Af kaupmönnum sem hirtu ekki skattahækkunina

eftir Gylfi Þór Sigurðsson

Í fjárlögum fyrir árið 2015 boðaði ríkistjórnin víðtækar breytingar á skattaumhverfi neysluvara á borð við fatnað og raftæki. Bæði voru almenn vörugjöld afnumin sem og innflutningstollar á öllum vörum nema búvörum. Breytingarnar tóku gildi á árunum 2015 – 2017.  

Þó svo að almenn sátt hafi verið um breytingarnar heyrast ætíð gagnrýnisraddir þegar boðað er til skattalækkana. Sumir setja sig alltaf á móti skattalækkunum og telja að ríkið sé betur til þess fallið að ráðstafa fé almennings heldur en almenningur. Svo eru aðrir sem telja að skattalækkanir á neysluvörur skili sér almennt illa til neytenda og leiði aðallega til aukins hagnaðar fyrirtækja og fjármagnseigenda.  

Það vill svo til að með einfaldri greiningu er hægt að líta um öxl og greina hvort áhyggjur síðarnefnda hópsins hafi átt rétt á sér. Í umræðu um ábata af skattalækkunum eins og þessum flækist krónan oft fyrir, en frá því í byrjun árs 2014 hefur verðlag bólgnað um 16% og því er ekki ólíklegt að neysluvörur hafi hækkað í verði síðan þá. Sem betur fer flokkar Hagstofa Íslands innkaupakörfuna okkar niður í undirflokka og því er hægt að sjá hvernig verðlag á einstaka neysluvörum hefur þróast. 

Af þessum undirflokkum var ákveðið að greina verðlagsþróun á  fatnaði og raftækjum. Þetta eru stórir útgjaldaliðir hjá fjölskyldum og eru nánast alfarið innfluttir og þar að leiðandi báru með sér umrædda tollheimtu. Ef við sjáum þessa tvo vöruflokka og almenna vísitölu neysluverðs saman á mynd er auðvelt að greina hvernig verðlag á þessum vörum hefur breyst. 

Á myndinni sést skýrt hvernig þróunin hefur verið frá árinu 2014. Árið 2014 höfðu breytingarnar ekki tekið gildi og á þeim tíma voru umræddir vöruflokkar að hækka hlutfallslega í verði. Strax í byrjun árs 2015 þegar breytingarnar byrja að taka gildi breyttist þróunin og bæði föt og raftæki hófu að lækka hratt í verði. Samanborið við almennt verðlag á árinu 2018 hafði fatnaður lækkað um rúmlega 30% og raftæki hátt í 50% samanborið við byrjun árs 2014. Miðað við nýjustu tölur í júlí, þá hefur verð á fatnaði á föstu verðlagi lækkað um 22% og raftæki um 26% á tímabilinu. 

Í þessu sambandi hefur gengið líka áhrif, raungengi íslensku krónunnar styrkist þó „aðeins“ um 27% á tímabilinu 2014-2018, en hefur frá 2014 til dagsins í dag aðeins styrkst um 11%. Það er því nokkuð ljóst að um talsverða verðlækkun er að ræða vegna þessara breytinga á skattaumhverfi. Ofan á þessa greiningu má við bæta að verslanir hafa almennt séð þurft að horfa á stóra kostnaðarliði vaxa hratt á þessu sama tímabili, til dæmis kostnað sem tengist húsnæði, launum og launatengdum gjöldum. 

Þessar niðurstöður ættu ekki að koma á óvart, en fyrr sagði voru þó uppi áhyggjur af því að smávöruverslun og heildsalar myndu „hirða“ allan þann ábata sem skattalækkanirnar fælu í sér. Þær voru algjörlega óþarfar í ljósi þess að slíkar aðgerðir á markaði sem hefur jafn lágan þátttökuþröskuld og smásölumarkaður hefðu aldrei þau áhrif að þátttakendur á markaðnum komist upp með að hækka álagningu um tugi prósenta til langs tíma. Miklu frekar er freistingin að auka sölu á lægra verði í ljósi þess að nýir samkeppnisaðilar eru alltaf handan við hornið. Þetta má glögglega sjá hér á landi, einkum í Reykjavík, en ekkert lát hefur verið á opnun nýrra verslana jafnt stórum sem smáum á síðustu fimm árum. 

Gylfi Þór Sigurðsson

Pistlahöfundur

Gylfi Þór er hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands en starfar núna hjá tryggingarfélagi. Áhugamál hans eru félagsstörf, ferðalög og líkamsrækt.