Að velja sér innflytjendur

eftir Alexander Freyr Einarsson

„Vá, ertu frá Íslandi. Eruð þið ekki að fara á Heimsmeistaramótið?“ spyr Uber-bílstjórinn mig. Sjálfur er hann einn af þúsundum innflytjenda frá Haítí sem hafa komið sér fyrir í Boston. Hann var áður leigubílstjóri en keyrir nú Uber og hefur búið í Boston í áratugi. Þetta er einstaklega viðkunnalegur náungi líkt og margir aðrir bílstjórar sem ég hef hitt frá Haítí. Áður en ég kem heim stekk ég yfir á mexíkóska skyndibitastaðinn Maria‘s Taqueria og kaupi mér bestu kjúklingavefjur sem ég hef smakkað.

Nýr dagur. Ég og betri helmingurinn tökum lestina heim að kvöldi til. Innfæddur Bandaríkjamaður í annarlegu ástandi spyr okkur óskiljanlegrar spurningar. Við löbbum framhjá honum án þess í raun að virða hann viðlits og hann byrjar að garga á okkur og bölva því hversu fjári heimsk við erum (með öllu svæsnari talsmáta). Einn af ókostum þess að búa í miðbænum er jafnframt sá að þar hangir gjarna alls konar fólk sem er því miður ekki á góðum stað í lífinu og biður gjarna um pening. Svo virðist sem flest þetta fólk sé borið og barnfætt í Bandaríkjunum þótt auðvitað séu undantekningar á því.

Bandarísk stjórnvöld, með forsetann í fararbroddi, berjast nú fyrir breyttri innflytjendalöggjöf. Markmiðið er að fá sem minnst af fólki frá „skítaholum“ eins og Haítí og fleiri frá fyrirmyndarríkjum á borð við Noreg. Sjálfsagt er ég sem Íslendingur í ágætum málum. Sérstaklega þar sem ég er í háskóla, enda eiga innflytjendur nú að komast til Bandaríkjana á eigin „verðleikum“ (e. merit-based immigration). Hugsjónin er sú að það hljóti að vera miklu betra fyrir hagkerfið og samfélagið í heild að fá menntafólk frá vestrænum löndum heldur en ómenntað fólk frá einhverjum þriðja flokks löndum. Fullkomlega rökrétt. Eða hvað?

Fullkomlega órökrétt

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er sú að ég held að bandarísk stjórnvöld og allir þeir sem aðhyllast hugmyndafræðina á bakvið „merit-based“ innflytjendastefnu séu algjörlega á villigötum. Það er ljóst að fjölmörg skoðanasystkin Trump og félaga er að finna á Íslandi, það þarf ekki að leita lengra en í ummælakerfi fjölmiðla. En hvers vegna er þetta svo rangur hugsanaháttur? Það sem ég segi hér að neðan á við um Bandaríkin, Ísland og öll heimsins lönd.

Við þurfum fjölbreytni

Að mínu mati bjóða fjölbreytt samfélög upp á margfalt betri lífsgæði en þau einsleitu. Ég hugsa með hryllingi til þess ef á Íslandi byggju einungis Íslendingar. Það eru forréttindi að geta fengið að upplifa aðra menningarheima í sínu eigin landi og það nærir bæði líkama og sál. Við getum þakkað innflytjendum fyrir marga af okkar bestu veitingastöðum. Þeir koma til landsins með alls konar vörur frá heimalandinu og deila áhugaverðum siðum. Í stuttu máli víkka þeir sjóndeildarhring okkar og auka við þá möguleika sem við höfum á mat og afþreyingu. Ég hugsa auðvitað sérstaklega um matinn, enda matmaður mikill, en auðvitað bjóða þeir upp á margt fleira.

