Ættum öll að vera í sama liði

eftir Ritstjórn

Síðastliðna viku hafa verið miklar umræður um upplýsingagjöf lögregluumdæma á útíhátíðum. Þá sérstaklega hefur þessi umræða beinst að ákvörðun Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum að halda uppteknum hætti frá því í fyrra um að tefja veitingu upplýsinga til fjölmiðla um nokkra daga ef upp koma kynferðisbrotamál. Í tilkynningu Lögreglustjórans segir að þetta sé gert til þess að vernda mögulega rannsóknarhagsmuni málanna en einnig til að tryggja velferð brotaþola.

Spurningin er hins vegar hvort þetta skili tilætluðum árangri eða ekki. Báðir pólar umræðunnar hafa nokkurs til síns máls og enginn vafi er á því að allir vilji finna bestu leiðina til þess að taka á jafn viðkvæmum og alvarlegum málum og kynferðisafbrot eru. Það er því ljóst að taka eigi alltaf afstöðu með brotaþola og passa upp á að rannsókn þessara mála eigi sér stað með sem greiðustum hætti. Ef sérfræðingar telja að því markmiði verði náð með því að fresta upplýsingagjöf til fjölmiðla um nokkra daga, með upplifun brotaþola sem útgangspunkt, þá verðum við að treysta því.

Lögreglan verður þá að standa við gefin loforð og tilkynna um öll kynferðisafbrot eftir hátíðina en ekki tefja það ,,þar til allir gleyma” eins var gert í fyrra, þegar upplýsingar um þær komu ekki fram fyrr en í október í fyrirspurn til ráðherra. Slíkt lítur út fyrir almenningi sem þöggunartilburðir, að til þess að nálgast slíkar upplýsingar þurfi að koma fyrirspurn alla leið frá Alþingi. Vel getur verið að það hafi ekki verið markmið Lögreglunnar en svona mál má aldrei þagga niður frekar en aðra glæpi.

Að því gefnu að lögreglan standi við orð sín og veiti fjölmiðlum þessar upplýsingar þá verða miðlarnir að átta sig á þeirri ábyrgð sem bera. Ef upplýsingarnar yrðu birtar jafn óðum og í ljós komi að ágengni fjölmiðla yrði til þess að valda brotaþolendum enn frekari hugarangri, þá verða fjölmiðlar að taka það til sín. Þeir verða sjálfir að huga að því hvernig þeir bera fram þessar upplýsingar og hafa hagsmuni brotaþola að leiðarljósi við birtingu þeirra.

Umræða síðustu viku hefur leitt það í ljós að allir málsaðilar, lögreglan, hljómsveitirnar, aðstandendur Drusglugöngunnar og fleiri vilji fyrst og fremst koma í veg fyrir að kynferðisbrot eigi sér stað á útihátíðum líkt og á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Til þess að slíkt sé hægt er nauðsynlegt er að halda umræðunni á lofti allan ársins hring, fyrir og eftir útihátíðir því þetta má aldrei þagga. Lögreglan, fjölmiðlar og jafnvel hljómsveitir útihátíða verða jafnframt að gera sig grein fyrir ábyrgðarstöðunni sem þeir eru í og markmiðið sé skýrt, útrýma kynferðisafbrotum, þó ekki enn sé búið að finna bestu leiðina til þess að ná því markmiði þá ættum við að vera öll í sama liði í þeirri vegferð.

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.