Af hverju er flugvélaeldsneyti svona dýrt á landsbyggðinni?

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Það tekur um 3 mínútur að lesa greinina.

Á Íslandi er flutningskostnaður á olíuvörum jafnaður skv. lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, sem tryggir að eldsneytisverð sé hið sama um allt land. Jöfnuðurinn á þó ekki við um eldsneyti ætlað til millilandaflugs. Þar af leiðandi er verð á flugvélaeldsneyti ætlað til millilandaflugs töluvert dýrara á millilandaflugvöllunum á landsbyggðinni heldur en í Keflavík og Reykjavík.

Hversu mikið dýrari er lítrinn af flugvélaeldsneyti á landsbyggðinni?

Lítri af flugvélaeldsneyti ætlað til millilandaflugs er töluvert dýrari þegar farið er út fyrir suðvesturhornið. Á Akureyri er hann um 12 kr. dýrari, en á Egilsstöðum um 24 kr. dýrari.

Vinsælasta flugvélin í flota WOW air er Airbus A321-200, sem brennir tæplega 3.550 lítrum af eldsneyti á klukkustund. Hver klukkustund kostar því rúmlega 85.000 kr. aukalega í eldsneytisgjald ef kosið yrði að lenda þeirri vél á Egilsstöðum í stað Reykjavíkur eða Keflavíkur, og rúmlega 42.000 kr. ef henni yrði lent á Akureyri.

Eru flugvellir á landsbyggðinni samkeppnishæfir?

Það gefur auga leið að á meðan að flutningskostnaður flugvélaeldsneytis til millilandaflugs er ekki jafnaður þá eru flugvellirnir á landsbyggðinni ekki samkeppnishæfir.

Skiptir þetta einhverju máli?

Ég held að ég geti með sanni sagt að jöfnun flutningskostnaður á flugvélaeldsneyti til millilandaflugs skiptir íbúa landsbyggðarinnar miklu máli.

Það er staðreynd að ferðamenn verja styttri tíma á Íslandi en áður. Að auki fara sífellt færri ferðamenn af suðvesturhorninu. Þetta yrði því ekki síður öflugt skref til að styrkja dreifðari byggðir landsins.

Sjái flugfélög sér kost af því að lenda flugvélum sínum utan suðvesturhornsins er hægt að dreifa ferðamönnum betur, og hafa þar með betri stjórn á umferð þeirra um landið. Þannig væri hægt að hlúa að innviðum landsins, sem annars eru í hættu á að grotna niður.

Innviðirnir sem fyrir eru yrðu enn fremur betur nýttir, og reikna mætti með aukinni fjárfestingu í ferðaþjónustu sem er að stórum hluta vannýtt á landsvísu.

Að ógleymdri rúsínunni í pylsuendanum. Þetta gæfi mörgum íbúum landsbyggðarinnar kost á því að fljúga beint til útlanda, eða í það minnsta stytta ferðalagið innanlands verulega. Vegalengdin frá Akureyri til Keflavíkur og til baka eru rúmlega 850 km. Frá Egilstöðum er hún tæplega 1400 km. Það munar því um minna fyrir íbúa Norður- og Austurlands.

Er einhver að gera eitthvað?

Flugklasinn Air 66N lyfti grettistaki þegar hann landaði samningi við bresku ferðaskrifstofuna Super Break um að hefja beint flug frá Bretlandi til Akureyrar, þó einungis yfir vetrartímann í ljósi þess að skortur er á hótelrýmum yfir sumartímann. Er reiknað með um 90% sætanýtingu.

Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor í viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, gerði grófa útreikninga á þeim áhrifum sem flug Super Break mun hafa í för með sér. Hann telur að gera megi ráð fyrir að heildarvelta í ferðaþjónustu á Norðurlandi muni aukast um 15-20% þessa tvo mánuði sem flugið stendur yfir.

Enn vantar þó mikið upp á svo að flugin geti gengið áfallalaust fyrir sig. Tvö af fyrstu þremur flugum ferðaskrifstofunnar var snúið til Keflavíkur á síðustu stundu vegna þess að enginn ILS-aðflugsbúnaður er til staðar á Akureyrarflugvelli, en búnaðurinn tryggir að flugvélar geti lent þegar skyggni er ekki eins og best verður á kosið. Búnaðurinn kostar um 70-80 milljónir.

Á meðan að viðhald flugvalla á landsbyggðinni hefur verið mjög ábótavant síðastliðin ár hefur milljarða uppbygging átt sér stað í Keflavík.

Ætlar þingheimur að hlusta?

Núna þarf þingheimur að taka sig saman og hlusta. Þá sérstaklega á Líneik Önnu Sævarsdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, sem hefur verið ötull talsmaður fyrir bættri stöðu flugvalla á landsbyggðinni. Hefur hún m.a. lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara.

Ef flugvellir landsbyggðarinnar eiga ekki að standa höllum fæti á við þá á suðvesturhorninu þá er nauðsynlegt að jafna flutningskostnað á flugvélaeldsneyti til millilandaflugs. Að auki ýtir það undir að ferðaþjónusta geti blómstrað á landsvísu og getur þannig fyrirbyggt óhóflegan ágang á vinsælar náttúruperlur og unaðreiti landsins.

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.