Af nauðgunum og nauðgunarlyfjum

eftir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Eitt sinn var vinkona mín að fagna afmælinu sínu á skemmtistað, en í tilefni dagsins bauð viðkunnalegur en ókunnugur maður henni í fyrsta drykk kvöldsins. Hún saup nokkra sopa af drykknum en gaf svo vini okkar rest sem svolgraði honum í sig með bestu lyst. Klukkustund, eftir að umrædd vinkona mín bragðaði á drykk ókunnuga mannsins, var hún í ástandi sem ég hafði aldrei og hef ekki síðan séð. Hún var vaggandi, augun letileg og gat varla tjáð sig. Sem betur fer á gat vinkona hennar borið hana upp í leigubíl og heim, þar sem hún lá hreyfingarlaus ef frá er talið skiptin þar sem hún var reist upp til að æla. Þó var hún með fullri meðvitund langt fram eftir morgni næsta dags.

Fyrst hélt ég að hún hefði tekið röð tekíla skota (sem er reyndar henni líkt á gleðistundum) á meðan ég sá ekki til, og gerði því ráð fyrir hún væri verulega ofurölvi. Þegar ég seinna meir frétti af framvindu kvöldsins varð mér ljóst að ég hafði gert sömu mistök og svo margir aðrir. Ég hafði með léttvægum hætti sakfellt Bakkus og ályktað sem svo að hún hefði misst stjórn á drykkjunni.

Hvað vin okkar varðar, sem svolgraði í sig restinni af drykknum, hvarf hann snögglega eftir að hann kláraði drykkinn. Hann vaknaði morguninn eftir á Austurvelli, fjórum metrum frá skemmtistaðum. Þangað hafði hann ekki gengið til rekkju áður né gert síðan, en hann man hvorki hvernig, hvenær eða afhverju hann endaði þar.

Dæmin eru ekki aðeins að finna hjá unga fólkinu því ég þekki til konu á besta aldri, eða rétt yfir fimmtugt, sem fór eitt sinn og hitti foreldra mína á fínum bar í miðbænum. Þar fengu hún og mamma sér eitt rauðvínsglas hvor. Þær rákust síðan á kunningja sinn þar, eldri mann og virðulegan, með enn virðulegri starfstitil. Hann bauð konunni í glas sem hún kurteisilega þáði. Stuttu síðar afsakar konan sig til að fara á salernið. Þegar hún hafði verið frá í dágóða stund ákveður mamma að athuga málin og kemur að vinkonu sinni þar sem hún liggur á gólfinu ófær um að hreyfa sig og á erfitt með að tjá sig. Konunni var auðvitað komið undir læknishendur, en slíkt hafði ekki hent hana áður né eftir, af einu rauðvínsglasi.

Undanfarnar tvær vikur hefur undirrituð sinnt óvísindalegri rannsóknarvinnu og spurt þá sem í kringum hana eru, “Hefur ykkur einhvern tímann verið byrlað?”. Niðurstöður þeirrar vinnu eru að um 3 af hverjum 5 svara spurningunni játandi. Þýðið mitt var vissulega mest megnis konur á barneignaraldri, en rannsóknir sýna að karlmenn eru ekki undanskildnir því að vera byrlað ólyfjan. Hér á landi hafa farið fram rannsóknir á málum eins og þeim sem ég hef tekið dæmi af en miðað við það hversu fáir af viðmælendum mínum kærðu mál sín til lögreglu þykir mér afar líklegt að rannsóknirnar vanmeti vandann stórlega því yfirleitt taka þær aðeins til mála sem koma inn á borð lögreglu..

Áfengi er helsta nauðgunarlyfið

….Vilja margir meina, sem getur ekki skilist öðruvísi en að til að komast hjá nauðgun sé best að drekka ekki. Þessi staðhæfing fer persónulega verulega í taugarnar á mér, ekki af því ég hef einhverja óbeit á fólki sem drekkur ekki, þvert á móti ber ég mikla virðingu fyrir einstaklingum sem sýna slíkan sjálfsaga þvert á samfélagsþrýsting. Þessi staðhæfing fer í taugarnar á mér vegna þess að hún kastar sökinni og leggur kvaðir á þolandann. Frá blautu barnsbeini lærum við að atferli hefur afleiðingar, og ósjálfrátt beitum þessari röksemdarfærslu í hvívetna ómeðvitað eður ei. Við lærum að fylgja umferðarreglum af því annars verða slys, við lærum að við eigum að forðast reykingar vegna þess að þær auka líkur á krabbameini. Ef ég fylgi ekki umferðarreglunum og lendi í slysi ber ég kostnað og refsingu, og ef ég reyki og fæ svo krabbamein hefði ég átt að vita betur enn að reykja. Hvoru tveggja er ég hjartanlega sammála, og því gefur sú staðhæfing að áfengi sé helsta nauðgunarlyfið ósjálfrátt til kynna, að til þess að draga úr líkum á því að verða nauðgað ætti ég ekki að drekka, og ef ég drekk þá get ég átt von á nauðgun, og því sjálfri mér um kennt. Þessu er ég hjartanlega ósammála. Verknaðurinn er og á alltaf að vera á ábyrgð þess sem byrlar eða nauðgar.

