið til Kanada, þar sem engin tímamörk eru fyrir þungunarrof, má sjá að árið 2017 var 13,1 var rofin fyrir hverjar þúsund konur á barneignaraldri. Til samanburðar var hlutfallið á Íslandi 13,1 það sama ár þrátt fyrir að ramminn hér væri mun þrengri. Meðaltalið hlutfallsins á Íslandi fá aldamótum hefur verið 12,5 á ári sem er svipað meðaltali Norðurlandanna. Hlutfallið er lægt í Finnlandi, 8,2 á 1000 konur 15-49, en hæst í Svíþjóð, 17,6. Í samanburði við önnur Evrópulönd er hlutfallið tiltölulega lágt á Norðurlöndunum. Þá sýna dæmin að minnihluti aðgerða er framkvæmdur eftir tólftu viku og aðeins brotabrot undir lok frestsins.

Þá er rétt að nefna að það að fallast á styttri tímaramma hefði ólíklega falið í sér engar aðgerðir eftir, segjum 18. viku, á íslenskum konum. Má leiða að því líkum að einhverjar hefðu gerst heilbrigðiskerfatúristar og nýtt sér 22. vikna frestinn í Hollandi, 24. vikna frestinn í Bretlandi eða jafn vel lagt leið sína til Kanada. Slíkt þekkjum við nú þegar hvað varðar ýmsar aðgerðir hér á landi, á borð við liðskiptaaðgerðir, þar sem langir biðlistar hafa þvingað fólk úr landi til að fá bót meina sinna.

Í tilfelli þungunarrofa væri ósennilegt að slíkt ferðalag fengist viðurkennt af Sjúkratryggingum Íslands og því líklegt að aðeins efnameira fólk hefði nýtt sér þann kost. Þá bætast að auki við ólögmætar svartamarkaðsaðgerðir sem tilheyrandi hættu á sýkingum og heilsuspillandi áhrifum.

Sjálfsákvörðunarréttur

Ein helsta röksemdin fyrir því að lengja frestinn var einnig að tryggja rétt kvenna sem búa við erfiðar aðstæður og átta sig mögulega seint og um síðir á að þær séu ófrískar. Slíkt dæmi þekkjast til að mynda meðal fíkla. Allir sjá að fáum, ef einhverjum, er greiði gerður með að fæðast inn í slíkt.

„Sjálfsákvörðunarréttur kvenna“ var meginstef umræðunnar og er það vel. Þeim sem þarf að ala barn í þennan heim er best treystandi fyrir því að ákveða hvort það skuli gera eður ei. Ætla má að þrenging á þeim rétti hafi ekki aðeins áhrif á ákvarðanir kvenna eftir þungun heldur einnig fyrir. Sökum skorts á æxlunarfærum kvenna, sem helgast af líffræðilegum ástæðum, getur undirritaður aðeins gert sér slíkar aðstæður í hugarlund en ætla má að slík löggjöf myndi hafa þær afleiðingar að kynfrelsi kvenna yrði ekki samt.

Það sætir því furðu að heyra þingmenn, sem reglulega hafa verið helstu boðberar frelsis einstaklingsins til athafna óháð afskiptum ríkisvaldsins, tala gegn breytingunni tilteknu. Að sama skapi var óvanalegt að sjá þingmenn, sem skipað hafa sér í hinn flokkinn, taka þeirra stað. Kannski lögin séu fyrirboði þess sem koma skal og óskiljanlegum hömlum á einstaklinginn verði aflétt hið fyrsta. Þangað til er rétt fagna þeirri breytingu sem náðist í vikunni.

Jóhann Óli Eiðsson

Pistlahöfundur

Jóhann Óli starfar sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu samhliða laganámi og föðurhlutverki. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Úlfljóts og gjaldkeri stjórnar ELSA Íslands. Áhugamál Jóla eru hvers kyns íþróttir, tónlist, kvikmyndir og bækur.