Að þora ekki að segja frá

eftir Elín Margrét Böðvarsdóttir

Ég er búin að stara á tómt skjalið í allan dag. Sitja og bíða eftir að ég fái hugljómun og viti um hvað mig langar að skrifa. Það er af svo mörgu að taka, raunar svo mörgu að ég get ekki með nokkru móti komist að niðurstöðu um hvað brennur helst á mér þessa stundina. Í togstreitu við sjálfa mig. Löngu komin fram yfir skilafrest en mér er alveg sama.

Búvörusamningar, heilbrigðiskerfið, alþingiskosningar, fótbolti, hlýnun jarðar, jafnrétti, Sýrland og Donald (afsakið orðbragðið) fokking Trump. Allt kom þetta vissulega til greina en eftir nokkra umhugsun komst ég að því að það er eitthvað allt annað sem liggur mér á hjarta. En ég get ekki sagt frá.

Óttinn við álit annarra

Ég sat áhugaverða kennslustund í Háskóla Íslands fyrir ekki alls löngu síðan. Kennari námskeiðsins á það til að brjóta upp hið hefðbundna fyrirlestraform og í umræddum tíma höfðum við einmitt verið að ræða í hópum eitt af stóru málunum í pólitíkinni á Íslandi. Að lokinni kennslustund hafði kennarinn á orði við mig að það væri merkilegt alveg hvað stjórnmálafræðinemar eru margir hverjir smeykir við að tjá skoðun sína.

Fyrst varð ég hissa. Þvert á móti hafði það verið mín upplifun að stjórnmálafræðinemar væru ófeimnir við að taka rökræðuna og láta í sér heyra. Þessi orð kennarans fengu mig þó til að hugsa og svei mér þá ef hún hafði ekki bara nokkuð til síns máls. Flest höfðum við verið ansi diplómatísk í umræðunum og fáir greindu beinlínis frá sinni afstöðu til málsins.

Oft er það sem okkur langar mest að segja eitthvað sem við ýmist þorum ekki að ræða eða teljum okkur ekki geta rætt. Ég, og eflaust margir aðrir, treystum okkur ekki alltaf til að greina frá skoðunum okkar. Samfélagið er ekki alltaf tilbúið að heyra það sem við höfum að segja eða við sjálf ekki tilbúin að takast á við viðbrögð samfélagsins. Hvílíkir hugleysingjar. Eða hvað?

Umræðan er oft óvægin; það er farið í manninn en ekki í boltann, eins og Kári nokkur Stefánsson til að mynda orðaði það. Við erum oft hrædd við að segja hvað okkur finnst, af ótta við hvað öðrum finnst um það sem okkur finnst.

Kaffi eða te?

Það er margt sem mig langar að segja en hef ekki kjark til þar sem ég óttast viðbrögð annara. Hræsnari get ég verið. Sjálf hef ég reynt að hvetja aðra til að hika ekki við að segja hug sinn og nýta sjálfsagt tjáningarfrelsi sitt. En svo gugna ég sjálf þegar kemur að mér. Ef til vill er það bara ég sem þarf að þroska með mér kjark en ég held þó að það þurfi samfélagið að gera einnig.

Því að mínu mati er það tvennt ólíkt, að hafa ólíkar skoðanir, og það að hafa skoðun á því hvaða skoðanir aðrir hafa. Skiljiði hvað ég er að fara? Mér má finnast kaffi gott þótt þú sért meira fyrir te. Þar getum við verið sammála um að vera ósammála. En ef ég fer að halda því fram að þú hljótir að vera eitthvað klikkuð þar sem þú drekkir te en ekki kaffi þá er ég komin út á ansi hálan ís.

Þetta dæmi hefur sínar takmarkanir en kemur þó ákveðnum punkti býsna vel til skila. Má ekki hver hafa sína skoðun í friði? Mér finnst þetta en þér finnst hitt?

Auðvitað rökræðum við og verðum að vera óhrædd við að takast á um hugmyndir. Við verðum þó að sleppa því að ráðast á einstaklinginn fyrir að hafa einhverja ákveðna skoðun.

Vissulega getur það komið fyrir að ég taki of stóran sopa og brenni mig á kaffinu. En áhættan er þá alltaf mín, það er ekki hlutverk samfélagsins að álasa mér fyrir að taka sopa.

Elín Margrét Böðvarsdóttir

Pistlahöfundur

Elín Margrét er nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fréttamaður á Stöð 2. Hún starfaði áður sem blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu og ritstýrði Stúdentablaðinu skólaárið 2016-2017. Hún er einn stofnenda og fyrrverandi varaformaður ungmennaráðs UN Women á Íslandi og hefur einnig tekið þátt í starfi Vöku fls.