Að yfirlögðu ráði

eftir Ritstjórn

Á höfuðborgarsvæðinu búa að meðaltali 2,5 manneskjur í hverri íbúð. Við fyrstu sýn virðist það hlutfall segja lítið en ef það er skoðað annað hvort í sögulegu samhengi eða í samanburði við nágrannalönd okkar segir það mikla sögu.

Árið 1995 var hlutfallið um 2,75 en það lækkaði jafnt og þétt fram að hruni þegar það var komið niður í 2,47. Það er svipuð þróun og átti sér stað í nágrannalöndum okkar á þeim tíma. Eftir hrun hefur hins vegar orðið breyting á og hlutfallið á höfuðborgarsvæðinu hækkar á meðan það heldur áfram að lækka annarsstaðar og er nú að nálgast 2 manneskjur á hverja íbúð.

Fyrstu árin eftir hrun má segja að eðlileg skýring hafi verið sú að fleiri höfðu minna á milli handanna og fáir á þeim skóm að fara að fjárfesta í fasteign. Það sem er hins vegar einkennilegt og merki um vandamál er að hlutfallið hefur haldið áfram að hækka eftir að hagur almennings byrjaði að vænka.

Miðað við að kannanir sýna að flestir Íslendingar vilja áfram eiga sitt húsnæði er ekki hægt að álykta annað en að ekki sé nægjanlegt framboð af húsnæði og fleiri Íslendingar neyðast til þess að húka saman í íbúðum. Tölur sýna jafnframt að hlutfall ungs fólks sem á fasteignina sem það býr í hefur lækkað á undanförnum árum.

Ef eðlileg þróun hefði haldið áfram eftir hrun, þ.e. að meðaltal íbúa á hverja íbúð hefði haldið áfram að lækka hefði þurft að byggja um 5-11 þúsund íbúðir í viðbót á undanförnum árum m.v. að hlutfallið hefði verið á milli 2,3-2,4 manns á hverja íbúð.

Í grein sem birtist á vef Samtaka Iðnaðarins bendir Ingólfur Bender, hagfræðingur samtakanna, á að lítil úthlutun lóða hægi á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Hann segir að íbúðaþörf hvers árs miðað við fólksfjöldaþróun sé að lágmarki um 2.300-2.900 en geti verið meiri ef húsnæði er rifið til þess að byggja nýtt. Árið 2016 voru aðeins 1.234 fullgerðar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu en í spá fyrir árið í ár er reiknað með 1.540 fullgerðum íbúðum. Þó hér sé töluverð bæting á milli ára er þó ljóst að mikið vantar upp.

Ingólfur nefnir jafnframt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standa sig mis vel við úthlutun lóða. Þar nefnir hann að Kópavogur, Garðabær og Mosfellsbær standi sig vel í úthlutun lóða til íbúðauppbyggingar en að Seltjarnarnes, Hafnarfjörður og Reykjavík standi sig illa. Seltjarnarnes er sennilega það sveitarfélag sem síst hefur burði til að úthluta lóðum enda býr sveitarfélagið ekki yfir mikið af ónýttu byggingarlandi.

Þá segir Ingólfur að lokum að áætlanir Samtaka Iðnaðarins hafi verið uppfærðar og að á næstu árum þurfi að 774 íbúðir frá upphaflegum tölum vegna tafa. Tafa sem megi m.a. rekja til stefnu um þéttingu byggðar.

Ingólfur er greinilega prúður maður og lætur öðrum eftir að benda á hver beri raunverulega ábyrgð á því sem er bæði mikið inngrip inn í líf, sérstaklega ungs fólks, en líka aðstæður sem draga úr lífsgæðum almennings. Með því er verið að vísa í húsnæðisskortinn sem allir á aldrinum 20-35 ára hafa tekið eftir og flestir aðrir líka.

Reykjavík er lang stærsta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu en þar búa rúmlega 123 þúsund af þeim 216 sem búa á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt tölum Hagstofunnar. Dagur B. Eggertsson og fylgitungl hans sem mynda meirihluta í Reykjavíkurborg hafa á undanförnum árum keyrt á linnulausri þéttingu byggðar og taka það ekki í mál að byggja upp á nýjum stöðum hversu slæmt sem ástandið er. Undanfarin ár hefur Dagur lofað öllu fögru um að smá tafir hafi orðið á uppbyggingu en mikið af íbúðum muni koma inn á markaðinn, bara á næsta ári eða þarnæsta ári. Það ár hefur ekki enn komið og mun sennilega ekki koma á meðan hann stendur vaktina.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að þétting byggðar sé skynsöm í bland við uppbyggingu nýrra hverfa þá mun hún aldrei standa undir þörfinni. Sá einstrengingsháttur að vilja aðeins þétta byggð og ekkert annað dregur úr lífsgæðum almennings og þá sérstaklega ungs fólks.

Nú verður kosið í sveitarstjórnarkosningum í maí 2018. Þá gefst kjósendum tækifæri til þess að draga Dag til ábyrgðar fyrir markvissa skortstefnu sína og heimatilbúið húsnæðisvandamál. Það er vonandi að ungt fólk flykkist á kjörstað, krefjist úrbóta og komi meirihlutanum frá.