Við þurfum vinnuafl

Nú byrjar pragmatíski hlutinn.Eftir því sem menntunarstig vestrænna landa eykst þurfum við í sífellt meiri mæli á ómenntuðu vinnuafli að halda til að ganga í þau störf sem losna. Einmitt þess vegna eigum við ekki endilega að einblína á að flyta inn lækna, verkfræðinga, stærðfræðinga, hagfræðinga eða aðra háskólamenntaða. Þvert á móti ættum við frekar að horfa til þess að auka okkar eigið menntunarstig og fylla í þau skörð sem opnast. Eins mikilvægur og vel menntaður mannauður er, þá er ekki síður mikilvægt fólkið sem lætur samfélögin ganga á hverjum degi. Fólkið sem eldar, þrífur, keyrir á milli staða, afgreiðir í verslunum og sér í raun almennt um að allir geti lifað góðu lífi. Þrotlaus vinna þessa fólks er olían sem smyr tannhjól samfélaganna. Sýnt hefur verið fram á það í rannsóknum að viðvera innflytjenda í Bandaríkjunum hækki lifistandard Bandaríkjamanna með því að hækka laun og lækka verð. Þetta er einmitt vegna þess að innflytjendur keppa ekki endilega við Bandaríkjamenn um störf.

Að samas kapi, ef „of margir“ Íslendingar vilja auka lífsgæði sín með því að fara í háskólanám þarf einhver að gegna þessu mikilvæga hlutverki. Þar geta innflytjendur verið nauðsynlegir fyrir samfélög. Ég get t.d. ekki ímyndað mér hvernig Bandaríkin myndu ganga upp ef ekki væri fyrir milljónir innflytjenda, löglegra og ólöglegra, frá Mexíkó og öðrum ríkjum rómönsku Ameríku. Þess vegna er þessi hugmynd um að vel menntað fólk eigi einhvern meiri rétt á að gerast innflytjendur en aðrir svo galin. Fyrst og fremst þarf að fá til landsins duglegt og heiðarlegt fólk sem getur leyst þau verkefni sem á þarf að halda.

Af hverju erum við yfir höfuð að ræða þetta?

Ég skil persónulega ekki af hverju við þurfum að ræða þessi mál yfir höfuð. Ég ætla ekki einu sinni að ræða mannúðarsjónarmiðin, þau eru efni í annan og jafnvel lengri pistil. Ég treysti því að allir lesendur séu góðar manneskjur að eðlisfari. Auðvitað vill enginn að land sitt fyllist af eintómum glæpalýð og ónytjungum frá öðrum löndum, hvað þá hryðjuverkamönnum. En ef við viljum á annað borð að einungis gott fólk geti búið í landinu okkar, á þá það sama ekki að gilda um Íslendinga? Eigum við t.d. að losa okkur við þá ógeðfelldu Íslendinga sem fjallað hefur verið um í #Metoo byltingunni, nú síðast þá sem misnota sér bága aðstöðu erlendra kvenna á viðbjóðslegan hátt? Auðvitað viljum við ekki að hingað flytji fleiri slíkir einstaklingar en viljum við þá fara á mis við allt það góða sem innflytjendur hafa upp á að bjóða því við þorum ekki að taka sénsinn? Ég held að allir séu sammála því að þeir vilji búa í samfélagi þar sem fólk hefur það almennt gott og sýnir hvoru öðru virðingu og kærleik. Hvaðan þetta fólk kemur ætti að vera algjört aukaatriði.

Örstutt lokaorð

Svo því sé haldið til haga, þá er ég ekki að segja að lítið samfélag eins og Ísland geti tekið við öllu því fólki sem til okkar vill koma. Sú afstaða er sjálfsagt alveg jafn barnaleg og sú sem Trump aðhyllist. En við verðum líka að sýna mannúð og þakka fyrir að vera í þeirri stöðu að fólk vilji koma til Íslands í von um betra líf. Við eigum að líta á þetta fólk sem gjöf en ekki gjald. Þetta fólk mun leggja mismikið af mörkum til samfélagsins og á mismunandi hátt alveg eins og við innfæddu. En að minnsta kosti verðum við ekki einsleitt og hundleiðinlegt samfélag. Og í þokkabót getum við jafnvel hjálpað alvöru manneskjum: körlum, konum og börnum, að eignast gott líf.

Alexander Freyr Einarsson

Pistlahöfundur

Alexander Freyr er MFin frá Massachusetts Institute of Technology og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann býr í New York þar sem hann starfar í fjárfestingarbanka. Áður starfaði hann hjá Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við Endurreisn” ásamt Dr. Ásgeiri Jónssyni. Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín.