Af sjálfsforræði kvenna

eftir Gestahöfundur

Alþingi samþykkti á dögunum ný heildarlög um þungunarrof. Með lögunum hefur sjálfsforræði kvenna, sem óska eftir þungunarrofi, verið tryggt allt þar til fóstur telst lífvænlegt. Ákvörðun um þungunarrof hefur þar með verið færð úr höndum hins opinbera til konunnar sjálfrar. Í aðdraganda lagasetningarinnar komu til álita ýmsar siðferðislegar spurningar, m.a. hvar mörk réttar þungaðrar konu til sjálfsforræðis og réttar fósturs til lífs liggja.

Í ljósi þess að sjálfsforræði kvenna til að óska eftir þungunarrofi hefur verið tryggt, er ekki úr vegi að velta því upp hvort ekki sé með sama hætti rétt að tryggja með lögum sjálfsforræði kvenna yfir þungun sinni, þ.e. tilgangi og tilurð hennar. Á meðan staðgöngumæðrun er óheimil, eða ákvörðun um hana falin öðrum en staðgöngumóðurinni sjálfri, njóta konur ekki sjálfsforræðis yfir eigin þungun.

Líkt og umræða um þungunarrof, er umræða um staðgöngumæðrun viðkvæm og vekur upp ýmsar siðferðislegar spurningar. Verða konur í viðkvæmri stöðu útsettar fyrir kúgun? Hvar liggja mörk réttar konu til sjálfsforræðis og annarra hagsmuna?

Staðgöngumæðrun og sjálfsforræði kvenna

Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni var síðast lagt fyrir Alþingi árið 2015. Frumvarpið var háð þeim annmarka að það grundvallaðist ekki á rétti kvenna til sjálfsforræðis, líkt og hin nýsamþykktu lög um þungunarrof gera, með þeim afleiðingum að sjálfsforræði kvenna eru settar verulegar skorður í frumvarpinu.

Í umfjöllun um tilefni lagasetningarinnar er vísað í álit vinnuhóps heilbrigðisráðherra þar sem fram kemur að helstu rök fyrir að heimila staðgöngumæðrun séu að „hún geti verið farsæl lausn á vanda pars (eða einstaklings) sem á við ófrjósemisvanda að stríða“. Vinnuhópurinn taldi jafnframt að áður en staðgöngumæðrun yrði leyfð hér á landi „þurfi að ná almennri samfélagslegri sátt um málið“.

Í frumvarpinu er engin áhersla á sjálfsforræði kvenna hvað tilurð og tilgang þungunarinnar varðar. Það er kaldhæðnislegt að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að helstu rök gegn staðgöngumæðrun séu hætta á að litið verði á staðgöngumóðurina sem „hýsil utan um barn“, en frumvarpið sjálft virðist ekki gera staðgöngumóðurinni hærra undir höfði, þegar rök með frumvarpinu lúta eingöngu að hagsmunum þriðja aðila af ferlinu, en víkja ekki einu orði að þeim gríðarlegu hagsmunum sem felast í sjálfsforræði konunnar.

Skilyrði hlaðin draugum fortíðar

Þau skilyrði sem staðgöngumæðrun eru sett í frumvarpinu eru ströng og ákvörðun um staðgöngumæðrunina er í höndum nefndar á vegum hins opinbera, en ekki konunnar sjálfrar, ekki ólíkt þeim forneskjulegu ákvæðum fráfarandi löggjafar um fóstureyðingar sem heyra nú sögunni til.

Meðal skilyrða er að samþykki maka staðgöngumóður liggi fyrir, þrátt fyrir að makinn eigi ekki svo mikið sem kynfrumu undir ákvörðuninni. Ekki er gerð krafa um að staðgöngumóðir sé í sambúð eða hjónabandi, en sé það tilfellið er skilyrði um lágmarks árafjölda sem sambúðin/hjónabandið þarf að hafa staðið. Óskiljanlegt er hvers vegna löggjafinn telur rétt að álit maka eða lengd sambúðar ætti að takmarka sjálfsforræði konu.

