Af fjölmiðlum

eftir Jóhann Óli Eiðsson

Það er alvitað að flestir hafa skoðun á ýmislegu sem fjölmiðlar gera. Séu kommentakerfi og Facebook-síður þeirra kannaðar líður varla sá dagur að í einhverjum heyrist „Er þetta frétt?“ eða sett sé út á hitt og þetta sem þeir gera. Stundum eru athugasemdirnar réttmætar en stundum eru þær út á þekju. Það er tilfinning höfundar að hið síðara eigi oftar við og verður því hér fjallað örstutt um nokkur slík dæmi en sú umfjöllun er fjarri því tæmandi. 

Reglulega er fjallað um myndbirtingar fjölmiðla og sér í lagi þegar hræðilegir atburðir eiga sér stað. Nýlegasta dæmið varðar umferðarslys á Suðurlandi þar sem þrír breskir ríkisborgarar létust og fjórir slösuðust þegar bifreið fór út af brú og féll um átta metra niður á sand fyrir neðan. Vegfarandi sem varð fyrstur á staðinn smellti af myndum af aðkomunni og þær enduðu á síðum fjölmiðla hér heima og ytra. Í kjölfarið fór af stað umræða um hve ótrúlega óviðeigandi myndbirtingin var og hve smekklaust það væri að nýta sér slíkan harmleik til að fá sem flest klikk á fréttina.

Oftar en ekki getur mynd sagt meira en þúsund orð og haft mun meiri áhrif heldur en langur texti. Nægir í því samhengi að rifja upp að gífurlegur fjöldi flóttamanna hafði drukknað á leið sinni yfir Miðjarðarhafið, til Evrópu frá Afríku, og mörg orð verið rituð um það en heimsbyggðin öll virtist ekki átta sig á vandanum fyrr en mynd af örendum Alan Kurdi komst fór í dreifingu um vefinn.  Því er miður að fylgjast með því að víða er verið að þrengja að fréttaljósmyndurum. Nægir í því samhengi að bera saman myndir frá eldgosinu í Holuhrauni annars vegar og Vestmannaeyjagosinu 1973 hins vegar. 

Við áðurnefndri gagnrýni er það því helst að segja að fjölmiðlum ber að segja satt, rétt og nákvæmt frá því sem þeir telja fréttnæmt. Frétt með góðri fréttamynd er betri en frétt sem ekki hefur slíka mynd. Þeir sem neyta frétta fjölmiðla ættu í raun að vilja að þær fréttir ættu að vera eins nákvæmar og unnt er og myndbirtingar af ömurlegum atburðum eru sannarlega liður í því. 

On the rec, off the rec og opinber vettvangur
Með tilkomu nýrra miðla hafa opnast möguleikar á því að koma fréttum hraðar í dreifingu en áður. Að sama skapi eru slíkir miðlar oft orðnir uppspretta frétta. Mörgum líst ekki á þessa þróun og hafa gripið til þess ráðs að setja fyrirvara í tíst, stöðufærslur á Facebook eða bloggpósta. Dæmi um slíkan fyrirvara er „Fjölmiðlum er óheimilt að nota þennan texta nema að viðhöfðu samráði.“

Um slíka fyrirvara er það að segja að þeir hafa ekkert gildi. Skiptir þá engu máli hvort slíkt skeyti er stillt á „public“ eða hvort það sé aðeins fyrir vini og vandamenn. Má í því samhengi minnast á dóma Hæstaréttar í MySpace-máli annars vegar og „Fuck you rapist bastard“ hins vegar. Í þeim síðarnefnda segir meðal annars, um það hvort myndbirting á Instagram fyrir um 100 fylgjendur teljist opinbert birting, „telst það birting samkvæmt hefðbundinni skýringu á hugtakinu að eitthvað sé gert aðgengilegt á rafrænan hátt fyrir jafn stóran hóp manna og að framan greinir, án tillits til þess hvort í hlut eiga vinir og kunningjar þess sem það gerir“. 

Það sem liggur hins vegar ekki fyrir er hve langt niður hins opinbera birting nær. Hve smár þarf til að mynda hópur á Facebook að vera til að birting teljist ekki opinber? Á móti er fullkomlega skýrt að innlegg í hóp sem telur hundrað einstaklinga eða fleiri telst til opinberrar birtingar og hverjum sem er, fjölmiðli eða ekki fjölmiðli, fullkomlega heimilt að miðla því áfram sem þar fer fram án þess að bera það undir þann sem lét orðin falla. 
Að sama skapi eru margir viðmælendur fjölmiðla sem telja að þeir geti stýrt því hvað er heimilt að hafa eftir þeim með því að segja í sífellu annaðhvort „on the rec“ eða „off the rec“. Þannig virkar það ekki. Hringi fjölmiðlamaður í þig og kynni sig sem slíkan hefur hann, nema annað sé sérstaklega tekið fram eða þið sammælst um annað fyrir fram, hug á því að hafa það eftir þér sem þú hefur að segja. Það að viðmælandi skipti í sífellu á milli „on the rec“ eða „off the rec“ hefur því ekki úrslitaáhrif heldur þarf fjölmiðlamaðurinn að samþykkja slíkt. 

Því gildir þar hið sama og í tilfellinu hér á undan, ef þú vilt ekki að eitthvað sé haft eftir þér, ekki þá segja það við blaðamann eða láta þau orð falla á opinberum vettvangi. Að öðrum kosti er slíkt mögulegt. Til að mynda er ekkert sem ég get gert í því ef DV fær þá flugu í hausinn að vilja brúka eitthvað úr þessum pistli.

Jóhann Óli Eiðsson

Pistlahöfundur

Jóhann Óli starfar sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu samhliða laganámi og föðurhlutverki. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Úlfljóts og gjaldkeri stjórnar ELSA Íslands. Áhugamál Jóla eru hvers kyns íþróttir, tónlist, kvikmyndir og bækur.