Þess utan er þetta hæpin fullyrðing því samkvæmt ársskýrslu Stígamóta frá árinu 2016 voru tæplega 42% þolendur nauðgana undir áhrifum áfengis á meðan 33% voru það ekki. Líkurnar á því að vera nauðgað breytast því greinilega ekki mikið við það að drekka áfengi.

Hvaða nauðgunarlyf?

Ef til vill, meina talsmenn þessarar staðhæfingar um áfengið ekkert illt með þessu né ætla þeir sér að kasta sök á þolendur. Ef ég reyni að setja mig í þeirra spor get ég betur skilið hvernig þessi niðurstaða er fengin því staðreyndin er sú að nauðgunarlyf hafa aldrei greinst í blóðsýni á Íslandi. Allavega ekki frá árinu 2012, og árið 2015 hætti landspítalinn að senda blóðsýni í greiningu vegna gruns á byrlun sökum kostnaðar. Það þarf hins vegar að taka með í reikningin að mjög fá blóðsýni eru send í rannsókn miðað við áætlaðan fjölda byrlana. Einnig eru blóðsýni oft send úr landi til rannsóknar en hvarftími helstu nauðgunarlyfjanna er mjög snöggur í blóði eða tveir sólarhringar. Hægt er að greina efnin í þvagi mun lengur en það fer eftir magni. Þegar áfengi, jafnvel í smávægilegu magni, er blandað við þessi nauðgunarlyf magnast áhrif hvoru tveggja upp til muna. Þess vegna þarf mjög lítið magn, eða sennilega minna en til dæmis 0.5 mg af rohypnol til að ná fram mjög miklum áhrifum hjá fórnalambi eftir 1-2 glös, sem hefur að öllum líkindum ekki byggt upp neitt þol fyrir svefn-/svæfingarlyfjum, en öll helstu nauðgunarlyfin, flunitrazepam eða rohypnol, GHB eða smjörsýra, og ketamín eru einmitt þess háttar lyf.

Maður reiknar því með að gerandi sem hefur haft fyrir því að verða sér út um þessi lyf, hafi vit fyrir því að setja nægilega lítið í glasið til þess að fórnalambið geti allavega rétt bærilega staulast út af skemmtistaðnum yfir í hið grimmdarlega gin gerandans, en því minna sem er af efninu í blóðinu því torveldara er að greina það.

Í þokkabót eru einkenni áfengiseitrunar og nauðganalyfja keimlík, enda bæði róandi efni sem verka á sama boðefni í heilanum í flestum tilfellum. Því er kannski ekki skrítið að þessi efni eru illgreinanleg í sýnum og fórnalömb afskrifuð sem ofurölvi. Fórnalömbin sjálf eru oft mjög efins um að hafa orðið fyrir byrlun, en flestir sem ég ræddi við höfðu sömu sögu að segja “ég er viss af því ég hafði ekki drukkið nema í mesta lagi einn drykk”. Þess má geta að lyf einsog MDMA sem veldur auðvitað miklu hömluleysi er einnig byrlað í þessum tilgangi.

Enn einn kvennavandinn

Það verður að teljast undarlegt hversu miðaldarlegar aðgerðir hins opinbera eru gagnvart byrlun nauðgunarlyfja. Það er sennilega lítill hluti fórnalamba sem kærir byrlun ólyfjan til lögreglu eða leita til neyðarmóttöku, enda eru það alls ekki allir sem verða fyrir nauðgun þótt þeim sé byrlað. Annar annmarki er að þeir sem þó leita sér hjálpar koma oft nokkrum dögum síðar. Það kemur kannski ekki á óvart því þótt fórnalambið sé fárveikt, er útlitið slíkt að viðkomandi virðist einfaldlega við áfengisdauða vegna mikillar og alvarlegrar ofurölvunnar. Ef til vill átta aðstandendur sig ekki á að þörf sé á læknishjálp. Samt flokkast byrlun ólyfjan alltaf sem tilraun til nauðgunar, ef ekki eitrunar, og varðar því lög.

Í ofanálag mæta þeir sem þó sækja sér aðstoðar læknis eða lögreglu yfirleitt frekar takmörkuðum úrráðum til að leita réttar síns, sýni þeirra eru yfirleitt ekki send til rannsóknar, og því má segja að tölfræðin um litla tíðni byrlana sé ef til vill ómarktæk þegar hugsað er til hversu smátt þýðið er. Jafnvel ef viðkomandi yfirvöld trúa fórnalambinu er stefna hins opinbera sú að það sé hreinlega of dýrt eða of mikið vesen að hjálpa þeim að leita réttar síns. Fórnalömbin eru því yfirleitt bara send heim með sárt ennið. Það að verða fyrir byrlun ólyfjan er hryllileg upplifun. Fórnalömb verða ekki einungis fyrir miklu áfalli heldur upplifa alvarleg líkamleg veikindi sem mörg hver þeirra þurfa allt að viku til að ná sér af. Og hvernig fær maður sér eiginlega veikindavottorð vegna byrlunar?

Stundum get ég ekki annað en hugsað sem svo, að ef það væru helst karlmenn sem yrðu fyrir byrlun nauðgunarlyfja, með tilheyrandi veikinda- og vinnutapi. Væri vandanum sópað undir teppið með sama hætti?

Annars vill pistlahöfundur þakka ljómandi góðum samstarfskonum fyrir stuðning og góðar hugmyndir við ritun þessarar greinar.