Staðgöngumóðir má ekki ganga með barn fyrir nákomna ættingja skv. skilyrðum frumvarpsins. Kona gæti því ekki undir neinum kringumstæðum ákveðið að ganga með barn fyrir ófrjósamt systkini sitt, þrátt fyrir góðfúslegan vilja og getu. Sjálfsforræði konu er hér takmarkað í nafni forræðishyggju, undir þeim formerkjum að ætlunin sé að koma í veg fyrir að ákvörðun konunnar verði fyrir þrýstingi nákominna hagsmunaaðila. Líffæri má einstaklingur hins vegar gefa nákomnum ættingjum, þrátt fyrir að slík gjöf feli í sér áhættu og að fyrir liggi að gjöfin muni takmarka lífsgæði gjafa til frambúðar. Hvers vegna er þrýstingur nákominna í þeim tilfellum ekki tilefni til viðlíka forræðishyggju? Getur verið að í sögulegu samhengi sé það löggjafanum ómeðvitað tamara að setja sjálfsforræði kvenna mörk í nafni forræðishyggju en þegar karlar eiga hlut að máli?

Frumvarp sem týndi tilgangi sínum

Þrátt fyrir að staðgöngumóður sé einkum ætlað að ganga með börn fyrir henni ótengda aðila, er henni ekki heimilt að þiggja sanngjarna greiðslu fyrir viðvikið. Það hlýtur að vera siðlaust að ætlast til þess að einstaklingur leggi líf sitt og heilsu að veði og verði undir gífurlegu álagi allan sólarhringinn, yfir margra mánaða tímabil, í þágu ótengds aðila án umbunar.

Í greinargerð með frumvarpinu er beinlínis fjallað um að búist sé við því að fáar konur muni sækjast eftir því að verða staðgöngumæður í ljósi þessara ströngu skilyrða. Einhvers staðar hefur löggjafinn misst sjónar af tilgangi lagasetningarinnar, ef ramminn er svo þröngur að staðgöngumæður finna sig ekki innan hans.

Tónninn hefur verið sleginn

Ný lög um þungunarrof senda skýr skilaboð um sjálfsforræði kvenna sem ekki verður litið framhjá nú þegar staðgöngumæðrun er að komast aftur á dagskrá löggjafans. Í lögum um þungunarrof er ekki vikið að því hvort kona þiggi greiðslu frá þriðja aðila fyrir að rjúfa þungun. Ekki eru lengur sett skilyrði fyrir aðstæðum hennar, ekki er krafist samþykkis maka og ákvörðunin er ekki lengur lögð í nefnd á vegum hins opinbera. Konunni er treyst til þess að taka ákvörðunina sjálf. Sjálfsforræði hennar er ekki takmarkað vegna hugsanlegrar kúgunar á konum í viðkvæmri stöðu, þó dæmi séu um slíka tilburði í aðdraganda þungunarrofs. Hið opinbera er eingöngu í fræðslu- og þjónustuhlutverki.

Við undirbúning lagasetningar um staðgöngumæðrun er mikilvægt að sjálfsforræði kvenna verði haft í forgrunni, ólíkt því sem síðasta frumvarp bauð upp á. Forræðishyggja hins opinbera hvað konur og líkama þeirra varðar ætti að heyra sögunni til. Vilji hið opinbera taka á þeim sem ógna sjálfsforræði kvenna með kúgunartilburðum, hvort sem þeir lúta að þungun, þungunarrofi eða öðrum málefnum kvenna, ber að gera slíkt í hegningarlögum og með fræðslu og þjónustu til kvenna í aðdraganda ákvörðunartöku um staðgöngumæðrun.

Takmörkun á sjálfsforræði kvenna mun ekki koma í veg fyrir kúgun kvenna. Takmörkun á sjálfsforræði kvenna er nefnilega í eðli sínu ekkert annað en kúgun kvenna.


Höfundur: Andrea Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur og húsmóðir úr Laugardalnum sem brennur fyrir frelsi einstaklingsins.