Aðgengi að nýtingu sameiginlegrar auðlindar

eftir Ritstjórn

Rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur ætl­ar að taka veiðigjöld í sjáv­ar­út­vegi til end­ur­skoðunar á ár­inu með það að mark­miði að lækka gjöld­in á lít­il og meðal­stór sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki og afkomu­tengja þau.” Þessi orð mátti lesa í Morgunblaðinu á öðrum degi ársins auk viðtals við Lilju Rafney Magnúsdóttur, þingmann Vinstri grænna og formann atvinnuveganefndar Alþingis.

Í viðtalinu brást Lilja Rafney við harðri gagnrýni Landssambands smábátaeigenda, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og fleiri aðila vegna veiðigjaldsins. Hagsmunaaðilarnir höfðu bent á að veiðigjald yrðu sérstaklega há í ár í ljósi þess að útreikningar miðuðu við rekstrarniðurstöðu sjávarútvegsfyrirtækja árið 2016, en það ár var mjög gott ár í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.

Röksemdafærsla hagsmunafélaganna er undarleg enda er gjaldið reiknað út eftir sömu forsendum ár hvert, þ.e.a.s. rekstarafkomu tveimur árum áður en gjaldið er lagt á. Þannig ætti félögunum að vera í lófa lagið að reikna gjaldið út svo það komi þeim ekki að óvörum tveimur árum síðar. Hvernig upphæð veiðigjaldanna er reiknuð er þó efni í annan pistil.

Hér er tilefni til að staldra við áform ríkisstjórnarinnar um að lækka gjöld á lítil og meðalstór fyrirtæki og afkomutengja þau. Í fljótu bragði mætti ætla að þetta væri hið besta mál og mikilvæg aðgerð til þess að koma í veg fyrir niðurskurð í greininni, færslu veiðheimilda á færri skip og færri bæjarfélög. Þegar betur er að gáð má þó sjá að í þessu myndu felast grundvallarbreyting á tilgangi veiðigjaldsins.

Hugmyndin með slíku gjaldi er að sjávarútvegsfyrirtæki greiði fyrir aðgang sinn að nýtingu ákveðins magns af sjávarafurðum samkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ef miða á gjaldið við veltu og stærð fyrirtækjanna munu fyrirtækin að greiða misháa upphæð fyrir aðgang að sama magni af sjávarafurðum. Hugmyndir í þessa veru er greinilega á skjön við tilgang veiðigjaldsins og er þetta afar varhugaverð stefnubreyting ef af henni verður.

Ef ráðast á í breytingar á veiðigjaldinu er nauðsynlegt að hafa tilgang gjaldsins að leiðarljósi, að allir spili eftir sömu leikreglum og greiði jafnmikið fyrir sömu gæði, þ.e. aðgang að auðlindinni.

 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.