Aðgát skal höfð í nærveru sálar

eftir Ritstjórn

Mannréttindum er gert hátt undir höfði í íslensku samfélagi. Í samræmi við það eru þau vernduð í stjórnarskrá lýðveldisins, en þaðan voru þau innleidd í íslenskan rétt árið 1995. Ísland er einnig aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu og fleiri alþjóðlegum sáttmálum. Tjáningarfrelsi manna er tryggð vernd í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar íslensku, en þar er friðhelgi manna einnig gert hátt undir höfði. Það er síðan almennt viðhorf til mannréttinda að þeim verði settar skorður þar sem hagsmunir annarra mæta þeim. Skilin þar á milli eru oft óglögg og stundum flókið að gera grein fyrir því hvar tjáningarfrelsi hvers einstaks borgara endar þannig að hann gangi á frelsi annarra til að þurfa ekki að bíða skaða vegna orða annarra. Það mætti því segja að þumalputtareglan sé sú að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.

Ef réttarframkvæmd hér á landi er skoðuð má draga ýmsar ályktanir um fjölmiðla og heimildir þeirra til að gera samfélaginu skil í fréttum og annarri umfjöllun. Einnig má draga ályktanir af stöðu opinberra persóna, en þær eru stundum taldar „liggja betur undir höggi” en hinn almenni borgari. Enn aðrar reglur gilda síðan um stjórnmálamenn, sem beinlínis hafa að atvinnu að rífast og kýtast um hin ýmsu mál.

Nýlega fengu 22 manns bréfsendingu frá Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, lögmanni, um að þeim yrði stefnt vegna orða sinna á samfélagsmiðlum ef þau bæðust ekki afsökunar á orðum sínum, drægju þau til baka og greiddu skjólstæðingum sínum skaðabætur auk lögfræðikostnaðar. Ummæli fólksins voru viðhöfð í opinberri umræðu á netinu um mál skjólstæðinga Vilhjálms, Hlíðarmálið svokallaða. Þeir voru í málinu grunaðir um nauðgun í „íbúð í Hlíðunum, útbúinni til nauðgana,” líkt og fullyrt var á forsíðu Fréttablaðsins. Vakti málið reiði meðal netverja, einkum vegna þess að mennirnir tveir voru ekki hnepptir í gæsluvarðhald. Þrátt fyrir að mennirnir tveir hafi hvorki verið ákærðir fyrir nauðgun né hlotið dóm, felldu margir slíka dóma í umræðunni. Fullyrt var að þeir væru sekir um nauðgun, eitt alvarlegasta brot sem hugsast getur. Af fréttaflutningi má þó ráða að ummælin eru jafn misjöfn og þau eru mörg og gætu einhverjir aðilanna hlotið dóm fyrir ummæli sín. Verður ekkert fullyrt hér um sekt þeirra sem bréf fengu frá Vilhjálms.

Sakleysi uns sekt er sönnuð

Á Íslandi gildir sú regla, líkt og í flestum vestrænum ríkjum, að menn teljist saklausir uns sekt þeirra hafi verið sönnuð. Reglan er lögfest í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Reglan er meginregla í íslenskum rétti og gengur í grófum dráttum út á að menn verði ekki settir bakvið lás og slá, nema öruggt sé að þeir hafi framið refsiverð brot. Oft er haft á orði í tengslum við regluna að skárra sé að tíu sekir menn gangi lausir en að einn saklaus sitji inni. Setningin hringir vafalaust bjöllum hjá þeim sem horfðu á bandarísku sjónvarpsþáttaröðina Making a murderer, sem frumsýnd var á Netflix í lok síðasta árs. Fjallar hún um Steven Avery nokkurn og meðferð hans í bandaríska réttarkerfinu þar sem hann var sakborningur í tveimur sakamálum.

Þrátt fyrir að saga Steven Avery líkist atvikum í Hlíðamálinu ekki að öllu leyti, sýnir hún átakanlega fram á óréttlætið sem felst í því að víkja í einstökum málum frá rétti manna til sanngjarnrar málsmeðferðar. Sama hver málsatvikin eru eða hver á hlut að máli verður að gera þá kröfu til borgara að virða þau réttindi annarra sem þeir sjálfir vilja njóta. Flestir geta verið sammála um að Norðmenn hafi sýnt af sér fádæma stillingu og stórmennsku þegar mál hryðjuverkamannsins Anders Breivik var rekið fyrir dómstólum landsins.

Að því sögðu skal þó tekið fram að hvorki dómarar né saksóknarar eru heilagir. Ljóst er störf þeirra eru ekki hafin yfir gagnrýni og nauðsynlegt er að veita þeim aðhald líkt og öðrum embættismönnum. Slíkt aðhald er hins vegar eðlisólíkt því þegar fullyrt er um sekt einstakra borgara.

Það er því ekki léttvægt mál að víkja frá jafn rótgróinni meginreglu og þeirri sem hér hefur verið til umræðu. Slíkt verður að minnsta kosti ekki gert af hentisemi eða vegna þess að málsatvik einstakra mála þykja ógeðfelld. Æskilegt væri ef dómstóll götunnar léti af þeirri aðferðafræði að skjóta fyrst en spyrja svo.

Líkt og áður sagði, verður ekki fullyrt hér um um sekt þeirra sem bréf fengu frá Vilhjálmi né þeirra sem sakaðir voru um nauðgun. Ástæðan er jú, fólgin í fyrrnefndri meginreglu, að menn séu saklausir uns sekt þeirra er sönnuð.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.