Að þvinga fyrirtæki til hlýðni

eftir Ritstjórn

Á fimmtudag tilkynnti HB Grandi starfsfólki sínu að leggja ætti niður botnfiskvinnslu fyrirtækisins á Akranesi vegna fyrirsjáanlegs taprekstrar af vinnslunni á komandi árum og flytja starfsemina til Reykjavíkur. Við þessa aðgerð verður 86 af rúmum 270 starfsmönnum HB Granda á Akranesi sagt upp störfum.

Ákvörðunin hafði legið í loftinu frá því fyrr í vor þegar HB Grandi kynnti frá þessum áformum. Til þess að reyna að halda vinnslunni áfram á Akranesi reyndi bæjarfélagið að tryggja viðeigandi uppbyggingu hafnarsvæðisins í samstarfi við HB Granda og Faxaflóahafnir, en án árangurs.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tjáði sig í kjölfar ákvörðunar fyrirtækisins og sagði að eðlileg hagræðing innan sjávarútvegsins væri mjög mikilvæg en hún yrði að fara saman við kröfuna um byggðarfestu og atvinnuöryggi. Þar að auki ýjaði hún að þessi aðgerð kallaði á aukna gjaldtöku í sjávarútvegi. Þessi hugmynd ráðherrans um að þvinga fyrirtækið til hlýðni með skattheimtu er ekki vænleg til vinnings, ekki frekar en skattheimta almennt.

Í þessu tilfelli er augljóst að hugmyndin um að skattleggja enn frekar fyrirtæki sem fara í hagræðingaraðgerðir, muni einfaldlega fela í sér enn frekari niðurskurð til þess að geta staðið skil á skattinum. Hvað hyggst ráðherra þá að gera? Skattleggja fyrirtækið enn frekar þangað til að ekkert verður eftir?

Ef hugmyndir stjórnmálamanna um byggðarfestu og atvinnuöryggi eiga fram að ganga verður það að vera á grundvelli fyrirtækjanna sjálfra í gegnum hagkvæm rekstrarskilyrði. Pólitískur óstöðugleiki í formi sífelldra skattbreytinga vinnur þvert gegn þessu markmiði. Til þess að fyrirtæki geti sýnt fram á byggðarfestu og atvinnuöryggi þarf rekstrargrundvöllur fyrirtækisins að geta boðið upp á það.

 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.